Opnuð hefur verið göngudeild endurhæfingarþjónustu Landspítala – háskólasjúkrahúss í húsnæði Landspítala Kópavogi.
Við deildina starfar þverfaglegt teymi félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðings, iðjuþjálfa, lækna, sálfræðinga, sjúkraþjálfara og talmeinafræðings. Deildin þjónar einstaklingum í endurhæfingu, sem geta nýtt sér göngudeildarþjónustu. Boðið er upp á greiningu, ráðgjöf og meðferð. Notuð eru ýmis matstæki til að komast að hvers vegna röskun á færniþáttum á sér stað.
Deildin leggur áherslu á þverfaglega vinnu og mál hvers einstaklings eru skoðuð í heild. Færnimöt, aðlögun á umhverfi og útvegun hjálpartækja ásamt aðstoð frá félagsráðgjafa og sálfræðingi auðveldar einstaklingnum að lifa með sjúkdómi sínum og/eða fötlun.
Á deildinni er einnig svokallaður hreyfigreinir en hann mælir árangur meðferðar við hreyfiskerðingu, þar sem mæld er hreyfigeta/ganga í upphafi meðferðar og við lok hennar.
Með vorinu er fyrirhugað að opna dagdeild á sama stað sem fyrst um sinn sinni krabbameinssjúklingum í endurhæfingu.
Hægt er að panta tíma á göngudeild og í hreyfigreiningu í síma 560 2706 á venjulegum skrifstofutíma.