Í dag var undirritaður þjónustusamningur um endurhæfingu á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Samningurinn er innanhússsamningur til tveggja ára milli framkvæmdastjórnar og rekstrarstjórnar endurhæfingarþjónustunnar. Með samningnum eru stigin ný skref í átt að breyttri fjármögnun endurhæfingarstarfsemi sjúkrahússins. Settur er rammi utan um núverandi rekstur en jafnframt gert ráð fyrir aukinni starfsemi. Rekstrarlegt sjálfstæði verður meira en áður hefur þekkst. Stjórnunarleg samskipti við framkvæmdastjórn verða þó óbreytt og með sama hætti og hjá öðrum sviðum sjúkrahússins.
Sameining
Samningurinn er grundvöllur að sameiningu endurhæfingarþjónustu á Landspítala - háskólasjúkrahúsi.
Starfsemi
Samningurinn tekur til um 200 starfsmanna í 140 stöðugildum og nær til endurhæfingarstarfsemi á mörgum starfstöðvum Landspítala - háskólasjúkrahúss. Á Grensási er m.a. starfrækt 24 rúma legudeild. Umfangsmikið endurhæfingarstarf fer einnig fram í Fossvogi, við Hringbraut, í Kópavogi og á Landakoti.
Stjórnun
Þriggja manna rekstrarstjórn er sett yfir endurhæfingarþjónustuna. Í henni verða Stefán Yngvason yfirlæknir endurhæfingardeildar að Grensási - Grensásdeild, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir hjúkrunarframkvæmdastjóri endurhæfingar og taugasviðs og Guðrún Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri sjúkraþjálfunar við Hringbraut.
Afkastatengd greiðsluviðmiðun
Við rekstur legudeilda er tekin upp ný greiðsluviðmiðun. Föst greiðsla verður 70% en afkastatengd greiðsla 30%. Á samningstímanum verður jafnframt unnið að frekari þróun slíks greiðslukerfis.
Seld þjónusta
Þjónusta sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa, sem fram fer á öðrum sviðum verður seld og um það gerðir samningar við viðkomandi svið.
Áherslur
Megináhersla verður á þjónustu við bráðadeildir spítalans. Einnig verður lögð áhersla á bætta þjónustu með aukinni starfsemi dagdeilda og göngudeilda. Áhersla verður lögð á kennslu og rannsóknir í endurhæfingu. Mannauður endurhæfingarþjónustunnar er mikilvægasta auðlind hennar. Leitast verður við að skapa starfsmönnum og sjúklingum þau skilyrði sem þarf til að ná settu marki í þjónustu og árangri. Leitað verður samanburðar á erlendum vettvangi um árangur starfseminnar.
Tölulegar upplýsingar frá 1999
Á legudeild á Grensási dvöldust um 260 sjúklingar samtals í 5.700 daga. Þar af komu 75% af bráðadeildum. Á öðrum deildum sinntu sjúkraþjálfarar um 7.500 sjúklingum, iðjuþjálfar um 1.500 sjúklingum og félagsráðgjafar um 1.400 sjúklingum. Rekstraráætlun hljóðar upp á um það bil 500 milljónir.