Leit
Loka

Nýraígræðslur

Ígræðsla nýra er flókin og getur gerbreytt lífi og lífsgæðum þess sem nýrað fær. Ótal spurningar vakna varðandi undirbúning, framkvæmd, meðferð og eftirlit að aðgerðinni lokinni og ekki síst um það hvernig nýraþeginn hagar lífi sínu svo að honum nýtist sem best hin dýrmæta gjöf. Ígræðsla líffæris er úrræði sem beitt er þegar önnur úrræði eru ekki til staðar til að bæta alvarlegan heilsubrest eða bjarga lífi

Banner mynd fyrir  Nýraígræðslur

Hafðu samband

OPIÐ08:00-16:00

Vegna bráðra vandamála utan hefðbundins vinnutíma hafa samband við vakthafandi nýrnalækni í 543 1000

Ígræðslugöngudeild - mynd

Hér erum við

Gengið um K-byggingu (gegnt nýja sjúkrahótelinu)

Hagnýtar upplýsingar

Á ígræðslugöngudeild er þjónusta við einstaklinga sem annarsvegar þurfa eða hafa fengið ígrætt nýra/líffæri og hins vegar þjónusta fyrir lifandi nýragjafa fyrir og eftir nýragjöf. 

Staðsetning

Ígræðslugöngudeild Landspítala er staðsett á almennri göngudeild 10E í kjallara aðalbyggingar við Hringbraut.  Aðkoma á deildina er greiðust frá inngangi K-byggingar sem er gegnt nýja sjúkrahótelinu og þar við eru gjaldskyld bílastæði.

Hafa samband

  • Hægt er að hafa samband eða koma skilaboðum til hjúkrunarfræðinga á göngudeildinni á virkum dögum kl 8-15.
    Tímapantanir á almennu göngudeild eru í síma 543 6320
  • Beint samband við ígræðslugöngudeild og óskir um símaviðtal við hj.fr. er í síma 543-6320
  • Tölvupóstfang ígræðslugöngudeildar er transplant@landspitali.is  og í gegnum þann póst er hægt að komast í samband við þá sem starfa að ígræðslumálum á Landspítala.
  • Ef bráð vandamál koma upp utan hefðbundins vinnutíma er hægt að hafa samband við vakthafandi nýrnalækni í gegnum símaþjónustu Landspítala í 543 1000.
  • Skrifstofustjóri nýrnalækninga
        -tekur við beiðnum um endurnýjun lyfseðla
        -útbýr vottorð og beiðnir í samstarfi við sérfræðilæknana
  • Hægt er að hafa samband við skrifstofu nýrnalækninga ef sjúklingar þurfa að ná sambandi við ákveðinn nýrnalækni á dagvinnutíma. 
  • Þeir sem hafa áhuga á að gefa nýra eða óska eftir upplýsingum um ígræðslur hafi samband við ígræðslugöngudeildina á dagvinnutíma í síma 825 3766 eða senda tölvupóst á transplant@landspitali.is

Á Landspítala starfar teymi sérfræðinga sem sinnir einstaklingum sem annars vegar þurfa á ígræddu nýra að halda og hins vegar einstaklingum sem vilja gefa ættingja eða vini annað nýrað sitt. Í ígræðsluteymi spítalans eru nýrnasérfræðingar, skurðlæknar, hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafi, ritari og læknaritari. Teymið er einnig í góðu samstarfi við sérhæft starfsfólk Blóðbankans.

Nýrnasérfræðingar

Margrét B. Andrésdóttir yfirlæknir
Ásta Dögg Jónasdóttir
Fjölnir Elvarsson
Helga Guðmundsdóttir
Ragnar Pálsson
Ólafur S. Indriðason sérfræðilæknir
Sunna Snædal sérfræðilæknir

Skurðlæknar

Jóhann Jónsson, sérfræðingur, ígræðsluskurðlæknir
Rafn Hilmarsson, yfirlæknir þvagfæraskurðlækninga
Eiríkur Jónsson,þvagfærasérfræðingur

