Steinunn Ingvarsdóttir var kjörin fyrsti formaður hjúkrunarráðs Landspítala - háskólasjúkrahúss. Stofnfundur ráðsins var haldinn 27. október og var ráðinu þá kosin stjórn. Einnig voru samþykktar reglur hjúkrunarráðs, eins og fram kemur í fundargerð og kosið í nefndir.
Allir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður spítalans eiga aðild að hjúkrunarráði. Meginhlutverk þess er að vera til ráðgjafar um fagleg málefni hjúkrunar. Einnig á það vera hvati og þátttakandi í umræðu og stefnumótun í hjúkrun. Eitt af hlutverkum hjúkrunarráðs er líka að styðja við og efla klínískar rannsóknir í hjúkrun. Hjúkrunarráð er til ráðuneytis fyrir stjórnendur heilbrigðismála innan og utan sjúkrahússins um hvaðeina er lýtur að faglegum málefnum hjúkrunar,stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu.
Forsaga hjúkrunarráðs Landspítala - háskólasjúkrahúss
Sjúkrahús Reykjavíkur: Hjúkrunarráð var fyrst stofnað á SHR þann 22. janúar 1997 að frumkvæði Sigríðar Snæbjörnsdóttur hjúkrunarforstjóra SHR. Ráðið fékk strax mikinn meðbyr innan stjórnkerfis spítalans og komst fljótt á mikil og góð samvinna við læknaráð spítalans. Fyrsti formaður þess var Sæunn Kjartansdóttir. Hjúkrunarráð SHR starfaði fram að sameiningu spítalanna og var formaður Katrín Pálsdóttir. Landspítalinn: Undirbúningsvinna að stofnun hjúkrunarráðs við Lsp hófst haustið 1999 en þá var stofnaður undirbúningshópur að stofnun hjúkrunarráðs að frumkvæði Önnu Stefánsdóttur hjúkrunarforstjóra. Formaður undirbúningshóps var Elsa Friðfinnsdóttir. Undirbúningsvinna var á lokastigi þegar spítalarnir voru sameinaðir. Starfsstjórn hjúkrunaráðs LSH: Við sameiningu spítalanna var mynduð starfsstjórn hjúkrunarráðs skipuð fulltrúum úr stjórn hjúkrunarráðs SHR og fulltrúum úr undirbúningshópi Lsp. Starfsstjórnin starfaði fram að 27. október þegar formlega varð til hjúkrunarráð LSH. |