14. júní 2001
Til fjölmiðla!
Framkvæmdastjórn Landspítala - háskólasjúkrahúss samþykkti skipan slysa- og bráðaþjónustu á allra næstu árum á fundi sínum 12. júní 2001. Þar er mörkuð sú stefna að slysa- og bráðaþjónusta spítalans verði sameinuð á einum stað. Til þess þurfi hins vegar annað hvort nýbyggingu eða endurbyggingu sem varla verður lokið við á næstu þremur til fjórum árum. Ekki er tekin afstaða til þess hvort slysa- og bráðaþjónustan verði byggð upp í Fossvogi eða Hringbraut. Það ráðist af þeirri stefnu sem þurfi að marka í náinni framtíð um uppbyggingu spítalans í heild. Meðal annarra ákvarðana sem tengjast samþykkt um skipulag slysa- og bráðaþjónustunnar er að slysa- og bráðamóttaka verði sameinuð um næstu áramót í Fossvogi undir stjórn slysa- og bráðasviðs. Móttakan byggi á hugmyndafræði bráðalæknisfræðinnar. Tvískipting bráðavakta milli Hringbrautar og Fossvogs verði lögð niður frá sama tíma. Sjúklingum sem taldir eru vera með bráðakransæðastíflu verði beint á Hringbraut. Í Fossvogi er ekki gert ráð fyrir sjálfstæðri hjartadeild. Við Hringbraut verði hjartadeild ætlað meginrými í nábýli við hjartaskurðlækningar. Þá er í samþykkt framkvæmdastjórnar gert ráð fyrir því að innlagnastjóri stýri bráðainnlögn og álagi milli húsa.
Kveðja
Jón Baldvin Halldórsson upplýsingafulltrúi Landspítala - háskólasjúkrahúss
Samþykkt framkvæmdastjórnar LSH í heild:
Um slysa- og bráðaþjónustu LSH o.fl.
Samþykkt framkvæmdastjórnar 12. júní 2001
Frá því ákvörðun var tekin um sameiningu SHR og RSP hefur legið ljóst fyrir að framtíðarskipan slysa- og bráðaþjónustu spítalans hefur afar víðtæk áhrif á aðra þætti starfseminnar. Með slysa- og bráðaþjónustu er vísað til þjónustu við sjúklinga sem koma gagngert vegna slysa, óvæntra atvika og/eða veikinda sem ber brátt að og þola ekki bið. Þar sem slysa- og bráðaþjónusta spítalans er eitt af lykilverkefnum hans er eðlilegt að finna þessari starfsemi farveg til lengri framtíðar.
Sviðsstjórar lyflækningasviðs I og slysa- og bráðasviðs LSH, framkvæmdastjóri lækninga og framkvæmdastjóri hjúkrunar hafa leitt undirbúning ákvörðunar um tilhögun á slysa- og bráðaþjónustu spítalans. Þá hafa hjúkrunarfræðingar og læknar sett fram skoðanir og álit um hvað teljist heppilegast í þessu efni. Unnin hefur verið áætlun um skipulag og skiptingu sérgreina til ársins 2004. Loks hafa erlendir aðilar lagt framkvæmdastjórn til ráð um efnið.
Samstaða er um að slysa- og bráðaþjónustuna sé heppilegast að hafa alfarið á einum og sama stað. Í skipulagi nýrra spítala er slíkt fyrirkomulag almennt talið heppilegast fyrir sjúklingana og rekstur þjónustunnar. Víða hefur þó þurft að deila starfseminni á fleiri en einn stað af húsnæðis- og álagsástæðum. Þá er bráðaþjónustan all mismunandi eftir því hvaða sérgreinar eiga í hlut. Tillit til alls þessa þarf að taka þegar skipan þjónustunnar er ákveðin til lengri og skemmri tíma hér á landi.
Eftirfarandi meginsjónarmið hafa verið lögð til grundvallar um skipan slysa- og bráðaþjónustu LSH:
1. Hagsmunir og öryggi sjúklinga sitji í fyrirrúmi.
2. Mörkuð verði stefna LSH um uppbyggingu slysa- og bráðaþjónustu til framtíðar á einum stað þó svo hún verði í áföngum.
3. Tekið verði tillit til aðstöðu sérgreina í lækningum og hún vegin og metin gegn öðrum hagsmunum sem varða slysa- og bráðamóttöku.
