Stofnskrá Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Sjúkrahúss Reykjavíkur í öldrunarfræðum
1. grein
Rannsóknarstofa Háskóla Íslands og Sjúkrahúss Reykjavíkur í öldrunarfræðum (RHSÖ) er miðstöð í öldrunarfræðum, stofnuð á ári aldraðra 1999. Sérhver
vísindagrein, ein sér eða í samvinnu við aðrar greinar, getur átt aðild að rannsóknarstofunni, svo fremi að viðfangsefni hennar lúti að öldrun.
2. grein
Rannsóknarstofan er kennd við Háskóla Íslands og Sjúkrahús Reykjavíkur, er rekin á vegum öldrunarsviðs Sjúkrahúss Reykjavíkur (SHR) og í samvinnu við
Læknadeild Háskóla Íslands. Aðsetur rannsóknarstofunnar er í húsakynnum Sjúkrahúss Reykjavíkur. Sjúkrahús Reykjavíkur greiðir stofnkostnað og rekstrarkostnað
að því marki sem kveðið er á um í 8. grein stofnskrárinnar. SHR ber ábyrgð á rekstri og skuldbindingum rannsóknarstofunnar.
3. grein
Hlutverk Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Sjúkrahúss Reykjavíkur í öldrunarfræðum er
a. að vera miðstöð rannsókna á sviði öldrunarfræða er geta tekið til heilbrigðisþátta, félagslegra þátta, fjárhagslegra þátta, og annarra þátta er tengjast lífsgæðum
aldraðra.
b. að stuðla að samvinnu fræðimanna Háskóla Íslands sem vinna að öldrunarrannsóknum.
c. að hafa áhrif á þróun kennslu í öldrunarfræðum innan Háskóla Íslands.
d. að skapa heimili fyrir rannsóknarverkefni á sviði öldrunar.
e. að stuðla að útgáfu öldrunarfræðirita
f. að hafa samvinnu við aðrar rannsóknarstofur, félög, einstaklinga og opinbera aðila, sem starfa á sviði öldrunar innanlands og utan.
g. að hafa forgöngu um að afla styrkja eða fjárveitinga til öldrunarrannsókna og veita upplýsingar um hugsanlega styrktaraðila.
h. að standa fyrir námskeiðum fyrir fagfólk í öldrunarþjónustu, sjálfstætt eða í samvinnu við aðra.
i. að veita fagfélögum í öldrunarmálum þjónustu eftir nánara samkomulagi
j. að sinna öðrum verkefnum samkvæmt ákvörðun stjórnar.
4. grein
Stjórn rannsóknarstofunnar er skipuð fimm fulltrúum til fjögurra ára í senn. Skal forsvarsmaður öldrunarlækninga innan Læknadeildar Háskóla Íslands eiga sæti í
stjórninni og einn fulltrúi tilnefndur af námsbraut í hjúkrunarfræði. Skal annar þeirra vera formaður stjórnar að ákvörðun deildarráðs læknadeildar.
Framkvæmdastjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur skipar tvo fulltrúa í stjórn í samráði við sviðsstjórn öldrunarsviðs og skal annar þeirra vera ritari. Loks skal einn fulltrúi í
stjórn vera úr fagráði Öldrunarfræðafélags Íslands.
Stjórnin skal funda hið minnsta fjórum sinnum á ári en oftar ef ástæða er til. Við ákvarðanatöku ræður einfaldur meirihluti stjórnar.
5. grein
Stjórnin gerir starfs- og rekstraráætlanir og ræður starfsfólk til rannsóknarstofunnar svo að markmið hennar náist.
6. grein
Rannsóknaverkefni sem unnin eru á öldrunarsviði Sjúkrahúss Reykjavíkur skulu tengjast RHSÖ. Í þessu felst aðgangur að aðstöðu rannsóknarstofunnar og þeirri
þjónustu og þeim stuðningi sem þar er að fá eftir nánari ákvörðun stjórnar rannsóknarstofunnar. Viðbótarkostnaður sem til fellur vegna einstakra verkefna skal borinn
af viðkomandi verkefni, sbr. 7. grein. Rannsóknirnar munu koma fram í yfirliti yfir starfsemi rannsóknarstofunnar en hver rannsókn er sjálfstæð og lýtur stjórn og er á
ábyrgð viðkomandi rannsakenda.
7. grein
Rekstur rannsóknarstofunnar ákvarðast af þeim tekjum sem rannsóknarstofan aflar, en þær geta verið:
a. Rekstrartekjur af einstökum rannsóknarverkefnum.
b. Styrkir.
c. Tekjur af útgáfustarfsemi.
d. Greiðslur fyrir veitta þjónustu við fagfélög og utanaðkomandi stofnanir.
e. Tekjur af námskeiðshaldi.
f. Aðrar tekjur, t.d. gjafir.
Verði ráðinn starfsmaður í fast starf við rannsóknarstofuna verður hann starfsmaður öldrunarsviðs Sjúkrahúss Reykjavíkur en launakostnaður greiðist sjúkrahúsinu af
tekjustofnum rannsóknarstofunnar. Heimilt er að ráða einstaklinga í tímabundin verkefni sem verktaka fyrir rannsóknarstofuna, enda stendur rannsóknarstofan straum
af rekstrarkostnaði.
8. grein
Fjármálasvið Sjúkrahúss Reykjavíkur annast bókhald og árlegt uppgjör starfseminnar og endurskoðandi sjúkrahússins yfirfer ársreikninga RHSÖ. Ársskýrsla
rannsóknarstofunnar skal birt með ársskýrslu öldrunarsviðs Sjúkrahúss Reykjavíkur. Sjúkrahús Reykjavíkur leggur rannsóknarstofunni til húsnæði og húsgögn og
tölvubúnað ásamt með almennum rekstri húsnæðis og tölvubúnaðar. Framlög þessi eru án endurgjalds til SHR.
9. grein
Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Sjúkrahúss Reykjavíkur í öldrunarfræðum er heimilt að nota merki SHR og Háskóla Íslands í samskiptum og á bréfsefni.
10. grein
Stofnskrá þessi öðlast gildi þegar stjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur og deildarráð Læknadeildar Háskóla Íslands hafa samþykkt hana. Sjúkrahús Reykjavíkur og
deildarráð Læknadeildar Háskóla Íslands geta samþykkt breytingar á stofnskrá ef báðir aðilar samþykkja breytingarnar.
11. grein
Endurskoðun stofnskrár þessarar skal vera lokið eigi síðar en þremur árum eftir samþykkt hennar.
6. janúar 2000, Jón Baldvin Halldórsson, upplýsingafulltrúi (jonbh@rsp.is)