Hjúkrunarfræðingur ígræðslugöngudeildar

Margrét Björnsdóttir
Kristín K Alexíusdóttir

Ritari ígræðslugöngudeildar

Jórunn Fregn Víglundsdóttir
Netfang: transplant@landspitali.is, sími 543 6320

Skrifstofustjóri nýrnalækninga

Elísabet Lilja Haraldsdóttir læknaritari
Sími 543 6450
Netfang: nyru@landspitali.is

Félagsráðgjafi ígræðslugöngudeildar

Anna Dóra Sigurðardóttir félagsráðgjafi
Sími 543 9514
Netfang: annadora@landspitali.is

Þá eru einnig sjúkraþjálfari og næringarfræðingur í nánu samstarfi við ígræðslugöngudeildina sem getur vísað skjólstæðingum þangað eftir þörfum. 

 Barnaígræðsluteymi

Inger María Sch. Ágústsdóttir hjúkrunarfræðingur
Sindri Valdimarsson sérfræðilæknir
Viðar Örn Eðvarðsson sérfræðilæknir

Á vegum Landspítala var starfrækur Nýrnaskóli árin 2010 – 2015 þar sem boðið var uppá námskeið fyrir nýrnasjúklinga og aðstandendur þeirra.
Á You Tube má finna upptökur frá námskeiði skólans vorið 2014.

Á námskeiðinu var meðal annars fjallað um:

  • Hvað gera nýrun og hvað gerist þegar þau bila?
  • Meðferð í boði; kostir og gallar
  • Næring
  • Hreyfing
  • Að lifa með langvinnan sjúkdóm
  • Nýraígræðslur
  • Félagsleg réttindi
  • Kynning á Félagi nýrnasjúkra.

Bæklingar og upplýsingasíður:


Nýraígræðsla

Heilbrigður einstaklingur sem er við góða heilsu getur gefið annað nýrað sitt vegna þess að nýrun hafa mikla umframgetu og unnt er að lifa eðlilegu lífi með eitt nýra.
Hægt er að gefa nýra fram að sjötugsaldri ef heilsan er góð og nýrun starfa eðlilega.

Hér á landi er algengast að ígrætt nýra fáist frá lifandi gjöfum og undanfarna áratugi hafa íslenskir nýraþegar fengið nýra frá lifandi nýragjafa í 60-70% tilvika. Skortur á líffærum til ígræðslu, sérstaklega frá látnum gjöfum, er mikill bæði hér á landi og í heiminum öllum.

Margir hafa haldið því fram, að ef menn eru tilbúnir til að þiggja ígrætt líffæri þá eigi menn líka að vera reiðubúnir að gefa líffæri við lífslok.

Nýragjöf - upplýsingar fyrir þá sem íhuga að gefa nýra

Kynntu þér líffæragjöf á vef island.is.

Það var heillaspor fyrir Landspítala og íslenskt samfélag að hefja ígræðslur nýrna hér á landi árið 2003. Þessi áfangi stórefldi ígræðslulækningar og hefur haft jákvæð áhrif á lækningastarfsemi stofnunarinnar í heild.

Nýraígræðslur á Íslandi er samstarfsverkefni nýrnalækninga- og þvagfæraskurðlækningaeininga Landspítala. Forsenda þess að hægt væri að bjóða þennan valkost fyrir nýraþega sem höfðu lifandi gjafa var að sérfræðingur í ígræðsluskurðlækningum kæmi að verkefninu og leitað var til Jóhanns Jónssonar ígræðsluskurðlæknis á Fairfax-sjúkrahúsinu í Virginíu í Bandaríkjunum. Hann skipulagði verkferla ásamt sérfræðingum á Landspítala og gerði aðgerðirnar ásamt þvagfæraskurðlæknum og æðaskurðlæknum Landspítala. Hjúkrunarfræðingar og læknar á skurðstofum, gjörgæslu og legudeild tóku stóran þátt í skipulagningu og undirbúningi þegar byrjað var að gera þessar aðgerðir á Landspítala.

