Gefið blóð, lifið lengur Útlit fyrir að hætta á hjartaáfalli sé lægri meðal blóðgjafa
Blóðgjafar sem gefa blóð til að hjálpa sjúkum kunna einnig að auka lífslíkur sínar, segja finnskir vísindamenn. Þeir hafa fundið sterka vísbendingu um að menn sem gefa blóð eru mun ólíklegri til að fá hjartaáfall en þeir sem ekki gefa blóð. Jukka Salonen og samstarfsmenn hans við háskólann í Kuopio segja að niðurstöðurnar styðji fyrri niðurstöður að einstaklingar með meira járnmagn í blóðinu séu líklegri til að fá hjartaáfall. Þeir höfðu ekki reiknað með að fylgnin væri svona mikil. "Það kom okkur verulega á óvart að finna svona mikla fylgni með því að gefa blóð og að verjast hjartaáfalli," segir Salonen. Rannsóknarhópurinn skoðaði sjúkraskrár 2862 karlmanna sem spannaði níu ára tímabil. Af 153 sem voru blóðgjafar, hafði aðeins einn fengið hjartaáfall, eða 0,7%. Meðal hinna sem ekki voru blóðgjafar höfðu 12% fengið hjartaáfall (American Journal of Epidemiology, vol 148, p 145). Lægra hlutfall blóðgjafa sem fá hjartaáfall, kann að stafa af því að við blóðgjöf minnkar magn járns í blóðinu. Í maí 1998 birtu Salonen og samstarfsmenn hans grein í Circulation (vol 97, p 1461) sem segir að menn með mikið magn járns í blóðinu væru meira en tvisvar sinnum líklegri til að fá hjartaáfall en þeir sem hafa minna magn járns í blóðinu. Rannsóknir á dýrum og einnig í glösum á rannsóknarstofu sýna að mikið magn járns stuðli að myndun kólesteróls á frjálsu radikal formi sem getur skaðað æðar. Kay-Tee Khaw, sérfræðingur í faraldsfræði við háskólann í Cambridge er varkár vegna þessarar niðurstaða. "Það sem þeir fundu er snúið en ég mundi ekki vísa þeim á bug. Við verðum að fara varlega í þessu efni. okkur hefur svo oft áður orðið á mistök". Khaw bendir á að vitað hafi verið að meira en fjórðungur (25%) þeirra sem ekki voru blóðgjafar hafi áður þjáðst af hjartasjúkdómum, en aðeins 8,5% þeirra sem voru blóðgjafar. "Ég hefði viljað að þeir hefðu fyrirfram tekið út alla sem vitað var að hefðu hjartasjúkdóma" sagði Khaw. Salonen getur vel ímyndað sér að menn sem gefa blóð komi frá hluta þjóðfélagsins þar menn eru meira meðvitaðir um hollustu en gengur og gerist. "Við reyndum að prófa þetta tölfræðilega, en það er hugsanlegt að einhver tilhneiging sé til staðar"sagði Salonen. Salonen telur að ákveðnar tilhneigingar geti ekki skýrt þann mikla mun á líkum á að fá hjartaáfall, sem er á hópunum. "Við erum sannfærðir um að það sé fylgni milli þess að gefa blóð og lægra hlutafalls hjartasjúkdóma" segir hann. Philip Poole-Wilson frá National Heart and Lung Institute í London er ekki sannfærður: "Þeir gætu haft á réttu að standa, en það er ekki sannað". Khaw staðhæfir að eina leiðin til að finna út svo öruggt sé hvort blóðgjafir verji hjartað fyrir sjúkdómum, sé að skipuleggja stóra rannsókn þar sem heilbrigðum einstaklingum sé skipt tilviljanakennt í þá sem gefa blóð og viðmiðunarhóp sem ekki gefur blóð. Salonen er þegar að leggja drög að slíkri rannsókn, þótt ekki hafi honum tekist að tryggja fjármagn til hennar.
Þýtt og endursagt úr grein sem birtist í New Scientist, október 1998 bls. 15. Björn Harðarson formaður Blóðgjafafélags Íslands.