FRÉTTATILKYNNING
Heimsfrægir vísindamenn á geysifjölmennu
NORRÆNU HJARTALÆKNAÞINGI Í REYKJAVÍK
9. – 11. júní 1999
Norræna hjartalæknaþingið í Reykjavík í næstu viku verður ein fjölmennasta læknaráðstefna sem haldin hefur verið hér á landi. Þetta verður 17. norræna hjartalæknaþingið en Norðurlöndin fimm skiptast á um að halda þessi þing á tveggja ára fresti. Slíkt þing var síðast haldið hér á landi 1989 og tókst mjög vel. Nú þegar eru skráðir um 800 þátttakendur, þar af eru um 80% frá Norðurlöndunum en aðrir koma frá öðrum Evrópulöndum, Bandaríkjunum, Ísrael og Nýja-Sjálandi. Þingið verður haldið í sölum Háskólabíós og á Radisson SAS/Hótel Sögu og hefst miðvikudaginn 9. júní kl. 14 í Háskólabíó með þremur námskeiðum. Formleg opnun þess verður um kvöldið í Súlnasal Hótel Sögu. Sérstakur heiðursgestur þingsins er prófessor Lars Rydén, forseti Evrópusamtaka hjartalækna, en auk þess að taka virkan þátt í þinginu sem fundarstjóri og fyrirlesari heldur hann fund með formönnum Norrænu hjartalæknasamtakanna, þar sem rædd verða tengsl og framlag norrænna hjartalækna innan Evrópusamtakanna.
Á fimmtudag og föstudag verða fyrirlestrar haldnir samtímis í 4 sölum í Háskólabíó.
Um 65 yfirlitserindi verða flutt af sérstaklega boðnum gestafyrirlesurum sem flestir koma frá útlöndum. Meðal þeirra eru margir heimsþekktir fræðimenn á sínu sviði sem hafa haft áhrif á þróun hjartalækninga undanfarna tvo áratugi. Þó erfitt sé að gera upp á milli manna má nefna að sérstaka heiðursfyrirlestra halda Eugene Braunwald prófessor við Harvardháskóla og Eric Topol frá Cleveland Clinic.
Báðir eru heimsþekktir vísindamenn sem hafa skrifað merkar kennslubækur um hjartalækningar. Vísindanefnd þingsins voru sendir um 140 útdrættir um rannsóknir og verður helmingur þeirra kynntur af höfundum með stuttum erindum, en hinir sem veggspjöld. Sérstök úrslitakeppni um þrenn verðlaun verður milli sex ungra vísindamanna sem komust í undanúrslit eftir stigagjöf Vísindanefndar.
Á þinginu verður fjallað um öll svið hjartalækninga, bæði hjá börnum og fullorðnum. Meðal þess sem tekið verður fyrir eru lífeðlisfræðilegar grunnrannsóknir í hjarta- og æðasjúkdómum, erfðafræði, þróun æðakölkunar og kransæðasjúkdóma og faraldsfræði þeirra. Sérstaklega verður fjallað um nýjungar í meðferð kransæðasjúkdóma með lyfjum, kransæðavíkkunum og skurðaðgerðum. Nýjungar í meðferð hjartsláttaróreglu með lyfjum, aðgerðum á leiðsluböndum og gangráðsísetningum skipa veglegan sess, svo og þróun í meðferð við hjartabilun og hjarta- og æðasjúkdómum hjá sykursjúkum. Sér staklega verður fjallað um nýjungar í greiningu hjartasjúkdóma með hjartaómun og annarri myndgreiningartækni og meðferð meðfæddra hjartagalla. Norrænir hjúkrunarfræðingar á hjartadeildum fjalla um hjúkrun og endurhæfingu hjartasjúklinga.
Norræna hjartalæknaþingið er skipulagt af Hjartasjúkdómafélagi íslenskra lækna í samráði við Ferðaskrifstofu Íslands og hefur verið 2 ár í undirbúningi. Formaður Hjartasjúkdómafélags íslenskra lækna og framkvæmdastjóri þingins er Ragnar Danielsen hjartalæknir, en heiðursforseti þingsins er Þórður Harðarson prófessor. Formaður Vísindanefndar þingsins er Guðmundur Þorgeirsson prófessor.
Þótt dagskrá þingsins sé yfirgripsmikil gefa þátttakendur sér einnig tíma til að hittast óformlega. Reykjavíkurborg býður til móttöku í Ráðhúsinu síðdegis á fimmtudeginum og að kvöldi sama dags fer stór hluti þátttakenda í Íslensku Óperuna. Föstudagskvöldið 11. júní verður þinginu slitið í hófi í Perlunni. Margir þátttakendur hyggjast líka nota tækifærið og framlengja dvöl sína til að fara í kynnisferðir um landið.
Nánari upplýsingar um dagskrá þingsins má finna á netslóðinni: http://www.rsp.is/conference/cardiology/.
Ragnar Danielsen, framkvæmdastjóri þingsins og
formaður Hjartasjúkdómafélags íslenskra lækna.
Hjartadeild Landspítalans.
Sími: 560 1000
Tölvupóstur: ragnarda@rsp.is
Ragnar veitir fjölmiðlum allar nánari upplýsingar um Norræna hjartaþingið og aðstoðar þá sem vilja ná tali af fyrirlesurum eða öðrum þingfulltrúum.