Það er stór hópur sérhæfðra starfsmanna Landspítala sem kemur að nýraígræðslum. Þessi hópur myndar keðju þar sem sérhver hlekkur skiptir miklu máli til að tryggja öryggi nýragjafa og nýraþega fyrir og eftir aðgerð. Undirbúningi nýragjafa og nýraþega og langtíma eftirliti nýraþega er stjórnað af nýrnasérfræðingum í samvinnu við hjúkrunarfræðinga á ígræðslugöngudeildinni. Í tengslum við þessar ígræðslur var ígræðslugöngudeild spítalans efld

Nýraígræðslur á Landspítala voru í upphafi eingöngu frá lifandi gjöfum en ígræðslur frá látnum gjöfum voru gerðar erlendis á því sjúkrahúsi á Norðurlöndunum sem Sjúkratryggingar Ísland gerir samning við hverju sinni. Frá árinu 2010 hefur samningur verið við Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið í Gautaborg.

Þáttaskil urðu í ígræðslumálum á Íslandi árið 2019, en á var byrjað að gera nýraígræðslur á Landspítala þar sem um er að ræða gjafanýra frá látnum gjafa á Íslandi. Ennþá verða samt margir nýraþega að fara erlendis þar sem ekki eru allir sem geta þegið nýru hér Íslandi, oftast vegna mótefnastöðu viðkomandi

Íslendingar eru aðilar að Norrænu líffæraígræðslustofnuninni Scandiatransplant.  Íslenskir nýrnalæknar hafa setið í stjórn samtakanna og þannig haft áhrif á stefnumótun og starfið innan þeirra.  Líffæri sem látnir Íslendingar gefa eru fjarlægð af læknum ígræðslusjúkrahúss sem Íslendingar eru með samning við hverju sinni og þeim útdeilt í samvinnu við Scandiatransplant.

Mestan ávinning af aukinni ígræðsluvirkni, fjölgun nýragjafa og þar með fjölgun ígræðsluaðgerða hafa sjúklingar með nýrnabilun á lokastigi. Nýraígræðsla hefur meiri lífsgæði í för með sér en unnt er að ná fram með skilunarmeðferðum.

  • Árið 1943 setti hollenski læknirinn Willem Kolff saman fyrstu nothæfu blóðskilunarvélina og tveimur árum seinna náði hann þeim stóra áfanga að bjarga lífi sjúklings sem haldinn var alvarlegri bráðri nýrnabilun með því að beita blóðskilunarmeðferð
  • Árið 1960 hóf fyrsti sjúklingurinn blóðskilunarmeðferð til langframa vegna nýrnabilunar á lokastigi og lifði hann í 11 ár. Það sem gerði kleift að veita slíka meðferð svo lengi var útvortis tenging milli slagæðar og bláæðar (arteriovenous shunt) úr teflóni sem var hönnuð af bandaríska lækninum Belding Scribner og var síðan við hann kennd
  • Árið 1985 tókst að einangra erfðavísi rauðkornahvatans erýtrópoietíns í mönnum og í framhaldi af því hófst framleiðsla þess í hamstursfrumum með samrunaerfðatækni. Fáeinum árum síðar var lyf sem innihélt erýtrópoietín komið á markað og var þá í fyrsta sinn völ á virkri meðferð við blóðleysi af völdum nýrnabilunar. Þessi merka uppgötvun stórbætti líðan og lífsgæði skilunarsjúklinga
  • Á Þorláksmessu árið 1954 var fyrsta árangursríka líffæraígræðslan. Þessi sögulega aðgerð fór fram á Peter Bent Brigham-sjúkrahúsinu í Boston og var stjórnað af bandaríska skurðlækninum Joseph E. Murray. Nýra var þá grætt í ungan mann og var gjafinn eineggja tvíburabróðir mannsins. Þar sem vefjaflokkamynstur mannanna voru eins mynduðust engin höfnunarviðbrögð gegn nýranu þó að ekki væri beitt ónæmisbælandi meðferð sem ekki var komin til sögunnar á þessum tíma
  • Fyrsti Íslendingurinn gekkst undir ígræðslu nýra í desember 1970. Aðgerðin fór fram á sjúkrahúsi í London
  • Fram til ársins 1991 voru Íslendingar öðrum háðir um líffæri til ígræðslu en þá urðu mikil tímamót því sett voru lög hér á landi sem skilgreindu heiladauða og heimiluðu brottnám líffæra úr látnum til ígræðslu
  • Ísland gerir samning við eitt af Norðurlöndunum vegna ígræðsluaðgerða þar sem um er að ræða líffæri frá látnum gjöfum. Frá árinu 2010 er samningur í gildi við Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið í Gautaborg í Svíþjóð
  • Fyrsta nýraígræðslan fór fram á Íslandi í desember 2003 en um var að ræða nýra frá lifandi gjafa.en fFram að þeim tíma voru allar nýrnaígræðslur erlendis. Flestar aðgerðir þar sem um er að ræða lifandi nýragjafa eru gerðar á Íslandi.
  • Frá 2019 hafa verið gerðar nýraígræðslur á Íslandi frá látnum gjafa á Íslandi ef heppilegasti nýraþegi á biðlista er búsettur hér.
  • Frá desember 2003 til desember 2022 hafa verið gerðar 150 nýraígræðslur á Landspítala ýmist frá látum eða lifandi gjöfum.

Tímamót urðu árið 1991 þegar lög voru sett hér á landi sem skilgreindu heiladauða og heimiluðu brottnám líffæra til ígræðslu.  Slík lög eru víðast í gildi m.a. á hinum Norðurlanna. Þau hafa það í för með sér að þegar um heiladauða er að ræða má úrskurða fólk látið enda þótt hjartað slái enn og viðkomandi sé í öndunarvél. Á hverju ári koma upp nokkur slík tilfelli hér á landi.

Andlát vegna heiladauða er forsenda þess að unnt sé að nýta líffæri látinna einstaklinga til ígræðslu. Heiladauði merkir að átt hefur sér stað óafturkræf stöðvun á starfsemi heilans. Þegar heiladauði hefur verið staðfestur er starfsemi annarra nauðsynlegra líffærakerfa hins látna haldið gangandi með vélbúnaði og lyfjum þar til gjafalíffærin hafa verið numin brott .

Áður hafði verið í gildi „ætluð neitun“ sem varð við þessa breytingu að „ætluðu samþykki“ vegna brottnáms líffæra  

Óheimilt er að greina líffæraþega frá nafni látna gjafans og aðstandendur gjafans fá ekki að vita hverjir njóta góðs af líffærum hans. Líffæraþegi getur þó sent ættingjum gjafans þakkarbréf, en slíkt bréf er þá sent til Sahlgrenska sjúkrahússins sem kemur því nafnlaust til viðtakenda.

Lög um líffæragjöf eru svipuð hér og annars staðar á Norðurlöndunum. Sá sem orðinn er 18 ára getur gefið líffæri til ígræðslu. Enginn svo ungur gjafi hefur verið samþykktur hér á Íslandi og mjög sérstakar aðstæður mundu þurfa að koma upp til þess að íigræðsluteymi Landspítal mundi samþykkja svo unga nýrgjafa.

Lifandi líffæragjafi getur gefið annað nýra sitt, hluta af lifur og einnig er hægt að gefa hluta af lunga. Algengast er að gefa annað nýra sitt. Skylt er að veita hinum verðandi gjafa ítarlega fræðslu um aðgerðina og hugsanlega áhættu. Þess skal gætt til hins ítrasta að leggja gjafann í sem minnsta hættu við brottnám líffærisins.

Þrátt fyrir það að Íslendingar fái nýra frá lifandi gjafa í um 70% tilvika (þetta hlutfall er sérstaklega hátt hér á landi) þá er skortur á nýrum vaxandi vandamál hér sem annars staðar.  Aðstandendur látinna einstaklinga synja oft ósk um líffæragjöf í 30-40% tilvika hér á landi.  Ekki er vitað hverjar eru meginástæður fyrir neitun um líffæragjöf en þetta er afar viðkvæmt málefni.  Fjölskylda mögulegs líffæragjafa upplifir mikla sorg og missi á sama tíma og óskað er eftir að hún gefi líffæri hans.  Umræða og skoðanaskipti í fjölskyldu - og vinahópum um líffæragjafir, áður en slys eða veikindi koma upp, þar sem vilji hvers og eins kemur fram getur auðveldað aðstandendum að taka þessa erfiðu ákvörðun, ef á það reynir.

