Tekin hefur verið í notkun íbúð að Eskihlíð 6a í Reykjavík sem hjónin Ólafur H. Halldórsson og Sigríður Hálfdánardóttur ánöfnuðu Barnaspítala Hringsins eftir sinn dag til afnota fyrir veik börn og fjölskyldur þeirra. Íbúðin er í næsta nágrenni við Barnaspítalann og kemur sér ákaflega vel. Þeim Ólafi og Sigríði varð ekki barna auðið og uppfylltu ættingjarnir óskir þeirra um hvernig ætti að ráðstafa íbúðinni.
Landspítali - háskólasjúkrahús sá um að endurnýja íbúðina og koma þar fyrir húsgögnum og tækjum. Barnaheill gaf stofuhúsgögn, sjónvarp, hljómflutningstæki og gluggatjöld í alla íbúðina. EPAL gaf rúm í bæði svefnherbergin og Jóhann Ólafsson ehf. gaf leirtau.
Ólafur fæddist að Mábergi á Rauðasandi í Vestur-Barðastrandarsýslu 1. júní 1921. Hann andaðist á Landspítalanum 13. apríl 2000. Ólafur stundaði sjómennsku á yngri árum, ók sendiferðabíl en stærstan hluta starfsævi sinnar vann hann hjá Eimskipafélagi Íslands.
Sigríður fæddist að Neðri-Fitjum í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu 12. febrúar 1920. Hún andaðist á Landspítalanum 30. ágúst 1999. Sigríður lærði fatasaum í Reykjavík og starfaði við það í fjölmörg ár, ásamt því að annast heimilið og aldraða móður sína.
Ólafur og Sigríður giftu sig þann 20. október 1945 og hófu búskap í Reykjavík. Árið 1974 fluttu þau í Eskihlíð 6a og bjuggu þar til dánardægurs.
Mynd ofan við: Sigþrúður Ingimundardóttir, einn ættingja gefendanna
afhenti mynd af þeim sem á að hanga uppi í íbúð Barnaspítalans
Svona er útsýnið af svölum íbúðarinnar að Eskihlíð 6a.
Byggingar Landspítala Hringbraut blasa við, þar á meðal
Barnaspítali Hringsins þar sem kraninn trónir
enn yfir nýbyggingunni. (mynd vantar)