Skrifað var undir þjónustusamning um öldrunarþjónustu Landspítala – háskólasjúkrahúss í dag. Þetta er innanhússsamningur til tveggja ára milli framkvæmdastjórnar og rekstrarstjórnar öldrunarþjónustunnar. Með honum eru stigin ný skref í átt að breyttri fjármögnun öldrunarþjónustu sjúkrahússins. Settur er rammi utan um núverandi rekstur og hann sameinaður. Rekstrarlegt sjálfstæði verður mun meira en verið hefur. Stjórnunarleg samskipti við framkvæmdastjórn verða þó óbreytt og með sama hætti og hjá öðrum sviðum sjúkrahússins.
Öldrunarþjónustu Landspítala - háskólasjúkrahúss tilheyrir nú öldrunarlækningadeild á sjúkrahúsinu í Fossvogi og við Hringbraut, ásamt starfsemi sem fram fer á Landakoti. Á Landakoti eru tvær deildir fyrir minnissjúka ásamt minnismóttöku, þrjár almennar öldrunarlækningadeildir, þar af ein fimm daga deild ásamt dagspítala og almennri móttöku- og endurkomudeild. Ennfremur er þar ein hjúkrunar- og líknardeild. Öflug sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og félagsráðgjöf er aðkeypt frá endurhæfingarþjónustu Landspítala - háskólasjúkrahúss.
Rekstrarstjórn
Samningurinn tekur til yfir 300 starfsmanna í 266 stöðugildum.
Tveggja manna rekstrarstjórn fer með yfirstjórn öldrunarþjónustunnar. Hana skipa Anna Birna Jensdóttir hjúkrunarframkvæmdastjóri og Pálmi V. Jónsson forstöðulæknir.
Afkastatengd greiðsluviðmiðun
Við rekstur legudeilda er tekin upp ný greiðsluviðmiðun. Föst greiðsla verður 90%, en afkastatengd greiðsla 10%. Á samningstímanum verður jafnframt unnið að frekari þróun RAI-greiðslukerfis sem er sérhannað fyrir öldrunarlækningadeildir.
Áherslur
Meginmarkmið öldrunarþjónustunnar er að styðja aldraða til sjálfsbjargar og stuðla að því að þeir geti búið sem lengst heima. Lögð verður áhersla á fjölbreytni í þjónustu við aldraða, meðal annars með rekstri fimm daga deildar, sjúkrahústengdrar heimaþjónustu og eflingu dag- og móttökudeilda. Sérstök áhersla er á rannsóknir og þekkingaröflun í öldrunarfræðum ásamt kennslu og ráðgjöf innan sem utan spítalans.
Tölulegar upplýsingar
Alls fengu 2.894 aldraðir einstaklingar sérhæfða öldrunarþjónustu á vegum deildanna og öldrunarteymis árið 1999, legudagar voru 50.904. Rekstraráætlun árið 2000 hljóðar upp á 725 milljónir.