Erlendis hafa ýmsar leiðir verið reyndar til fjölga líffæragjöfum og hafa þær oft á tíðum verið umdeildar.  Meðal annars hafa verið gefin út sérstök líffæragjafakort eða að ósk um að vera líffæragjafi hefur verið skráð í ökuskírteini. Athygli vekur að líffæragjafakort hafa lítil áhrif haft á fjölda gjafa í Bandaríkjunum. 

Víða í Evrópu hafa verið sett lög sem gera ráð fyrir ætluðu samþykki. Er þá gengið út frá því að allir séu líffæragjafar, nema þeir komi á framfæri að þeir vilji ekki gefa líffæri sín við lífslok.  Á Íslandi og í flestum löndum þar sem lög gera ráð fyrir ætluðu samþykki er alltaf leitað eftir samþykki fjölskyldu hins látna um líffæragjöf.

Þjóðir sem hafa hæsta tíðni líffæragjafa búa flestar við löggjöf sem gerir ráð fyrir ætluðu samþykki en þær hafa undantekningarlaust beitt margvíslegum aðferðum til að stuðla að fjölgun gjafa, einkum öflugu skipulagi er lýtur að greiningu mögulegra líffæragjafa og ósk um gjöf og víðtækri almenningsfræðslu.

að nauðsynlegt er að huga að heilsunni á meðan beðið er eftir nýra til ígræðslu?

  • Meðan beðið er eftir ígræðslu nýra er nauðsynlegt að einstaklingurinn undirbúi sig fyrir ígræðsluna með því að stunda líkamsþjálfun. Einstaklingar með sykursýki þurfa að fylgjast vel með húðinni, en aukin hætta getur verið á fótasárum hjá einstaklingum með sykursýki
  • Sýkingar seinka eða geta komið í veg fyrir líffæraígræðslu
  • Enginn sjúklingur með ígrætt líffæri ætti að reykja og allra síst þeir sem eru með sykursýki 

að hjá hluta þeirra sem hafa fengið ígrætt nýra er sykursýki orsök nýrnabilunarinnar?

  • Sykursýki getur með tímanum leitt til nýrnabilunar. Í slíkum tilfellum er stundum er hægt að græða bæði nýra og bris samtímis í einstakling.  Insúlíngjöf er þá í flestum tilfellum óþörf þar sem ígrædda brisið sér um insúlínstjórnunina.  Þessar aðgerðir eru stærri og flóknari en þegar einungis er um að ræða nýraígræðslu

að ef ekki er hægt að bjarga nýranu eftir höfnun er aftur hafin skilunarmeðferð?

  • Ef ígrætt nýra hættir að starfa vegna höfnunar eða endurkomu grunnsjúkdóms er hægt er að setja sjúkling aftur á biðlista fyrir ígræðslu ef ástand hans leyfir. Venjulega eru góðar líkur á að endurtekin nýraígræðsla heppnist. Eftir endurteknar ígræðslur myndast oftast mótefni gegn vefjaflokkum sem gera það að verkum að erfiðara er að finna nýra sem hentar

að hægt er að græða nýra í mjög ung börn?

  • Oftast fá börn nýra frá lifandi gjafa.  Barn sem er 10 kíló að þyngd getur venjulega þegið nýra frá fullorðnum
  • Hjá litlum börnum er nýrað sett inn í kviðarholið
  • Hjá stærri börnum er nýrað sett neðst í kviðarholið, utan lífhimnu og blóðrásin tengd við æðar í nára eins og hjá fullorðnum
  • Sérfræðingar í nýrnasjúkdómum barna á Barnaspítala Hringsins veita upplýsingar um nýraígræðslur hjá börnum

að órói og vanlíðan getur verið mikill hjá börnum og unglingum sem bíða eftir ígræðslu?

