Hjartalækningum á Landspítala – háskólasjúkrahúsi veittur ómetanlegur stuðningur með stofnun Gjafa- og styrktarsjóðs Jónínu S. Gísladóttur
- Ráðist í kaup á nýju hjartaþræðingartæki -
Jónína S. Gísladóttir hefur ákveðið að leggja fram 200 milljónir króna sem stofnfé í gjafa- og styrktarsjóð sem ber nafn hennar. Meginhlutverk sjóðsins er að efla hjartalækningar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi á fjórum sviðum:
1. Að stuðla að uppbyggingu og skipulagsbreytingum sem leiða til bættrar þjónustu við hjartasjúklinga.
2. Að styrkja stærri tækjakaup og hlúa þannig að því markmiði að tækjakostur spítalans svari ætíð kröfum tímans.
3. Að styrkja vísindastarf á sviði hjarta- og æðasjúkdóma, meðal annars með samstarfi og samanburði við erlenda aðila.
4. Að vinna almennt að velferð hjartasjúklinga í landinu.
Samkvæmt skipulagsskrá skal sjóðurinn árlega verja 25 milljónum króna næstu 7 árin til verkefna sem þjóna þessu hlutverki.
Jónína S. Gísladóttir er 78 ára að aldri, ekkja Pálma Jónssonar í Hagkaupi. Með þessu mikilsverða framlagi til hjartalækninga á Íslandi vill hún leggja sitt af mörkum til að efla þær og styrkja og vinna að velferð hjartasjúklinga.
Í stjórn Gjafa- og styrktarsjóðs Jónínu S. Gísladóttur eru synir hennar, Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir, Helgi V. Jónsson hrl. og löggiltur endurskoðandi, Magnús Pétursson forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss og Guðmundur Þorgeirsson sérfræðingur í hjartalækningum, skipaður í samráði við framkvæmdastjórn spítalans.
Framlag Jónínu S. Gísladóttur er ómetanlegur stuðningur við hjartalækningar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Það stuðlar að því að spítalinn geti alltaf verið í fararbroddi í þessum lækningum meðal sjúkrahúsa í heiminum og njóti besta tækjabúnaðar sem völ er á til að sinna þeim. Landspítali - háskólasjúkrahús er afar þakklátur Jónínu fyrir þetta framtak hennar, sem kemur sér ákaflega vel í þeirri viðleitni stofnunarinnar að bæta stöðugt þjónustu við hjartasjúklinga.
Stjórn Gjafa- og styrktarsjóðs Jónínu S. Gísladóttur hefur ákveðið fyrsta framlag úr sjóðnum en það gerir kleift að ráðast nú þegar í kaup á nýju og mjög fullkomnu hjartaþræðingartæki. Tækið verður á Landspítala Hringbraut. Þar er orðið knýjandi að endurnýja eldra tæki. Af fjárhagsástæðum hefur það hins vegar ekki reynst unnt, þar til nú, að Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur hleypur undir bagga. Þetta er í reynd búnaður í rannsóknarstofu, þar sem verða einkum hjartaþræðingar, kransæðamyndatökur og kransæðavíkkanir. Með tilkomu hennar batnar þjónustan, biðlistar styttast og öryggi þjónustunnar eykst verulega. Áætlað kaupverð er um 80 milljónir króna og leggur sjóðurinn fram samtals 40 milljónir króna til þessara kaupa á næstu fjórum árum. Kaupin á hjartaþræðingartækinu núna flýta einnig fyrir bættri þjónustu við hjartasjúklinga á Landspítala Fossvogi.