Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands afhenti Landspítala Grensási höfðinglega gjöf við athöfn í dag. Um er að ræða 4 rafknúin sjúkrarúm og lyftubúnað í 2 sjúkraherbergi, að verðmæti um 2 milljónir króna. Gjöfin er mikilvægt framlag til endurhæfingarsviðs spítalans, sem sinnir mörgum sjúklingum með mikla fötlun í kjölfar alvarlegra slysa og sjúkdóma.
Málefni ungs fólks með heilaskaða
Í tengslum við þetta var vakin athygli á samstarfi Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands og Landspítala Grensási um málefni ungra einstaklinga með nýlega heilaskaða. Helstu ástæður þessarar fötlunar eru slys og sjúkdómar í miðtaugakerfi. Fötlun einstaklinganna getur verið mjög mismunandi, allt frá truflun á hugarstarfi upp í umfangsmikla líkamlega fötlun með mikilli skerðingu á hreyfigetu. Sameiginlegt þessum einstaklingum er þó það, að hin nýja fötlun hefur haft í för með sér miklar félagslegar afleiðingar og gjörbreytt öllum fyrri forsendum þeirra í íslensku samfélagi. Þrátt fyrir skyldur sveitarfélaga hefur þjónusta þeirra við þennan hóp verið allt of lítil og síðbúin. Bið eftir einhvers konar úrræði er oft mjög löng, sem hefur þýtt að þessir einstaklingar hafa þurft að búa á endurhæfingardeild svo mánuðum og stundum árum skiptir, í bið eftir nýju heimili. Þetta þýðir jafnframt að viðkomandi legurými er "teppt" sem aftur skerðir möguleika Landspítala til að sinna fleiri sjúklingum. Mikill skortur er á sambýlum en þessum hópi myndi í mörgum tilvikum henta slíkt úrræði.
Aðrir skjólstæðingar, sem hafa minni fötlun, lenda oft í svipuðum kringumstæðum. Þeir gætu dvalist annars staðar en á legudeild, en eru of fatlaðir fyrir dvöl á sjúkrahóteli eða á heimili sínu fyrst um sinn. Þeir fara jafnframt að upplifa slæmar hliðar þess að dvelja of lengi á stofnun, með neikvæðum áhrifum á þróun endurhæfingar þeirra. Þeir þurfa því að komast af legudeild, en komast ekki þaðan af félagslegum ástæðum. Svarið við ofangreindum vanda er fjölþætt. Mikilvægt er að sköpuð séu skilyrði fyrir búsetu við hæfi, bæði á sambýlum og hjúkrunardeildum ætluðum ungum einstaklingum. Á því sviði bíða stór verkefni ríkis og sveitarfélaga.
Áfangasambýli
Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands hefur ákveðið að leggja sitt af mörkum með samstarfi við endurhæfingarsvið Landspítala um að reisa svokallað áfangasambýli, sem er stig milli dvalar á endurhæfingardeild og varanlegrar búsetu. Með sterkum starfslegum tengslum við endurhæfingarstarfsemi Landspítala mun áfangasambýlið geta lengt endurhæfingartímabil hvers einstaklings jafnframt því sem dvöl á endurhæfingardeild styttist. Frá áfangasambýli munu einstaklingar útskrifast í eigin íbúð eða önnur búsetuúrræði á vegum viðkomandi sveitarfélags. Með þessu móti fær viðkomandi sveitarfélag meira ráðrúm til að skipuleggja dvöl einstaklingsins og taka við honum í viðeigandi húsnæði og þjónustustig. Áfangasambýli mun með þessu móti nýtast mun fleiri einstaklingum en fjöldi rúmanna, sem verða átta, gefur til kynna.
Frekari undirbúningur
Þessar fyrirætlanir hafa verið kynntar heilbrigðisráðherra og borgarstjóra, sem sýnt hafa málinu mikinn skilning og áhuga. Með það veganesti hefur undirbúningur haldið áfram í því skyni að fá fram tölur um rekstrarkostnað, stærð húsnæðis og umfang þjónustu.