Holsjárómtæki (Endoscopic Ultrasound System) er búnaður sem auðveldar mjög greiningu ýmissa sjúkdóma í meltingarvegi, þ.m.t. á byrjunarstigi, með bættri myndtækni, ómlýsingu sem er algjör nýjung og fullkominni snúningsgetu (360°) geisla skoðunartækja. Hægt er að rannsaka hversu djúpstæðir sjúkdómarnir eru, hvernig þeir snerta vöðva og veggi líffæra, greina sjúkdómsstig, framkvæma aðgerðir (með ástungu) og hefja meðferð í samræmi við skjóta niðurstöðu greiningar. Eiginleikar búnaðarins taka öllu fram sem til þessa hefur verið í boði hér á landi af tækjakosti við greiningu sjúkdóma í meltingarvegi.
Framfarir með betri tækjabúnaði
Náðst hefur markverður árangur í rannsóknum og meðferð á sjúkdómum í meltingarvegi. Hann hefur meðal annars birst í lækkandi tíðni maga- og skeifugarnarsára sem nú er unnt að rannsaka og bregðast við án mikilla aðgerða. Grundvöllur þessa árangurs er þekking lækna og rannsóknir á sjúklingum m.a. með nýjum og sérhæfðum búnaði. Með holsjárómtæki er unnt að bregðast fljótar og af meira öryggi en áður við krabbameinum og fleiri slíkum sjúkdómum sem eru meðal stærstu og erfiðustu viðfangsefna í heilbrigðisþjónustu nú á tímum.
Samstarf yfirlæknis og alþingismanns
Sumarið 1997 hóf Ásgeir Theodórs yfirlæknir á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og sérfræðingur í meltingarsjúkdómum við Landspítala Fossvogi (þá Sjúkrahús Reykjavíkur) að leita eftir fjárframlögum til að kaupa nýtt tæki til rannsókna á sjúkdómum í meltingarvegi. Í þá baráttu fékk hann síðar öflugan liðsmann, Árna Ragnar Árnason alþingismann. Árni Ragnar greindist með krabbamein haustið 1995, gekkst þá undir aðgerð á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og lyfjameðferð á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði í umsjá Ásgeirs Theodórs. Árni Ragnar fékk áhuga á málefninu í tengslum við baráttu sína. Þeir Ásgeir og Árni Ragnar hafið unnið skipulega að söfnuninni síðan haustið 1997 og bæði leitað eftir fé frá fyrirtækjum en einnig opinberum framlögum. Í fyrra höfðu þeir félagar fengið fjárveitingu á fjárlögum og framlög, loforð og vilyrði fyrir það miklum fjármunum, að ljóst var að hægt yrði að ráðast í kaupin. Tækið var keypt eftir útboð í vetur og er heildarkostnaður um 24 milljónir króna. Þar af nema opinber framlög rúmum 10 milljónum en fjölmörg fyrirtæki lögðu fram samtals um 13 milljónir króna. Náið samstarf var milli Sjúkrahúss Reykjavíkur og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði um kaup á tækinu og er því ætlað að þjóna öllum sjúkrastofnunum sem fást við sjúkdóma í meltingarfærum. Tækið verður staðsett á speglanaeiningu Landspítala Fossvogi. Mögulegt er líka að flytja tækið, jafnvel í aðra landshluta ef þörf krefur.
Mikils vænst
Holsjárómtæki Landspítala Fossvogi er af gerðinni Olympus/Dornier og er þessi tækjabúnaður sá fullkomnasti, sem völ er á í dag. Umboðsaðili fyrir Olympus er INTER h/f. Þess er vænst að tækið bæti verulega starfsaðstöðu lækna og hjúkrunarfólks sem fæst við sjúkdóma í meltingarfærum, það geri rannsóknir og viðbrögð markvissari, bæti hag sjúklinga, stytti sjúkdómslegu og sjúkrahúsvist, dragi úr kostnaði við meðferð á þessum sjúkdómum og flýti því að sjúklingar komist aftur til daglegra starfa að henni lokinni.