Landspítali-háskólasjúkrahús
Magnús Pétursson forstjóri
5. september 2000
Áhersluatriði í starfi Landspítala – háskólasjúkrahúss veturinn 2000-2001
Stöðugt er unnið að umbótum í starfi Landspítala – háskólasjúkrahúss. Margt hefur verið vel gert á síðustu misserum og önnur verkefni eru framundan. Hafa þarf hugfast að Landspítali - háskólasjúkrahús hefur þríþættu hlutverki að gegna. Skýr hugsun um hlutverk spítalans skiptir miklu í umræðu um stöðu, rekstur og framtíð hans.
Í fyrsta lagi er hlutverkið að veita sjúklingum bestu þjónustu sem sjúkrahúsið ræður yfir. Þjónustuhlutverkið við sjúklinga er þannig afar mikilvægt og hlýtur að vera í brennidepli. Annast er um mikinn fjölda fólks á legudeildum spítalans ár hvert og dag- og göngudeildarþjónusta eykst stöðugt. Að undanförnu hefur heimsóknum á slysa- og bráðamóttökur fjölgað langt umfram áætlanir.
Í öðru lagi er spítalinn kennslustofnun meira og minna fyrir allar heilbrigðisstéttir í landinu; lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, meinatækna og fleiri. Nærri lætur að árlega séu 400 til 500 nemendur á spítalanum. Erlendis er talið að um 15-25% kostnaðar við rekstur kennslusjúkrahúss megi rekja til þessa. Kennsluhlutverk spítalans er þar af leiðandi snar þáttur í starfinu og er önnur stoð þess að spítalinn geti talist háskólasjúkrahús. Framundan er mikið starf í samvinnu við Háskóla Íslands og aðrar menntastofnanir að skilgreina spítalann sem háskólasjúkrahús og verðuga kennslustofnun.
Í þriðja lagi er vísindastarf og hvers konar þekkingaröflun órjúfanlegur hluti af starfsemi spítalans. Rannsóknir og vísindaiðkun er hin meginstoð þess að spítalinn teljist til háskólaspítala í líkingu við þá sem starfa í nágrannalöndum okkar. Framundan er að marka þessu starfi skýrari línur en nú er. Tekur þetta jafnt til atriða er varða starfsmenn spítalans sem einstaklinga, þ.e.a.s. höfundarréttar þeirra, samskipta við einkafyrirtæki og vísindastofnanir og þess sem spítalinn leggur af mörkum til þessa í formi fjármuna, aðstöðu eða annarrar fyrirgreiðslu.
Það er afar mikilvægt að stjórnvöld og allir starfsmenn Landspítala – háskólasjúkrahúss tileinki sér þá hugsun sem býr að baki því að spítalinn hafi þríþættu hlutverki að gegna samkvæmt lögum og líti á það sem tækifæri til þess að ná enn meiri árangri í starfi.
Þann 1. október n.k. tekur gildi nýtt skipulag klínískra sviða spítalans. Fjölmörg verkefni framundan tengjast því. Má þar nefna val sviðsstjóra og hvers konar umbætur í rekstri sem gera sviðsstjórunum fært að rækja hlutverk sitt. Leggja þarf rækt við fleira til þess að spítalinn nái markmiðum sínum og því sem stjórnvöld ætlast til af starfseminni. Einnig er afar mikilvægt að spítalinn styrki ýmislegt í daglegu starfi til þess að geta átt eðlileg viðskipti við stjórnvöld. Í því skipta upplýsingar og staðreyndir um daglegt starf höfuð máli.
Í fyrra og í ár var unnið að ýmsum verkefnum sem hafa leitt til umbóta. Nefna má þjónustusamninga við þá sem stýra öldrunarlækningum og endurhæfingu spítalans. Fjárhagur rannsóknarstofa spítalans og Blóðbankans hefur verið skilgreindur og rekstrinum markaður nýr sess. Þá hefur verið unnið að því að skerpa skilin milli þess sem almannatryggingum ber að standa straum af í kostnaði og því sem er spítalans.
