Sigurður Guðmundsson sigraði í samkeppni um listskreytingu Barnaspítalans
Stór ævintýrastóll úr graníti og bronstré verður reistur við nýja Barnaspítalann. Hann er hluti af listskreytingu sem vann til fyrstu verðlauna í samkeppni meðal listamanna.
Sigurður Guðmundsson myndlistarmaður sigraði í samkeppni um listskreytingu Barnaspítala Hringsins. Upphaflega var haldin opin samkeppni en forvalsnefnd valdi síðan 6 listamenn til að gera tillögu að listskreytingu nýja barnaspítalans. Dómnefnd valdi úr tillögum og greindi frá úrslitum á samkomu í anddyri K-byggingar, Landspítala Hringbraut. Hjálmar Árnason alþingismaður og formaður byggingarnefndar Barnaspítala Hringsins var jafnframt formaður dómnefndar. Í dómnefnd áttu líka sæti tveir fulltrúar Sambands íslenskra myndlistarmanna, einn fulltrúi Barnaspítala Hringsins og einn fulltrúi Kvenfélagsins Hringsins. Verk listamannanna 6 verða til sýnis í anddyri K-byggingar til 4. desember.
Umsögn dómnefndar um verðlaunatillöguna
Tillaga merkt nr. 1- SG 55555
Verkið er vel útfært og stílhreint og þjónar afar vel tilgangi sínum sem verk fyrir Barnaspítala Hringsins. Útilistaverkið ævintýrastóll úr graníti og bronstré örvar ímyndunarafl barnanna óháð hreyfigetu þeirra. Inniverkið er látlaust og góð tenging við náttúruna, einnig skemmtilegt leiktæki fyrir börnin. Textar úr ævintýrum í gluggum kallast á við granítstólinn úti og bronstréð. Verkið sem heild gerir sjúklinga, starfsfólk og aðstandendur að þátttakendum í ævintýri. Verkið sem heild er úr varanlegum efnum og flytur einföld en jákvæð skilaboð. Verkið er stílhreint með léttu yfirbragði og fallegt.
Landspítali notar vafrakökur m.a. til þess að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun