Hvað á að hafa með sér?
Við innlögn á sjúkrahúsið er mælt með því að hafa eftirfarandi með sér:
- Þau lyf sem sjúklingurinn tekur og lyfjakort
- Eigin lyf og yfirlit yfir lyf úr lyfjaskömmtun
- Góða inniskó sem styðja vel við fætur
- Léttar buxur
- Náttslopp
- Snyrtivörur
- Hjálpartæki, ef það á við, svo sem staf, göngugrind eða hjólastól
Gott er einnig að taka með sér matvæli eða drykkarföng til að borða á milli mála, sem dæmi:
- Sérstaka drykki
- Smoothies
- Kex
- Ávexti
- Þurrkaða ávexti
- Möndlur og hnetur
- Annað sem sjúklingurinn er vanur að borða eða drekka á milli mála
Sjúklingar geta haft með sér eigin farsíma en sjúkrahúsið getur ekki borið ábyrgð tapist þeir eða skemmist. Sama á við um fartölvur.
Vinsamlegast skilja verðmæti eins og peninga og skartgripi eftir heima eins og unnt er.
Athuga! Landspítali tekur enga ábyrgð á eigum sjúklinga og gesta
Hagnýtar upplýsingar
Við innlögn
Þegar sjúklingur leggst inn á Landspítala eða er í meðferð á göngudeild er nauðsynlegt að starfsfólk deildar eða innskriftarmiðstöðvar fái upplýsingar um öll lyf, fæðubótaefni og vítamín sem hann tekur að staðaldri.
Einnig er mikilvægt að sjúklingur gefi upplýsingar um hvaða lyf hann notar við tilfallandi kvillum, t.d. höfuðverk.
Mjög mikilvægt er að sjúklingur komi með öll þau lyf sem hann tekur og afhendi þau til varðveislu og endurmats á áframhaldandi lyfjagjöf.
Þetta á ekki síst við um augndropa, insúlínpenna, púst, getnaðarvarnarlyf, tíðarhvarfahormón eða lyfseðilsskyld krem sem sjúklingar nota heima.
Einnig sjaldgæf eða sérhæfð lyf (t.d. svo kölluð S-merkt lyf) sem notuð eru að staðaldri.
Læknar sjúklingsins á Landspítala ákveða hvaða lyf hann þarf meðan hann liggur inni og hjúkrunarfræðingar sjá um að gefa þau.
Til að tryggja örugga meðferð er mikilvægt að sjúklingar taki lyf samkvæmt fyrirmælum, einnig eftir að heim er komið.
Ef fylgikvilla verður vart eftir útskrift þarf að hafa samband við legudeildina eða heimilislækni.
Á Landspítala Hringbraut er hefðbundið apótek og þar eru afgreiddir lyfseðlar.
Þessi þjónusta er einkum ætluð göngudeildarsjúklingum og sjúklingum sem eru að útskrifast.
- Apótekið er opið frá kl. 8:00 til 16:00 alla virka daga.
- Apótekið er staðsett við göngudeild 10D á Hringbraut.
- Hægt er að biðja um afgreiðslu á lyfseðlum sem eru í geymslu eða rafrænir í apótekinu.
- Sjúklingar geta hringt í síma 543 8234 milli kl. 8:00 og 10:00 fyrir afgreiðslu eða sent tölvupóst á netfangið lyfsedlar@landspitali.is. Ef tölvupóstur er sendur þarf símanúmer sendanda að fylgja.
Bent er á að almenn apótek bjóða upp á lyfjaskömmtun þar sem lyf einstaklings eru sett í merktar umbúðir fyrir hverja lyfjatöku eða lyfjaöskjur.
Lyfjaskömmtun á Landspítala er einungis fyrir inniliggjandi sjúklinga.
Lyfjaskömmtun eykur öryggi í lyfjameðferð og til lengri tíma litið er lyfjaskömmtun fjárhagslega hagkvæm fyrir sjúklinginn.
Mikilvægt er að taka ávallt ávísuð lyf og á réttan hátt.
Ef sjúklingar hafa athugasemdir þar að lútandi, skal snúa sér fyrst til þess læknis sem ávísaði lyfinu eða til heimilislæknis.
Upplýsingar um greiðsluþátttöku í lyfjum má finna á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands Greiðsluþátttökukerfi lyfja (island.is)
Þátttaka Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) í lyfjakostnaði er skv. reglugerðum nr. 1143/2019 og nr. 1414/2020.
Við útskrift af sjúkrahúsinu eða í viðtali á göngudeild eru lyfseðlar sendir rafrænt í svonefnda lyfjagátt.
Lyfseðlana er unnt að leysa út í öllum apótekum, allt eftir því hvað hentar best.
Ef nauðsyn reynist að endurnýja lyfseðla síðar er það að öllu jöfnu hlutverk viðkomandi heilsugæslustöðvar eða læknastofu að sjá um slíkt.
Undantekningar á því eru ef lyfin eru sérmerkt undanþágulyf sem eingöngu tilteknir sérfræðilæknar geta skrifað út.
Þá þarf að hafa samband við ritara viðkomandi sérgreinar - t.d. ritara taugalækna til að fá endurnýjað sérmerkt taugalyf.
Langflestar heilsugæslustöðvar eru með skýrt verklag varðandi endurnýjun lyfseðla sem unnt er að nálgast á heimasíðum þeirra eða með því að hringja þangað.