4. Fjárhagsleg hagræðing og faglegur ávinningur sem sameiningu spítalanna var ætlað að ná, skili sér með sannfærandi hætti.
5. Jafnað verði álagi á þær deildir sem eru takmarkandi í starfseminni s.s. á skurðstofum, gjörgæslu, bráðamóttöku, legurými og röntgenstarfsemi.
6. Loks þurfa allar ákvarðanir, svo sem um tækjakaup, endurnýjun húsnæðis, vaktaskipulag og rekstur að vera heildstæðar út frá meginstefnu spítalans.
Með ofangreindar forsendur og skýringar í huga hefur framkvæmdastjórn tekið eftirfarandi ákvörðun:
Í fyrsta lagi verði sú stefna ótvírætt mörkuð að slysa- og bráðaþjónusta spítalans verði sameinuð á einum stað. Til þess þarf annað tveggja, nýbyggingu eða endurbyggingu sem varla verður lokið innan næstu 3-4 ára. Hvort slysa- og bráðaþjónusta byggist upp í Fossvogi eða við Hringbraut ræðst af þeirri stefnu sem marka þarf í náinni framtíð fyrir uppbyggingu spítalans í heild.
Í öðru lagi verði tilhögun þannig næstu 3-4 árin að slysa- og bráðamóttaka verði í Fossvogi. Þangað verði sjúklingum beint í bráðatilfellum og við það leggst af tvískipting bráðavakta sem verið hefur, eigi síðar en um áramót 2001/2002. Þeim sjúklingum sem taldir eru vera með bráðakransæðastíflu verði beint á Hringbraut, eða eftir greiningu í Fossvogi þangað. Í Fossvogi verði ekki rekin sjálfstæð hjartadeild. Við Hringbraut verði hjartadeild ætlað sitt meginrými í nábýli við hjartaskurðlækningar.
Í þriðja lagi verði slysa- og bráðamóttaka í Fossvogi sameinuð undir stjórn slysa- og bráðasviðs við næstu áramót. Móttakan byggir á hugmyndafræði bráðalæknisfræðinnar sem merkir að allir sjúklingar deildarinnar verði á ábyrgð starfsmanna hennar, sem eftir frumgreiningu leita til sérdeilda spítalans um áframhaldandi greiningarvinnu eða meðferð sé þess þörf. Hjartalæknir starfi ávallt á slysadeild til þess að greina bráðatilvik.
Í fjórða lagi verði komið á starfi innlagnarstjóra á slysa- og bráðasviði frá 1. október nk. sem stýri bráðainnlögn og álagi milli húsa. Innritunarmiðstöðvar starfi í báðum húsum og verði undir stjórn svæfinga-, skurðstofu- og gjörgæslusviðs spítalans.
Í fimmta lagi verði komið upp göngudeild hjartasjúkra, háþrýstingsdeild og skipulegri heimaþjónustu við hjartasjúklinga. Starfsemin verði byggð upp m.a. fyrir tilstuðlan sjóðs Jónínu S. Gísladóttur.
Í sjötta lagi verði bráðamóttaka vegna kvensjúkdóma og geðsjúkra við Hringbraut og undir stjórn hlutaðeigandi sérgreina.
Í sjöunda lagi verði nýtt hjartaþræðingartæki sett upp við Hringbraut og þar reknar tvær hjartaþræðingarstofur og smám saman unnið að því að bæta vaktþjónustu við þræðingar og æðavíkkanir.
Í áttunda lagi verði starfsemi hjartadeilda sameinuð stjórnunarlega frá 1. júlí nk og einn yfirlæknir settur frá þeim tíma. Stöður hjúkrunardeildarstjóra verða óbreyttar fyrst um sinn og endurskoðaðar í samhengi við flutninga á þjónustunni milli húsa. Allt starf hjartadeildar verði skipulagt sem ein heild og mannahald yfirfarið fyrir 1. september. Mörkuð verði stefna um þjálfun starfsfólks til þess að geta ávallt sinnt hjartaþræðingum og æðavíkkun ef aðstæður kalla á.