Stjórnarnefnd, framkvæmdastjórn og einstakir framkvæmdastjórar hafa fjallað um þau verkefni sem framundan eru og stuttlega er lýst hér. Það er sameiginleg afstaða og ákvörðun þessara aðila að vinna skilmerkilega að verkefnunum og upplýsa starfsmenn um gang mála. Leitað verður til starfsfólks spítalans um þátttöku en einnig til utanaðkomandi aðila teljist þess þörf. Viðfangsefnin eru gróflega flokkuð lesendum til glöggvunar og til þess að lýsa áherslum í starfi.
Háskólahlutverk og fræðslumál
Skilgreining á þætti kennslu og rannsókna
Á vegum menntamálaráðuneytisins starfaði á sl. ári nefnd um samskipti Landspítala-háskólasjúkrahúss og Háskóla Íslands. Ákveðið er að stofnanirnar tvær fjalli sameiginlega um það hvernig þessum málum verði best háttað, á grundvelli samkomulags rektors HÍ og forstjóra LSH.Í samræmi við þríþætt hlutverk spítalans varðandi umönnun og meðferð sjúklinga, rannsóknir og kennslu er mikilvægt að skilgreina og skýra stöðu sameiginlegra starfsmanna, hvernig fjármunir skiptast í starfi spítalans o.fl. Setja þarf fram tillögur um hvernig spítalinn, Háskóli Íslands og aðrar menntastofnanir geta best rækt sitt hlutverk þar sem samvinna er órjúfanleg. Því þarf að meta hvort eitthvað í starfseminni hafi borið annað ofurliði.
Höfundarréttur – einkaréttur
Unnið verður að leiðbeiningum sem skilgreina vinnulag við umsóknir um einkaleyfi vegna uppfinninga starfsmanna í starfi þeirra við spítalann, svo og reglum um hlutdeild spítalans í greiðslum vegna hugverkaréttinda. Áformað er að þetta verði gert í samstarfi við Háskóla Íslands og starfsmenn spítalans. Með auknu samstarfi við einkaaðila er brýnna en áður að skýrar reglur gildi um þetta í starfi opinberra stofnana.
Viðmiðunarsjúkrahús
Árangur og gæði þeirrar þjónustu sem LSH veitir þarf að meta með raunhæfum samanburði við sambærilegar stofnanir í öðrum löndum. Í því sambandi verður litið til Norðurlandanna, Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna. Því verður stofnað til samstarfs við sjúkrahús sem fús eru til slíks og henta til samanburðar á faglegum árangri og rekstri. Bætt skráning og samræmt upplýsingakerfi LSH, þar sem upplýsingar verða á sambærilegu formi og hjá heilbrigðisstofnunum í öðrum löndum, gefur möguleika á að bera saman lykiltölur úr rekstri, s.s. um kostnað verkefna og árangur. Aukið samstarf háskólasjúkrahúsanna á Norðurlöndum gæti m.a. snúist um þetta. Hentug samanburðarsjúkrahús mætti einnig finna í Bretlandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum.
Þróunarmál
Sjúkraskrárgerð
Í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu hefur verið unnið að því að skilgreina og vinna að uppsetningu á rafrænni sjúkraskrá. Þetta er umfangsmikið verkefni sem hefur víðtæk áhrif á starfsemi spítalans og vinnu starfsfólks. Áfram verður unnið að því næstu misserin. Skipuð hefur verið nefnd starfsmanna spítalans til að vinna að þessu máli.
Gagnagrunnur á heilbrigðissviði
Vinna við gerð rafrænnar sjúkraskrár er forsenda fyrir gagnagrunni á heilbrigðissviði sem stjórnvöld hafa ákveðið að komið verði upp. Samskiptum spítalans og rekstrarleyfishafa gagnagrunnsins þarf síðan að finna farveg sem tryggi eðlilega framvindu starfs við uppbyggingu gagnagrunnsins. Skipuð hefur verið af hálfu spítalans samninganefnd til viðræðna við rekstrarleysishafa.
