Björg Einarsdóttir rithöfundur
Erindi 19. september 2002 við athöfn í nýbyggingu Barnaspítala Hringsins.
Hringurinn í Reykjavík og Barnaspítalinn.
Tengsl Hringsins og barnaspítala hefjast með fundarsamþykkt 13. apríl 1942. 19 félagskonur eru samankomnar til framhaldsumræðu um málefni er rætt hafði verið á aðalfundi tveimur mánuðum áður.
-----
Hringurinn var stofnaður í ársbyrjun 1904 og á, þegar hér var komið sögu, að baki nær 40 ára starf að berklavörnum. Félagið hafði meðal annar reist og rekið berklahæli á Kópavogsjörðinnií 15 ár. Þar höfðu um 400 manns átt heilsuvist og notið læknisþjónustu frá Vífilsstöðum. En undir miðja 20. öldina voru berklarnir á undanhaldi.
Í byrjun árs 1940 gáfu Hringskonur ríkinu hælið með gögnum og gæðum og frá þeim tíma hefur Gamla hælið í Kópavogi, glæsileg bygging eftir meistarann Guðjón Samúelsson, verið í eigu og umsjá Ríkisspítala.
En Kópavogsævitýri Hringskvenna lauk ekki með þessum atburðum því þær stunduðu búskap á jörðinni með tiltsyrk bústjóra. Ef marka má búnaðarskýrslur voru þær í röð góðbænda í Seltjarnarneshreppi. Búið bar sig og afrakstur af sölu landbúnaðarvara safnaðist í sjóði félagsins.
Þær leita eftir nýjum verkefnum og uppástunga kemur frá einni félagskonu: sjúkrastofnun fyrir börn!
Heimsstyrjöldin síðari var í algleymingi og áhrif þess komu fram hér á landi. Vera erlends herliðs olli umsvifum eftir kreppuárin, atvinna jókst og aðstreymi fólk til bæjarins. Fjölgun sjúkrarúma á spítölum var ekki í samræmi við aukinn fólksfjölda. Húsnæðisleysi var ríkjandi og erfiðleikar ef veikindi bar að einkum þegar börn áttu í hlut. Þetta ástand kom ekki síst niður á konunum.
-----
Á fyrrnefndum fundi í Hringnum í apríl 1942 var samþykkt tillaga stjórnar um að félagið skuli "... beita sér fyrir því að komið verði upp barnaspítala hér á landi, en þörfin fyrir slíka stofnum e mjög aðkallandi." Voru það orð að sönnu því engin sjúkradeild ætluð börnum fyrirfannst í landinu. Ef heimilunum var um megn að annast veik börn var þeim holað niður inni á sjúkrastofum hjá fullorðnum.
Fundarsamþykktin vorið 1942 verður byrjunarreitur Hringskvenna varðandi barnaspítala. Í þau 60 ár sem liðin eru hefur ýmislegt á dagana drifið og verða hér rakin nokkur helstu atriði.
-----
Næsta áratuginn er viðamikil fjáröflun hjá Hringnum og tekst að safna í gildan sjóð: Barnaspítalasjóð Hringsins sem enn er við lýði. Stofndagur sjóðsins telst vera 14. júní 1942. Þrjár Hringskonur greiða stofnframlag til sjóðsins, eitt þúsund krónur hver. Í Barnaspítalasjóðinn renna tekjur af búinu í Kópavogi og aðrar eigur félagins meðal annars sumarbústaður er félagið átti og nú var seldur, ennfremur afrakstur af margskonar fjáröflun.
Og sjóðurinn jókst hratt en það gerði einnig verðbólgan er tók að hrjá efnahagslíf landsmanna. Hringskonum var það raun að horfa á fé, sem mikið var haft fyrir að afla, rýrna að verðgildi. Þær leituðu ýmissa leiða til þess að koma fjármunum sínum í fast og máttu í því efni laga sig að hraða snigilsins.
Árið 1946 leituðu Hringskonur til ríkisvaldsins og áttu viðræður við heilbrigðisyfirvöld um að leggja sjóð sinn í opinberar framkvæmdir til úrbóta í sjúkrahúsmálum vegna barna. en ekki varð af neinum framkvæmdum í það sinn.
Árið 1948 voru viðræður um að leggja Barnaspítalasjóðin ó væntanlegan borgarspítala er þá var á viðræðustigi en það virtist of langt undan.
Árið 1950 leituðu Hringskonur að heppilegri húseign til kaups í því skyni að starfrækja sjálfar einkaspítala fyrir börn en virist, þegar betur var aðgáð full dýr kostur.
Árið 1951 kom upp sú hugmynd að félagið fengi reit á lóð Landspítala og það reisti á eigin spýtur hús fyrir barnasjúkrahús og væri það faglega tengt Landspítalanum. Af þeim framkvæmdum varð ekki.
Árið 1952 í maímánuði takst loks raunhæfir samningar milli Hringsins og ríkisvaldsins um að félagið láti Barnaspítalasjóð sinn ganga til framkvæmda við fyrirhugaða stækkun Landspítalans. Var það tengiálma til norðurs frá aðalbyggingu og fjögurra hæða viðbótarbygging þvert á hana í sömu línu og gamla aðalbyggingin. Skilyrði Hringins við þessa samningagerð var að í nýbyggingunni yrði sérstök spítaladeild ætluð börnum.
Í júnímánuði þetta ár (1952) er skipuð bygginganefnd og þar eiga Hringskonur sinn fulltrúa og hafa eigin arkitekt sér til ráðuneytis.
