Læknaþáttur öldrunarþjónustu Landspítala - háskólasjúkrahúss endurskipulagður í kjölfar sameiningar
Í kjölfar sameining öldrunarþjónustu Landspítala - háskólasjúkrahúss og þjónustusamnings síðastliðið sumar var 1. október tekið upp nýtt skipulag á læknaþætti, samkvæmt upplýsingum frá Pálma V. Jónssyni forstöðulækni. Skipulagið er byggt á faglegum grunni og mun leiða til ákveðinnar sérhæfingar, sem vonast er til að skili sér í auknum gæðum og skilvirkni. Eftirtaldir fimm þættir eru skilgreindir:
1. Almennar öldrunarlækningar. Áhersla er á endurhæfingu, líknarþjónustu og skammtímainnlagnir. Þessi starfsemi er öll á Landakoti, deildum K1, K2, L2, L3, dagspítala og mótttöku- og endurkomudeild. Helga Hansdóttir er settur yfirlæknir, þar sem Pálmi V. Jónsson gegnir starfi forstöðulæknis.
2. Heilabilunarþáttur. Áhersla er á greiningu og meðferð minnissjúkdóma. Deildir L1 og L4 á Landakoti tilheyra þessari starfsemi, svo og minnismóttaka. Þá annast þessi þáttur þjónustu við sambýlið í Foldabæ og dagvist í Hlíðarbæ og við Lindargötu. Jón Snædal er yfirlæknir.
3. Bráðaöldrunarlækningar og ráðgjafaþjónusta. Áhersla er á þjónustu við aldraða á bráðamóttöku og deildum LSH við Hringbraut og í Fossvogi. Þeir einstaklingar sem þurfa á tækniþjónustu eða eru bráðveikir munu verða undir umsjá þessa þáttar. Deildir B4 í Fossvogi og 13G við Hringbraut sinna nú þessu hlutverki. Þverfaglegt teymi annast ráðgjöf. Jón Eyjólfur Jónsson er yfirlæknir.
4. Hjúkrunarheimilisþáttur. Öldrunarlæknar LSH annast bæði daglega þjónustu og vaktþjónustu við fjölmörg hjúkrunarheimili á Reykjavíkursvæðinu samkvæmt sérstökum þjónustusamningum. Forstöðulæknir öldrunarþjónustunnar er jafnframt yfirlæknir þessarar starfsemi. Samningar eru við eftirtalin heimili: Droplaugastaði, Seljahlíð, Sunnuhlíð, Skógarbæ, Víðines og Holtsbúð.
5. Þróun, gæði, skipulag. Á þessum þættti verður unnið að gæðaþróun, gerð klínískra leiðbeininga, rafrænni sjúkraskrá og ýmiss konar skipulagsmálum í samvinnu við forstöðulækni. Þessi starfsemi tekur til starfseminnar á LSH og hjúkrunarheimilum. Umfang þjónustunnar og þróun fræðigreinarinnar kallar á að þessum málum verði sinnt af kostgæfni og þess vegna er stofnað til nýrrar stöðu. Ársæll Jónsson er yfirlæknir.