Alþjóðlegi heilbrigðisdagurinn 7. apríl 2000 tileinkaður blóðgjöfum og blóðbankaþjónustu
Árið 2000 er alþjóða heilbrigðisdagurinn (World Health Day) 7. apríl tileinkaður málefnum blóðbankaþjónustu og blóðgjafa. Það er engin tilviljun að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) tileinkar þessum mikilvæga málaflokki þennan dag. Blóðbankaþjónusta í sérhverju landi gegnir lykilhlutverki til að tryggja þeim íbúum jarðarinnar sem eiga við sjúkdóma að stríða möguleika til lífs. Örugg og góð blóðbankaþjónusta er undirstaða heilbrigðisþjónustu í dag. Hvort sem litið er til hjartaaðgerða, krabbameinslækninga, meðferðar nýbura eða annarra þátta heilbrigðisþjónustunnar þá væri mikill árangur nútíma læknisfræði ekki mögulegur ef ekki nyti stuðnings blóðgjafa og blóðbankaþjónustu.
Á Íslandi eru árlega notaðar uþb. 15.000 einingar af rauðkornum við allar tegundir aðgerða og slysa, auk 2000 eininga af blóðflöguþykknum, sérstaklega við meðferð krabbameina, auk 2-3000 eininga af blóðvökva (plasma) við ýmsar storkutruflanir vegna sjúkdóma eða aðgerða. Marvísleg sérvinnsla og fullvinnsla blóðhluta hefur stóraukist á síðustu árum. Kröfur um gæðaeftirlit starfseminnar og framleiðslunnar eru miklar. Blóðbankinn hlaut fyrir viku síðan alþjóðlega vottun skv. ISO9002 gæðastaðlinum fyrir starfsemi sína á sviði blóðsöfnunar, blóðhlutavinnslu, veiruskimunar, blóðflokkunar, gæðaeftirlits ofl. starfsemisþátta. Sá áfangi skiptir miklu fyrir þjóðina, en ekki síst blóðgjafa og blóðþega, að gæði okkar þjónustu og framleiðslu standist gagnrýna skoðun alþjóðlegra skilmerkja.
Á Íslandi eru í dag 9.000 virkir blóðgjafar, sjálfboðaliðar sem gefa blóð til sinna meðborgara. Íslenskir blóðgjafar gefa blóð án nokkurrar fjárhagslegrar umbunar frá þjóðfélaginu, og er það í samræmi við tilmæli Evrópuráðsins, WHO og fleiri alþjóðlegra stofnana. Þessi háttur er að ná fótfestu sem sá grundvöllur sem vestrænir blóðbankar byggja sína starfsemi á.
Mikilvægt er að heilbrigðisyfirvöld hlúi annars vegar að þessu merkilega sjálfboðaliðastarfi blóðgjafa á Íslandi með dyggum stuðningi við samtök blóðgjafa og hins vegar að ötulu uppbyggingarstarfi í íslenskri blóðbankaþjónustu. Blóðbankinn við Barónstíg sinnir þjónustu á landsvísu. Tryggja þarf Blóðbankanum aðstöðu sem hæfir mikilvægu þjónustuhlutverki hans. Bæta þarf aðstöðu blóðgjafa, starfsfólks og starfseminnar í hvívetna. Blóðbankinn er í sama húsnæði og hann fékk til sinnar starfsemi árið 1953. Á þeim tíma hafa gerst undur og stórmerki, mikilvægar framfarir hafa orðið í heilbrigðisþjónustu sem gera kröfur til margvíslegrar stoðþjónustu Blóðbankans við sjúkrahússdeildir, kröfur til blóðbankaþjónustunnar eru margfaldar, alþjóðleg skilmerki krefjast góðs og öruggs húsnæðis. Brýnt er að heilbrigðisyfirvöld bæti úr aðstöðu Blóðbankans með skjótum hætti.
Annars vegar er mikilvægt að skapa rekstrargrundvöll fyrir blóðsöfnunarbíl, en Rauði krossinn hefur gefið veglega gjöf til kaupa á slíkri bifreið. Áætlað er að brúa bilið við kaup á síkri bifreið með stuðningi annarra félagasamtaka og fyrirtækja. Ennþá er ekki búið að tryggja rekstrargrundvöll slíkrar bifreiðar, en ég brýni heilbrigðisyfirvöld til aðgerða á þessu sviði.
Á næstu árum og áratugum verður áframhaldandi og vaxandi þörf fyrir blóðhluta á Íslandi. Á sama tíma fer meðalaldur þjóðarinnar hækkandi. Í öllum nágrannalöndum okkar er unnið að framtíðarstefnumótun og framkvæmdaáætlun til að auka kynningu á nauðsyn blóðgjafa til að mögulegt sé að tryggja örugga heilbrigðisþjónustu, og ekki komi til skorts á blóði. Vekja þarf upp vitund meðal þjóðarinnar, og ekki síst meðal unga fólksins að það sé bæði rétt, hollt, flott og ljúft að gefa blóð. Skapa þau almennu viðhorf að þeir sem eru heilbrigðir og frískir sýni samhug með þeim sem eru sjúkir og gefi þeim blóð.
Á sama tíma er mikilvægt að heilbrigðisyfirvöld ásamt öðrum aðilum í þjóðfélaginu skapi þau almennu viðhorf til blóðgjafa í þjóðfélaginu sem lýst er í áskorun Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Þá er næsta víst að íslenskt þjóðfélag getur farið inn í framtíðina með fullvissu um nægilegan fjölda blóðgjafa og styrka blóðbankaþjónustu.
Það er ástæða til þess að vekja athygli á þeirri yfirlýsingu WHO að Alþjóða heilbrigðisdagurinn eigi ekki að vera eins dags hátíð, heldur upphaf að markvissu starfi heilbrigðisyfirvalda, blóðbankaþjónustu og þjóðfélagsins til uppbyggingar blóðgjafastarfs og blóðbanka. Megi þessi dagur marka upphaf slíks starfs hér á landi.
Blóðbankinn hefur um margra ára skeið verið með heimasíðu undir merkjum Ríkisspítala sem þá hétu, en heita nú Landspítali-háskólasjúkrahús. Í tilefni dagsins hefur Blóðbankinn opnað nýja og endurbætta heimasíðu á slóðinni www.blodbankinn.is, með margvíslegu fræðslu- og skemmtiefni. Ég vil hvetja landsmenn til að kynna sér þessa síðu, og verða þannig fróðari um starfsemi og gagnsemi Blóðbankans og sjálfboðaliðastarf blóðgjafa.
Dr. Sveinn Guðmundsson, Forstöðulæknir Blóðbankans
|