Hringskonur afhenda stórfé til nýbyggingar Barnaspítala Hringsins í hófi í anddyri hans fimmtudaginn 19. september. Starfsmönnum LSH er velkomið að líta þar inn meðan húsrúm leyfir. Til hófsins er boðið öllum félagskonum í Hringnum, auk fleiri gesta.
Við athöfnina verður tónlistarflutningur ungmenna frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og flutt ávörp. Meðal annars fjallar Björg Einarsdóttir rithöfundur um tengsl Barnaspítalans við Hringinn. Áslaug Björg Viggósdóttir núverandi formaður Hringsins flytur ávarp. Fyrrverandi formaður Hringsins, Elísabet Hermannsdóttir, afhendir þríburunum Söru, Guðjóni og Sif gjafabréfið en þau taka við því fyrir hönd barna á Íslandi.
Árið 1994 gerðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Ríkisspítalar og Kvenfélagið Hringurinn með sér rammasamning um byggingu nýs barnaspítala. Texti samningsins fylgir hér á eftir:
Rammasamningur um byggingu nýs barnaspítala
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Ríkisspítalar og Kvenfélagið Hringurinn gera með sér saming um byggingu nýs barnaspítala, Barnaspítala Hringsins.
Í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar um byggingu nýs banaspítala og samkomulag heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra um fjármögnun, gera samningsaðilar með sér eftirfarandi samning.
1. Að byggður verði nýr barnaspítali á lóð Landspítala. Um er að ræða nýtt hús við Fæðingardeild Landspítalans, samtals um 4000 fermetrar. Verktími verið þrjú ár. Heildarkostnaður er áætlaður 600 m.kr.
2. Fjármögnun framkvæmda verður sem hér segir:
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið beiti sér fyrir að á fjárlögum næstu þriggja ára verði 125 m.kr. á ári til byggingarinnar.
Heilbrigðisráðuneytið leggi fram 20 m. kr. á árinu 1994.
Kvenfélagið Hringurinn leggi fram úr Barnaspítalasjóði Hringsins 100 m.kr.
Byggingasjóður Nýja Barnaspítalans leggi fram 20 m.kr.
Ríkisspítalar leggi fram auk lóðar, vinnu við hönnun og tækniaðstoð.
Miðað er við að Reykjavíkurborg leggi fram 100 m. kr., sbr. yfirlýsingu borgarstjóra þar um.
3. Kvenfélagið Hringurinn skipuleggi fjársafnanir og renni frjáls framlög einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja til Barnaspítalasjóðs Hringsins til kaupa á búnaði og tækjum.
4. Könnuð verði hagkvæmni þess að fram fari alútboð í verkið.
5. Undirbúningur að byggingunni hefjist 1. júní 1994 en verklok verði á árinu 1997.
Samningur þessi er gerður í þríriti og heldur hver samingsaðili einu eintaki.
Reykjavík 26. maí 1994
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
Guðmundur Árni Stefánsson
Kvenfélagið Hringurinn
Elísabet Hermannsdóttir
Ríkisspítalar
Davíð Á Gunnarsson