Rauði kross Íslands stendur laugardaginn 5. október 2002 fyrir landssöfnun sem er tileinkuð sunnanverðri Afríku þar sem hungurvofan ógnar 13 milljónum manna. Takmarkið er að safna 20 milljónum króna til hjálparstarfs Rauða krossins í Afríku. Fyrir það fé er hægt að kaupa mat til tveggja mánaða fyrir 20 þúsund manns.
Vegna söfnunarinnar leitaði Rauði kross Íslands eftir stuðningi starfsmanna Landspítala - háskólasjúkrahúss. Framkvæmdastjórn sjúkrahússins og starfsmannaráð hafa sammælst um að taka undir þá beiðni og hvetja starfsmenn eindregið til þess að leggja sig fram í söfnuninni, gerast sjálfboðaliðar og ganga í hús á söfnunardaginn.
Söfnunin hefur yfirskriftina "Göngum til góðs". Söfnunarstöðvar um land allt verða opnar kl. 10.00 til 18:00 og gert er ráð fyrir því að hver þátttakandi gangi í um það bil tvo tíma. Þannig verði "gengið til góðs" og góðum málstað veittur stuðningur um leið og þátttakendur njóta útiveru í hressandi göngutúr. Mikilvægt er að göngugarpar skrái sig fyrirfram. Það er hægt að gera á vef Rauða kross Íslands, www.redcross.is.