Á fjárlögum 1953 veitti Alþingi fyrst fé til framkvæmdanna, 1954 hófst vinna við grunninn og 1955 hófst síðan steypuvinna. Það ár reiddu Hringskonur fram fyrstu milljónina í bygginguna - en alls voru það 10 milljónir sem þær greiddu ur sjóðnum beint til byggingarframkvæmdanna.
Hið opinbera verður að raða verkefnum eftir þörfum. Hjúkrunarskóli Íslands var í byggingu á Landspítalalóð og hlaut að hafa forgang. Ekki myndi unnt að manna nýjar sjúkradeildir fagfólki nema fjölga nemum í hjúkrun og til þess þurfti skólinn aukið húsrými.
Árið 1956 fluttust hjúkrunarnemar úr heimavist í risihæð aðalbyggingarinnar og í nýja skólann.
Brugðið var á það ráð að innrétta til bráðabirgða barnadeild fyrir 30 börn í hluta þess rýmis sem losnaði í þakhæðinni.
Hringskonur kostuðu nauðsynlega muni innanstokks og tæki í þeirri deild.
Viðbótarbyggingin við Landspítalann var að hluta fullgerð 1965 og í vesturenda hennar á 2. og 3. hæð var komið upp spítaladeild er rúmaði um 60 börn. Hringskonur lögðu til búnað og tæki þegar sá spítali var vígður 26. nóvember 1965. Í vígsluræðu landlæknis kom fram að fjárframlag Hringsins til sjálfrar byggingarinnar nam um 13% af heildarkostnaði og hann bætti við: "án afskipta Hringskvenna hefði viðbótarbygging Landspítalans örugglega verið skemmra á veg komin en nú er."
Í tilkynningu til félagsins vegna opnunar spítalans frá landlækni er stofnunin nefnd: Barnaspítali Hringsins. Kemur heitið þar fyrst fram í gögnum félagsins. Nafngift sem skapar gagnkvæmni milli Landsspítala, er starfrækir spítala fyrir börn, og Hringskvenna sem reynast hollvinir hans.
Fyrir Hringskonur var það stór stund þegar Barnaspítalinn tók til starfa 23 árum eftir að þær helguðu sig því markmiði. Enn er barnaspítalinn á sama stað og allar götur síðan hafa félagskonur í Hringnum stuðlað að því að hann væri búinn nýjum og fullkomnum tækjum.
Árið 1971 var opnuð geðdeild fyrir börn við Dalbraut hér í borg. Samningar höfðu tekist með ríkinu, borginni og Hringskonum um að koma þeirri deild á laggirnar. Og félagskonur bjuggu deildina að öllu innanstokks "frá títuprjóni til píanós" eins og ein Hringskona orðaði það.
Árið 1976 var endurskipulögð vökudeild til að annast fyrirbura og veika nýbura sem á því þurfa að halda. Og þeirri deild hafa félagskonur sinnt með því að efla þar tækjakost. Þegar minnst var 20 ára starfs deildarinnar 1976 kom fram af tölum á veggspjaldasýningu sem uppi var af tilefninu að um 70% tækja þar var frá Hringnum.
Á skýrslum á níunda áratugnum mátti sjá að burðarmálsdauði hér á landi var um 0,7% og þá lægsta hlutfall í heiminum. Hringskonum er hugstæð vitneskja á borð við þessa. Þær höfðu sett sér með starfi sínu að bjarga barnslífum og jafnframt auka gæði þess lifs sem lifað verður. Þeim líkt og öðrum varð það áhrifamikið að sjá örsmáa nýja Íslendinga berjast fyrir tilveru sinni og fá styrk til þess í ytri búnaði og umönnun og hafa sjálfar með vinnu sinni átt hlut að því.
Árið 1984 á 80 ára afmæli Hringsins var markmið félagsins skilgreint á nýjan leik og þaðan í frá yrði öll áhersla á að upp kæmist sérhannaður barnaspítali. Af fremsta megni hafa þær stutt að því að þetta hús kæmist upp. Samkvæmar venju hafa þær lagt væna upphæð til búnaðar á sjúkrastofunum og senn munu Hringskonur inna af hendi rausnarlega fjárhæð til að styrkja lokafrágang hússins.
-----
Merki Hringsins tengt Barnaspítalanum: Hjúkrunarkona með barn í fangi umlukin hinum táknræna hring kom fram árið 1943 teiknað af Ágústu Pétursdóttur Snæland og mun eitthvert þekktasta logo er ber fyrir augu fólks hér á landi.
Margur hefur lagt störfum Hringsins lið og einn þeirra er borgarskáldið Tómas Guðmundsson með eftirfarandi hendingum árið 1947 vegna starfs félagsins að málum barna:
Ef sérhvert líf, sem á í vök að verjast,
á vísan liðstyrk þinn í hverri raun.
þá veistu, að þér er gert með guði að berjast,
og getur nokkur öðlast dýrri laun?
Þrautseigja Hringskvenna og stöðugur málflutningur þeirra í þágu verkefnisins hefur án efa haft sín áhrif í tímans rás.
Í heitinu Barnaspítali Hringsins kristallast annars vegar afl hins opinbera og hins vegar eldlegur áhugi einstaklinganna og í samstarfi þeirra mætast straumar samfélagsins og er það vel.
Markmið beggja er hið sama: Börn heilbrigð til líkama og sálar – dýrasta eign hverrar þjóðar!