Krabbameinsmiðstöð Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur starfsemi
Helgi Sigurðsson forstöðumaður Krabbameinsmiðstöðvar LSH við opnun hennar. Hann fagnaði tvöfalt, bæði opnuninni og sjálfur er hann fimmtugur í dag. |
Karl Tryggvason prófessor er formaður fagráðs krabbameinsmiðstöðvarinnar. Hér er hann á tali við Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra og Ragnheiði Haraldsdóttur skrifstofustjóra í heilbrigðisráðuneytinu |
Krabbameinsmiðstöð Landspítala - háskólasjúkrahúss tók til starfa í dag, 18. janúar 2002. Hún verður til húsa að Skógarhlíð 12 í Reykjavík.
Forstöðumaður krabbameinsmiðstöðvarinnar er dr. Helgi Sigurðsson, sérfræðingur og dósent í krabbameinslækningum. Formaður stjórnar er Margrét Oddsdóttir, sérfræðingur og dósent í skurðlækningum. Formaður fagráðs er dr. Karl Tryggvason, prófessor við Karólínsku stofnunina í Stokkhólmi og heiðursdoktor við læknadeild Háskóla Íslands.
Framkvæmdastjórn Landspítala - háskólasjúkrahúss ákvað á fundi sínum 13. júní árið 2000 að stofna krabbameinsmiðstöð (KM-LSH). Eftir nokkurn undirbúning og með liðstyrk líftæknifyrirtækjanna Urðar, Verðandi, Skuldar (UVS) og Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) er krabbameinsmiðstöðin orðin að veruleika.
Hlutverk Krabbameinsmiðstöðvar Landspítala - háskólasjúkrahúss er að stuðla að bættri meðferð krabbameina og að efla vísindavinnu. KM-LSH starfrækir meðferðartengda skráningu krabbameina, safnar saman, flokkar og vinnur úr heilsufarsupplýsingum. Í samvinnu við meðferðaraðila er KM-LSH ætlað að stuðla að samræmingu meðferðar með því að aðstoða við gerð leiðbeininga um meðferð fyrir einstök krabbamein. Farið verður með heilsufarsupplýsingar eins og þær séu hluti af sjúkraskrá á LSH. Gæðaskráning upplýsinga og rannsóknir eru sín hvor hliðin á sömu mynt, en þegar um vísindarannsóknir er að ræða þarf að sækja um aðgang að upplýsingum eftir að tilskilin leyfi eftirlitsaðila liggja fyrir.
Krabbameinstilfellum hefur fjölgað um 40% hér á landi á síðustu 15 árum (750 árið 1985 og 1050 árið 2000) og frekari 30% aukning er áætluð á næstu 10 árum. Á næstu árum er búist við verulegum framförum á sviði krabbameinslækninga, meðal annars vegna líftæknibyltingarinnar. Í því sambandi má nefna að yfir 400 ný lyf eru í rannsóknum sem geta komið að notum við meðhöndlun krabbameins. Til samanburðar eru um 100 slík lyf í notkun í dag.
Evrópusambandið samþykkti árið 1986 átak gegn krabbameini (European action programme against cancer). Þar var tekið fram að frekari framfarir í krabbameinslækningum byggðust meðal annars á aukinni samvinnu þeirra er koma að greiningu, meðferð og umönnun krabbameinssjúklinga. Var lögð á það áhersla að til staðar þyrftu að vera miðstöðvar sem meðal annars önnuðust gagnasöfnun og stöðlun meðferðar (coordinating and data centre). Slíkar miðstöðvar hafa verið starfræktar í ýmsum löndum um árabil.
Með tilkomu líftæknifyrirtækja hafa augu manna opnast fyrir því að með skipulagðri söfnun, flokkun og úrvinnslu heilsufarsupplýsinga væri hægt að búa til verðmæti. Heilbrigðisþjónustan hefur því fengið sóknarfæri sem þekkingariðnaður. Landspítali - háskólasjúkrahús gegnir lykilhlutverki á þessu sviði hér landi, ekki einungis með menntun og starfsþjálfun heilbrigðisstarfsmanna, heldur ennfremur með því að skapa starfsaðstöðu sem stuðlar að því að hugvit og þekking nýtist sem best.
Stjórnin
Samkvæmt stofnskrá sem unnið er eftir eru sjö menn í stjórn Krabbameinsmiðstöðvar LSH og formaður er Margrét Oddsdóttir. Varaformaður stjórnar er Bjarni Þjóðleifsson prófessor og aðrir stjórnarmenn eru Friðbjörn Sigurðsson, Óskar Þór Jóhannsson, Jón Gunnlaugur Jónasson, Hrund Scheving Thorsteinsson og Anna Salvarsdóttir.
Fagráðið
Stjórninni til ráðuneytis er fagráð sem í eiga sæti sjö manns sem tilnefndir eru af samstarfsaðilum krabbameinsmiðstöðvarinnar. Formaður þess er prófessor Karl Tryggvason. Af hálfu landlæknisembættisins situr í fagráði Þorvaldur Jónsson, læknadeildar Páll Torfi Önundarson, hjúkrunardeildar Jón Ólafur Skarphéðinsson, UVS Snorri Ingimarsson, ÍE Laufey Ámundadóttir og af hálfu Krabbameinsfélags Íslands Jórunn Erla Eyfjörð.
Mynd fyrir ofan: Fagráð Landspítala - háskólasjúkrahúss hélt fyrstavfund sinn 18. janúar 2002 að Eiríksstöðum.