Stjórnarnefnd hefur samþykkt skiptingu Landspítala - háskólasjúkrahúss í klínísk svið. Nýja skipulagið tekur gildi eigi síðar en 1. október í haust og var forstjóra falið að ráða í stöður yfirmanna án auglýsingar. Sviðin verða 9, auk öldrunarþjónustu, endurhæfingarþjónustu, Blóðbanka og rannsóknarstarfsemi. Stjórnarnefnd samþykkti bókun um að þetta skipulag yrði endurskoðað að tveimur árum liðnum og að sérstaklega yrði lagt mat á kosti og galla við skiptingu lyflækningasviðs, staðsetningu barnaskurðlækninga og samstjórn skurðstofa.
Sjá ársskýrslu Landspítala - háskólasjúkrahúss 2000 - bls. 12
Í greinargerð framkvæmdastjórnar um nýtt sviðakerfi voru eftirtalin rök talin vega þyngst fyrir því:
1. Almennt er lögð áhersla á það meðal starfsmanna og stjórnenda spítalans að boðleiðir séu fremur stuttar. Í þessu felst að stjórnsýsluþrepin séu fremur færri en fleiri og að stjórnunarspönn sérhvers stjórnenda að sama skapi stærri. Formleg stjórnunarþrep eru því eftirfarandi: (1) stjórnarnefnd, (2) framkvæmdastjórn, (3) svið eða stjórnunarlega hliðsettar einingar s.s. stofnanir og (4) deildir –sérgreinar. Þá tekur við staðbundið skipulag og verkstjórn. Stjórnskipulagið miðast við að ábyrgð sérhvers stjórnenda sé skýr.
2. Viðfangsefni og stærð sviða er mismunandi bæði hvað varðar mannafla, fjármuni og þess háttar en einnig varðandi starfsemi, til dæmis umfang legudeilda, tækni og þjónustu við önnur svið og deildir. Sérhvert svið eða starfseining þarf að vera nægjanlega stór til þess að til hennar megi gera ríkar rekstrarkröfur en þó ekki svo stór að stofna þurfi sérstakar rekstrarskrifstofur. Skurðsvið, lyflækningasvið og geðsvið eru umsvifamest.
3. Sameiningu spítalanna fylgir að ýmsar sérgreinar verði sameinaðar og þeim sett markmið. Þá liggur fyrir að viðfangsefni sumra sviða vaxi í framtíðinni meira en annarra. Því er það tillaga framkvæmdastjórnar að sviðaskiptingin taki nokkurt mið af því sem þarf að styrkja í starfsemi spítalans og huga að til framtíðar.
4. Stjórnvöld gera ríka kröfu um að rekstri sé haldið innan marka fjárlaga. Jafnframt er af hálfu spítalans lögð áhersla á það, að núverandi fjármögnunarkerfi verði breytt í ljósi þeirrar skyldu sem á spítalanum hvílir um þjónustu við sjúklinga og að virða fjárlög. Því er talið heppilegt að skipulagið styðji við þessa kröfu spítalans, meðal annars með því að t.d. rekstur skurðstofa-, svæfingar- og gjörgæslusviðs verði á formi útseldrar þjónustu.
5. Æskilegt er að prófessorsembætti dreifist á sem flest svið spítalans. Það styrkir hlutverk stofnunarinnar sem háskólasjúkrahúss.
6. Loks er að nefna að spítalinn stendur að margþættu rannsóknarstarfi og samvinnu við innlenda og erlenda aðila. Rannsóknarstofum í ýmsum greinum mun fjölga og getur það stutt klínískt starf spítalans og eflt hann sem háskólaspítala. Því er litið á rannsóknarstofur sem skilgreindan þátt í starfi sviða.