Líknarfélagið "Barnið okkar" hefur gefið út hljómdisk með jólalögum til að afla fjár til tækjakaupa fyrir Barnaspítala Hringsins. Félagsskapur þessi hefur það eina markmið að afla fjár fyrir Barnaspítalann. Fjáröflunin núna fyrir jólin felst í útgáfu á hljómdiski með jólalögum og verður hann seldur til styrktar málefninu. Þekktir listamenn flytja lög á diskinum, svo sem Sigríður Beinteinsdóttir, Helga Möller, Eyjólfur Kristjánsson, Guðrún Gunnarsdóttir og fleiri. Davíð Oddsson forsætisráðherra og Gunnar Þórðarson tónlistarmaður gáfu lag á hljómdiskinn en meðal annarra lagahöfunda má nefna Þorgeir Ástvaldsson sjónvarps- og tónlistarmann. Þorgeir kynnti efni hljómdisksins á fundi með blaða- og fréttamönnum í dag. Markmiðið með sölu á honum er að safna fyrir rannsóknartæki til mælingar á lungnastarfsemi. Tækið kostar um 7 milljónir króna og hefur þegar verið pantað.
Jólaplata til stuðnings Barnaspítalanum
Samtökin "Barnið okkar" hafa gefið út hljómdisk með jólalögum. Ágóðinn verður notaður til að kaupa lungnarannsóknartæki fyrir Barnaspítala Hringsins.