Opið hús verður á Vífilsstöðum föstudaginn 17. nóvember frá kl. 14:00 til 18:00 í tilefni af 90 ára afmæli staðarins. Kynnt verður starfsemi sem er núna á Vífilsstöðum og til sýnis verða ljósmyndir og munir síðan Vífilsstaðir voru heilsuhæli fyrir berklasjúklinga. Sumar myndanna hafa ekki sést áður opinberlega. Auk þess verður sýnd stutt kvikmynd sem var tekin á fjórða áratugnum á Vífilsstöðum.
Heilsuhælið á Vífilsstöðum hóf starfsemi 5. september 1910 en þá var tekið á móti fyrstu sjúklingunum. Það var rekið af Heilsuhælisfélaginu til 1. janúar 1916 en þá tók ríkið við rekstrinum. Tilgangur með heilsuhælinu var eingöngu að vista og lækna berklasjúklinga. Vífilsstaðir voru berklahæli fram undir 1970 en þá var nafninu breytt í Vífilsstaðaspítala og komið þar upp lungnadeild. Vífilsstaðir eru hluti af Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Þar er núna lungnadeild, langlegudeild fyrir lungnasjúklinga, húðlækningadeild, göngudeild fyrir lungnasjúklinga og göngudeild fyrir ofnæmissjúklinga, sú eina á landinu. Einnig fer fram á Vífilsstöðum greining og meðferð öndurnartruflana í svefni.
Saga Vífilsstaða í 90 ár er vörðuð mörgum viðburðum og merkum. Til dæmis var Samband íslenskra berklasjúklinga stofnað þar en SÍBS kom upp vinnuheimilinu að Reykjalundi. Helsti hvatamaður að því var Oddur Ólafsson en hann var um tíma aðstoðarlæknir á Vífilsstöðum.