Hringurinn og Landspítali - háskólasjúkrahús
Fréttatilkynning
19. september 2002
"Til barna á Íslandi" er yfirskrift á 150 milljóna króna gjafabréfi Barnaspítalasjóðs Hringsins sem afhent var fimmtudaginn 19. september 2002 við athöfn í nýbyggingu spítalans við Hringbraut. Þríburarnir Sara, Guðjón og Sif Ólafsbörn tóku við gjafabréfinu fyrir hönd barna á Íslandi. Þau fæddust 24. desember 1989 mikið fyrir tímann og voru í nokkrar vikur á vökudeild Barnaspítala Hringsins.
Barnaspítalasjóður Hringsins var stofnaður 14. júní 1942. Það hefur síðan verið aðal hugsjónamál Kvenfélagsins Hringsins að í Reykjavík verði byggður og rekinn sérhannaður spítali fyrir börn. Takmarkið er að nást og er stefnt að því að taka hann í notkun í byrjun næsta árs.
Merki Barnaspítala Hringsins hefur verið komið fyrir við innganginn í virðingarskyni við sex áratuga baráttu Hringskvenna og annarra velunnara spítalans. "Hringurinn hefur ekki byggt spítalann en félagið hefur svo sannarlega haldið málinu vakandi", segir Áslaug Björg Viggósdóttir formaður Hringsins.
Þann 26. maí 1994 undirrituðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Ríkisspítalar og Kvenfélagið Hringurinn með sér rammasamning um byggingu nýs barnaspítala. Í samningnum var ákvæði um fjármögnun framkvæmdanna. Þar skuldbatt Hringurinn sig til þess að leggja fram 100 milljónir króna úr Barnaspítalasjóði Hringsins. Tekið var fram að Kvenfélagið Hringurinn skipulegði fjársafnanir og rynnu frjáls framlög einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja til Barnaspítalasjóðs Hringsins til kaupa á búnaði og tækjum. Hringskonur eru nú að efna þennan samning og vel það, með því að afhenda féð sem þær lofuðu til byggingar nýs barnaspítala fyrir rúmum átta árum. Þær hafa staðið fyrir ýmiss konar fjáröflun á undanförnum árum en auk þess safnaðist í sjóðinn með gjöfum, áheitum og góðri ávöxtun söfnunarfjárins.
Gjöf Barnaspítalasjóðs Hringsins nemur 150 milljónum króna og er það von Hringskvenna að framlagið verði til þess að ljúka megi við allan spítalann og taka allar deildir hans í notkun á sama tíma.
Fyrr á árinu afhenti Hringurinn 50 milljónir króna til kaupa á rúmum og búnaði í spítalann. Sú gjöf var í minningu frú Kristínar Vídalín Jacobson, aðalhvatamanns og stofnanda Hringsins. Barnaspítalasjóður Hringsins hefur því lagt hinum nýja Barnaspítala Hringsins til 200 milljónir króna á árinu.