IRIS er rannsóknargátt fræða-, lista- og vísindafólks á Íslandi. Þar má sjá rannsóknarvirkni hjá háskólum og nokkrum stofnunum á Íslandi, þar á meðal hjá Landspítalanum. IRIS tók við af Hirslunni og það efni sem áður var á Hirslunni var flutt yfir á IRIS.
Núna eru tæplega 10 þúsund rannsóknarafurðir (fræðigreinar, bókakaflar og fleira í þeim dúr) sem tengast Landspítalanum skráðar á IRIS. Rannsóknargáttin er svokallað CRIS-kerfi, þar sem CRIS stendur fyrir Current Research Information System. Markmið slíkra kerfa er að halda utan um núverandi virkni rannsókna og þekkingar. IRIS á þannig að halda utan um rannsóknir og þekkingu á Íslandi í dag. Þrátt fyrir að um samtímaþekkingu sé að ræða þá ná rannsóknarafurðir Landspítalans í kerfinu allt aftur til ársins 1979. Upplýsingafræðingur á vegum Heilbrigðisvísindabókasafnsins sér um að uppfæra rannsóknarafurðirnar jafn óðum og skrá þar inn allar fræðigreinar sem gefnar eru út og tengjast Landspítalanum.
Virkir rannsakendur hjá þeim stofnunum sem tengjast inn í IRIS fá sínar eigin síður í kerfinu. Núna er 381 rannsakandi í IRIS með tengingu við Landspítalann. Þeir rannsakendur sem eru á þessum lista geta sjálfir skráð sig inn og uppfært sínar síður, til dæmis með eldri rannsóknum eða öðrum verkefnum sem þeir vilja bæta við á síðurnar sínar.
Leiðbeiningar fyrir innskráningu má finna hérna.
Fyrir frekari upplýsingar sem tengjast IRIS og rannsakendasíðum þá má senda tölvupóst á halldorma@landspitali.is