Þróunaráætlun og skipulag
Unnið er að svokallaðri þróunaráætlun fyrir spítalann. Í henni er tekin til skoðunar líkleg þróun sérgreina, þjónustuþörf, þjónustustig sem sjúkrahúsið keppir að, húsnæðisþörf og möguleikar á að mæta henni. Þetta starf er liður í endurskoðun á deiliskipulagi á Landspítalalóðinni. Samskonar athugun fer nú fram á lóð spítalans í Fossvogi og á Vífilsstöðum. Verkið er unnið í samstarfi við sænska og danska ráðgjafa og eru drög að skýrslu væntanleg undir áramót.
Nýtt starfsmanna- og bóhaldskerfi
Í samstarfi við ríkisbókhald er unnið að því að skilgreina, bjóða út og velja ný stjórnunarkerfi fyrir ríkisstofnanir. Útboð verður á haustdögum, fáist til þess nægjanlegt fjármagn. Ákveðið hefur verið að LSH verði í hópi þeirra fyrstu sem reyna nýju kerfin enda um að ræða stofnun með mjög margþætta starfsemi. Nýjungarnar verða teknar í notkun í áföngum strax á næsta ári. Mikið starf í kennslu og kynningu er framundan til þess að tækin nýtist vel þeim sem ábyrgð bera á starfsmannahaldi og rekstri.
Krabbameinsmiðstöð
Spítalinn kannar möguleika á stofnun miðstöðvar í krabbameinsrannsóknum í samstarfi við einkaaðila. Skilgreina þarf hlutverk slíkrar miðstöðvar, hlutdeild þeirra sem að henni stæðu í rekstrinum og fjármögnun starfsins. Starfshópur hefur nú þegar verið skipaður undir forystu lækningaforstjóra til þess að leiða þetta starf.
Samstarf við landsbyggðina
Sjúkrahúsin í landinu eiga nú þegar með sér margþætt samstarf. Fara þarf yfir hvernig þessu samstarfi er háttað og hvernig er heppilegast að haga því. Til skoðunar kemur m.a. þjónusta við sjúklinga, fjarlækningar, notkun fjármuna, endurmenntun starfsmanna, starfsmannaskipti, samstarf um innkaup og möguleiki á að jafna vinnu, t.d. með fjarvinnslu gagna.
Stjórnskipulag
Stjórnendur og stjórnendafræðsla
Um leið og nýtt stjórnskipulag fyrir klínísk svið spítalans tekur gildi og valdir hafa verið sviðsstjórar til starfa verður lögð áhersla á aukna fræðslu fyrir stjórnendur, m. a. með útgáfu handbóka og reglulegu fræðslustarfi. Það er liður í því að efla stjórnendur og auka færni þeirra við að gegna vel hlutverki sínu í þjónustu við sjúklinga, rekstri, rannsóknum og kennslu. Sviðsstjórum, bæði rekstrarlegum og klínískum, verður sett starfslýsing þannig að þeir viti sem best stöðu sína í stjórnkerfi spítalans og öðrum sé hún jafnframt vel kunnugt.
Skipurit og skipulag
Þótt veigamestu þættir nýs skipulags spítalans hafi verið ákveðnir er ýmislegt í starfseminni sem ekki hefur verið fundinn staður í skipuriti. Á haustdögum þarf að ljúka því. Dæmi um þetta er gæðastarf spítalans sem þarf að gera markvissara en nú er. Í því tilliti kann að vera áhugavert að sjúklingar verði virkari við mat á þjónustunni en verið hefur og þarf að finna því farveg. Einnig er ákveðið að athuga hvort og þá með hvaða hætti spítalinn geti beitt sér í forvarnarstarfi. Ákveða þarf líka hvernig samstarfi hjúkrunarráðs og læknaráðs spítalans og yfirstjórnar hans verði best fyrir komið og skilvirkast.
Skrifstofur framkvæmdastjóra
Skipulag og verkaskipting innan skrifstofu fjárreiðna og upplýsinga og skrifstofu tækni og eigna er nú að mestu lokið. Á næstu vikum er nauðsynlegt að leggja áherslu á uppbyggingu skrifstofu kennslu og fræða sem er ný í stjórnkerfinu. Á hennar herðum hvílir fjölmargt af því sem er framundan í samstarfi LSH við HÍ og aðrar menntastofnanir innanlands og utan.
