Farandsýningin Hláturgas 2000 verður opnuð á Landspítala Fossvogi í dag, föstudaginn 17. nóvember, kl. 15:00. Hún verður þar til 16. desember. Þar með má segja að sýning þessi sé komin í hring, jafnvel í tvennum skilningi. Sýningin byrjaði hringferð sína um landið á Landspítalanum, þar sem hún var opnuð 14. janúar. Síðan hefur hún verið á fjölmörgum sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum víða um land, einn mánuð á hverjum stað. Fyrirhugað var að hringferðinni lyki á Sjúkrahúsi Reykjavíkur í Fossvogi. Það er hins vegar ekki lengur til, Landspítalinn og Sjúkrahús Reykjavíkur hafa runnið saman í Landspítala - háskólasjúkrahúss en hláturgasinu verður dreift í Fossvogi engu að síður, eins og til stóð upphaflega.
Íslenska menningarsamsteypan ART.IS stendur að Hláturgasi, sem hefur farið um landið í boði lyfjafyrirtækisins Glaxo Wellcome á Íslandi. Landspítali Fossvogi er tíundi viðkomustaðurinn. Magnús Pétursson forstjóri opnar sýninguna og háðfuglinn Flosi Ólafsson ætlar að skemmta gestum og gangandi við opnunina.
Hláturinn lengir lífið, segir gamalt máltæki. Skrýtlur um lækna og skopmyndir frá sjúkrahúsum hafa löngum skemmt fólki en það er fyrst nú á síðustu árum að skilningur hefur vaknað á því að skop og gamanmál geti átt þátt í lækningum, létt lund sjúklinga og virkjað þann lækningarmátt sem í líkamanum býr. Hláturtaugarnar gegna ekki síður mikilvægu hlutverki en áþreifanlegri líffæri og er viðbúið að þáttur skopsins muni aukast á sjúkrahúsum og læknastofum í framtíðinni.
Hláturgas kemur í framhaldi af sýningunni Lífæðar sem sett var upp á ellefu sjúkrahúsum hringinn í kringum landið árið 1999 af Íslensku menningarsamsteypunni ART.IS, en á henni voru verk eftir nafnkunna myndlistarmenn og ljóðskáld. Hugmyndin að baki þessum sýningum er að lífga upp á yfirbragð sjúkrastofnana og gera þannig sjúklingum og aðstandendum dvölina þar bærilegri.
Hláturgas er unnið í samstarfi við Íslandsdeild norrænna samtaka um læknaskop (Nordisk Selskap for Medisinsk Humor) sem voru fyrir nokkru stofnuð, þau fyrstu sinnar tegundar. Hér leiða þekktir innlendir og erlendir skopteiknarar og hagyrðingar saman hesta sína. Á sýningunni er að finna fjölda skopteikninga eftir bæði innlenda og erlenda höfunda. Af íslenskum teiknurum má nefna Þorra Hringsson, Hallgrím Helgason, Brian Pilkington, Gísla Ástþórsson og Halldór Baldursson. Efnið er ýmist gamalt eða unnið sérstaklega fyrir Hláturgasið. Jafnframt hefur verið gefin út 80 síðna bók með skoptreikningum, bröndurum, íslensku rímnaskopi og spaugilegum læknaskýrslum sem dreift verður ókeypis á viðkomandi sjúkrahúsum.