17. september 1999
Öldrunarþjónusta sjúkrahúsanna kynnt
Opið hús á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, Landakoti um helgina
Öldrunarþjónusta sjúkrahúsanna í Reykjavík verður með opið hús fyrir almenning á Landakoti helgina 18. og 19. september 1999, í tilefni af ,,Ári aldraðra". Húsið verður opið kl. 13-16 báða dagana. Þar verður starfsemi og stefna öldrunarþjónustunnar kynnt og aðstaðan sýnd. Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Magnús Pétursson forstjóri sjúkrahúsanna í Reykjavík verða viðstödd opnunina á laugardaginn kl. 13 og flytja ávörp.
Sjúkrahússhluti öldrunarþjónustunnar snýst um það að greina, meðhöndla og endurhæfa aldraða með fjölþætt veikindi, þannig að þeir nái bestu hugsanlegri færni í athöfnum daglegs lífs. Markmiðið er að styðja aldraða til sjálfsbjargar og búsetu heima, svo lengi sem kostur er. Þótt aldraðir þurfi að hafa vistaskipti og flytja á elli- og hjúkrunarheimili, er engu að síður reynt að auka færni þeirra sem mest, svo þeir fái notið lífsins þar sem ríkulegast. Þannig má segja að öldrunarþjónusta sjúkrahúsanna sé stöð milli sjúkrahúsanna og heimila fólks, þar sem öldruðum býðst lengri tími en mögulegt er að veita í bráðaþjónustunni og hægt er að greiða úr fjölþættum vandamálum þeirra.
Öldrunarþjónustan tekur heildrænt á málum, þ.e. bæði líkamlegum, andlegum og félagslegum. Skjólstæðingar leggjast stundum inn beint, en oft koma þeir af bráðamótttöku eða öðrum legudeildum sjúkrahúsanna. Rekin er öflug mótttöku- og endurkomudeild með sérstakri móttöku er fæst við minnisvanda fólks, ennfremur er dagspítaladeild á SHR Landakoti. Auk lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annarra í aðhlynningu eru á Landakoti fjömargir sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, félagsráðgjafar, sálfræðingar, næringarráðgjafar, matarfræðingur, tannfræðingur, sjúkrahúsprestur og fleira starfsfólk. Það sem einkennir starfsemina er teymisvinna, þar sem unnið er með einstaklinginn og fjölskyldu hans og ráða óskir og viðhorf hans mestu.
Öldrunarþjónusta sjúkrahúsanna leitast við að vera í fararbroddi varðandi rannsóknir, þróunarverkefni og gæðaumbætur í öldrunarþjónustu á Íslandi. Rannsóknarverkefni í öldrunarfræðum sem starfsmenn hafa unnið verða kynnt á veggspjöldum í skálum á 1., 2., og 3. hæð á Landakoti.
Á opna húsinu kynna einnig starfsemi sína allmörg félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki í þjónustu aldraðra. Þar má nefna Heimahjúkrun, Félagsþjónustu aldraðra, Heyrnar- og talmeinastöðina, Hlíðabæ, Félag eldri borgara og Félag aðstandenda alzheimersjúklinga.
Í boði verður ráðgjöf fyrir almenning, blóðþrýstingur mældur og ýmis fræðsla veitt. Kaffiveitingar verða á þremur stöðum í húsinu og harmoníkkan þanin að hætti hússins.
Anna Birna Jensdóttir Pálmi V. Jónsson
hjúkrunarframkvæmdastjóri forstöðulæknir