Félagsþjónusta sjúkrahúsa
Arnarholt: Starfsemi Arnarholts er að nokkru leyti ekki eiginleg spítalaþjónusta. Því hafa verið í gangi viðræður við félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti um breytta skilgreiningu og tilhögun hennar. Spítalinn hefur látið útbúa drög að útboðslýsingu og telur rétt að bjóða starfsemina út þegar fyrir liggur afstaða ráðuneytanna til hennar.
Gunnarsholt: Starfsemi Gunnarsholts hefur líka verið til skoðunar. Sama gildir þar og um Arnarholt, að ekki er um beina spítalastarfsemi að ræða, fremur félagslegt starf sem þarf að sinna vel. Leitað hefur verið eftir áhuga nokkurra aðila á að taka reksturinn að sér samkvæmt samningi, þ.e. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, starfsmanna í Gunnarsholti og Kumbaravogi og Víðiness á Kjalarnesi.
Kópavogur: Starfsemin í Kópavogi þ.e. hæfingarstarfið, er í ríkum mæli umönnun fatlaðra. Viðræður hafa verið við félagsmálaráðuneytið um viðurkenningu á því að það starf falli nær lögum um málefni fatlaðra en starfsemi LSH. Lögð er áhersla á þetta, þótt til álita gæti komið að spítalinn annaðist rekstur heimilisins fyrst um sinn fyrir félagsmálaráðneytið.
Fasteignafélag LSH
Ákveðið er að endurskoða allt skipulag og stjórnun fasteigna spítalans. Á vegum LSH eru nú rúmlega 150 þúsund fermetrar húsnæðis og fjölmargar lóðir. Verið er að athuga hvernig rekstri, viðhaldi og endurgerð eignanna megi skipa með sem bestum hætti. Til álita kemur að stofna félag um byggingarnar. Það hefði þær skyldur að halda við eignum og útvega spítalanum nauðsynlegt húsnæði fyrir starfsemina.
Apótekin
Í kjölfar samruna sjúkrahúsanna í Reykjavík hefur verið unnið að endurskipulagningu klínískra sviða, sameiningu deilda, sérgreina og fleiru af því tagi. Hluti af því starfi er að ákveða framtíð apótekanna tveggja á spítalanum. Annað þeirra er rekið sem hlutafélag en hitt innan fjárhags spítalans. Til greina kemur að sameina þau og finna þeim félagsform og rekstrargrundvöll. Um leið verður að huga að samkeppnistöðu þeirra á lyfjamarkaði.
Efling göngudeildarstarfsemi
Göngudeildarstarfsemi er mikilvægur þáttur í þjónustu sjúkrahússins og hana þarf að þróa enn frekar. Á bráðamóttöku er hægt að leysa vandamál sumra sjúklinga án þess að til innlagnar komi. Á almennum göngudeildum fara fram viðtöl og rannsóknir á sjúklingum sem þurfa að leggjast inn vegna stærri aðgerða og þar eru smærri aðgerðir, skipt á sárum, lyfjameðferð og veittur stuðningur eftir útskrift. Slíkt eykur hagræði og styttir legutíma.
Efling göngudeilda og sjúkrahússtengdrar heimaþjónustu býður upp á enn frekari styttingu legutíma. Þessa þjónustu er eingöngu hægt að veita af fullu öryggi á göngudeildum sem eru hluti af vel búnu sjúkrahúsi. Göngudeildarstarfsemi er jafnframt afar mikilvæg fyrir kennslu og rannsóknir. Áfram verður unnið að þessu í anda þeirrar meginstefnu spítalans að efla göngu- og dagdeildarstarfið.
Rekstur
Greining kostnaðar og breytt fjármögnun
Um skeið hefur verið unnið að því að greina þann kostnað sem tengist starfseminni. Slík greining er liður í að breyta fjármögnunarkerfi sjúkrahúsanna þannig að fjármunir tengist einstökum unnum verkum. Sum nálæg lönd hafa gert þetta um árabil, einkum vestanhafs en einnig á Norðurlöndum. Kostnaðargreining er nauðsynleg forsenda þess að gera þjónustusamninga eða færa starfsemina í kaup- og söluform. Kostnaðargreining er mjög mikilvæg fyrir innri kostnaðarstýringu, áætlanagerð, verðlagningu á þjónustu og er forsenda fyrir breyttri fjármögnun sjúkrahúsa. Að henni verður unnið áfram.
Stjórnendur spítalans hafa hvatt heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra til þess að beita sér fyrir því að fjármögnunarkerfi sjúkrahúsanna verði breytt sem fyrst. Í tengslum við fjárlög ársins 2000 kom fram, að stjórnvöld væru reiðubúin að skoða breytt fjármögnunarkerfi í heilbrigðisþjónustunni. Nefnd á vegum heilbrigðisráðuneytisins vinnur nú að þessu og ákveðið er að velja tiltekna starfsemi á Landspítala til að reyna breytta fjármögnun.
Þjónustusamningar
Mikilvægt er að halda áfram þróunarvinnu í gerð þjónustusamninga. Setja þarf fram stefnu um hvernig slíkt starf verður unnið og ákveða hvaða einingar henti fyrir slíka samninga. Þjónustusamningar innan sjúkrahúsanna eru mikilvægur liður í undirbúningi þjónustusamnings á milli heilbrigðisyfirvalda og sjúkrahúsanna.
Stöðuúttektir
Í tengslum við rekstraráætlun ársins 2000 hafa verið gerðar úttektir á rekstri nokkurra starfseininga spítalans. Þessi skoðun er einnig hluti af vinnslu við kostnaðargreiningu og gerð þjónustusamninga. Til athugunar hefur verið að röntgendeildin í Fossvogi verði fjárhagslega sjálfstæð eining. Mikilvægt er að skoða stoðþjónustu sem veitt er deildum. Þannig verði skilgreint hvaða verkefnum eigi að sinna áfram miðlægt og hver geti færst til sviðanna eða annarra starfseininga. Verið er að búa stoðþjónustueiningar undir að skilgreina verkefni sín og meta kostnað við þau.
S-merkt lyf frá TR
Ákveðið hefur verið af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu að færa frá TR til LSH umsýslan og afgreiðslu svokallaðra S-merktra lyfja. Til þess að spítalinn geti tekið við þessu verkefni þarf að undirbúa yfirfærsluna sem tekur gildi um næstu áramót. Liður í þessu er að búa lyfjanefnd spítalans viðunandi aðstöðu til þess að takast á við aukin verkefni.
Gjaldskrár og gjaldtaka
Vinnuhópur á vegum spítalans hefur skilað skýrslu um gjaldtöku á stofnuninni. Þar kom m.a. fram að gjaldtaka væri ekki að fullu samræmd milli Landspítala Fossvogi og Landspítala Hringbraut. Nauðsynlegt er að breyta ýmsu varðandi gjaldtöku, svo sem að samræma greiðslur innan stofnunarinnar, búa til gjaldskrár þar sem þær eru ekki fyrir hendi en ættu að vera það, samræma gjaldtöku af starfsmönnum og stöðva tvöfalda innheimtu vegna flutnings milli bráðavakta spítalans. Hér er um afar brýnt mál að ræða.
Kjara- og starfsmannamál
Starfsmannamál-starfsmannastefna
Í stærri fyrirtækjum er algengt að fyrir liggi afstaða til helstu þátta er snerta starfsmenn sérstaklega, þ.e. eins konar starfsmannastefna. Almennt viðhorf til starfsmannahalds er ekki nóg og verður því að hyggja að mörgu fleiru. Samkvæmt skipulagi spítalans starfar sérstök skrifstofa starfsmannamála sem heyrir beint undir forstjóra. Skrifstofan hóf störf á þessu ári og hefur unnið að því að móta afstöðu spítalans í fjölmörgu er varðar starfsmenn gagngert. Áfram verður unnið á þessari braut og starfsmönnum kynntur árangurinn eftir tilefnum. Jafnframt verður áfram stuðlað að samruna starfsmannaráða á spítalanum.
Kjarasamningar
Gildistími flestra kjarasamninga á spítalanum rennur út í lok október n.k. Mikilvægt er að undirbúa vel gerð nýrra kjarasamninga, þannig að samningaferlið gangi greiðlega og tryggi stofnuninni, starfsmönnum og þeim sem spítalinn þjónar farsæla niðurstöðu.
Ferliverk og verkefni unnin innan spítalans
Blandað kerfi launa lækna, þ.e. föst laun og greiðslur fyrir ferliverk, er nú til athugunar í heilbrigðisráðuneytinu. Spítalinn tekur þátt í því starfi enda miklir hagsmunir í húfi fyrir starfsemina í heild.
Ráðning starfsmanna – starfsmannaþörf
Ákveðið hefur verið að vinna greinargerð um starfsmannaþörf á komandi árum. Í því felst m.a. að skýra og skilgreina hvort LSH hagi ráðningarmálum með bestum hætti eða hvort úrbóta sé þörf. Einnig þarf að meta hvort hætta sé á starfsmannaskorti í tilteknum starfsgreinum af einhverjum ástæðum, t.d. vegna þess að of fáir leggi stund á nám í viðkomandi fagi eða grein, aukin samkeppni sé um starfsmenn á vinnumarkaði eða að einhverjar aðrar ástæður liggi að baki sem ekki sé á valdi spítalans að ráða við. Kannað verði hvort ein starfsstétt geti gengið í störf annarrar, tímabundið eða varanlega. Tillögur verði þannig unnar að þeim megi beina til yfirvalda, stéttarfélaga eða annarra sem kunna að eiga í hlut.
Upplýsingamál
Upplýsingakerfi
Fyrir stjórnun spítalans skiptir afar miklu máli að upplýsingakerfi spítalans geti leyst aðkallandi viðfangsefni. Sterk rök hníga að því að ná megi fram umtalsverðu hagræði með sameiginlegum samningum um afnot af tölvubúnaði, sameiginlegum innkaupum véla og hugbúnaðar og útboðum á skilgreindri þjónustu.
· Áfram verður unnið að því að samhæfa tæknileg atriði og taka í notkun tölvubúnað sem þjónar hagsmunum spítalans sérstaklega, svo sem starfsmanna- og bókhaldskerfi.
· Almennt álit stjórnenda er að bæta þurfi streymi stjórnunarupplýsinga milli framkvæmdastjórnar og sviðsstjóra annars vegar og hins vegar innan sviða og milli þeirra. Jafnframt þurfi að bæta notkun upplýsinga við daglega stjórn, sbr. niðurstöður funda sviðsstjóra. Skilgreina þarf hvaða upplýsingar styrkja stjórnendur sjúkrahúsanna best og hverjar eiga erindi til allra starfsmanna og almennings. Hluti verkefnisins er að beita upplýsingatækninni eins og frekast er kostur, tryggja eðlilegt flæði upplýsinga og sjá til þess að þær séu áreiðanlegar og áhugaverðar. Drög að stefnu í þessum málum eru í mótun og liggja fyrir bráðlega.
· Vinna þarf að endurskipulagningu á upplýsingavef spítalans, bæði á innri og ytri veitu þannig að hann gagnist starfsmönnum og almenningi sem best. Við sameiningu sviðanna er nauðsynlegt að vanda til þessa verkefnis.
· Símkerfi spítalans er ennþá tvöfalt og fullnægir auk þess að mörgu leyti ekki kröfum nútímans varðandi samskipti, upplýsingastreymi og gagnaflutning. Nauðsynlegt er að hefja undirbúning að endurbótum á símkerfinu, þar sem meðal annars verði haft í huga að nýta þá samkeppni sem ríkir á fjarskiptamarkaði spítalanum til hagsbóta.