  • Langvarandi veikindi hafa áhrif á líðan og starfsgetu barna og unglinga.  Það er því mikilvægt að vera vakandi fyrir vanlíðan þeirra og að sjá til þess að börn og unglingar fái aðstoð við að ráða fram úr vandamálum sem kunna að vera fyrir hendi.  Stuðningur við fjölskyldur langveikra barna og unglinga er einnig nauðsynlegur
  • Lyfjagjöf fyrir og eftir ígræðsluaðgerð getur valdið breytingum á útliti og þroska líkamans. Best er að tala við heilbrigðisstarfsfólk um þessi vandamál. Þá getur einnig verið gagnlegt að ræða við skólastjórnendur og kennara til að þeir séu upplýstir og meðvitaðir um stöðu og vandamál þessara einstaklinga

Handbók

Handbók fyrir nýraþega

Glærukynningar

Lífið eftir líffæraígræðslu I - Ónæmiskerfið, ónæmisbælandi lyf og hætta á höfnun

Lífið eftir líffæraígræðslu II - Hvað er mikilvægt að hafa í huga þegar maður kemur heim?

Myndskeið

Kennsluefni Nýrnaskólans - upptaka frá árinu 2014

Hér eru upplýsingar fyrir þá sem íhuga að gefa nýra; um nýrnasjúkdóma, nýraígræðslu, herjir geta gefið nýra og fleira.

Nýragjöf - upplýsingar fyrir þá sem íhuga að gefa nýra

Nýraþegar

Hvernig er hægt að biðja um nýra frá lifandi gjafa?

Oft á það sér nokkurn aðdraganda að nýrun hætta að starfa sem gefur sjúklingi og nýrnalækni tíma til að ræða um mögulegar meðferðir, þ.e. skilun og ígræðslu.

Nýraígræðslur eru oft æskilegri kostur en skilunarmeðferð, ef aðstæður og heilsa leyfa, sérstaklega þegar litið er til langs tíma.

Þegar ljóst er að nýrnasjúkdómur muni þróast yfir í lokastigsnýrnabilun er æskilegt að velta fyrir sér mögulegum nýragjöfum. Við þessar aðstæður er sjálfsagt að leita til hjúkrunarfræðinga á ígræðslugöngudeild Landspítala til að fá frekari upplýsingar um nýraígræðslur: transplant@landspitali.is.

Hvað ef enginn lifandi nýragjafi er í sjónmáli?

Þegar leitað er að nýragjafa er nánasta fjölskylda oft besti kosturinn, m.a. vegna skyldleika sem hefur í för með sér auknar líkur á sameiginlegum vefjaflokkum. Það er þó alls ekkert skilyrði.

Benda má áhugasömum ættingjum og vinum á að hafa samband við transplant@landspitali.is til að fá upplýsingar um nýragjöf ákvarðaog til að meta hvort þeir komi til greina sem nýragjafar. Frekari rannsóknir eru síðan skipulagðar ef ekkert mælir gegn nýragjöf eftir fyrsta viðtal. Ef ekki finnst nýragjafi með þessu móti er sjúklingurinn settur á biðlista fyrir nýraígræðslu frá látnum gjafa. Nú eru slíkar aðgerðir gerðar samkvæmt samningi Landspítala/Sjúkratrygginga Íslands við Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið í Gautaborg, Svíþjóð.

Áður en ákveðið er að einstaklingur sé hæfur til að gangast undir ígræðslu nýra þarf hann að fara í umfangsmikið mat til að tryggja að ekki séu fyrir hendi aðrir alvarlegir sjúkdómar eða vandamál sem mæla gegn ígræðslu.

Helstu undirbúningsrannsóknir:

  • Blóðrannsóknir
  • Röntgenmyndataka af brjóstholi
  • Hjartalínurit (EKG), hjartaómskoðun og e.t.v. álagspróf
  • Tölvusneiðmyndun af kviðar- og grindarholi, m.a. til að meta ástand slagæða sem slagæð ígrædda nýrans verður tengd við
  • Mælingar á þvagflæði og rýmd þvagblöðru

Þegar ígræðslan er á Íslandi (lifandi gjafi) er aðgerðardagur ákveðinn með fyrirvara.

Undirbúningur fyrir aðgerðina er samkvæmt ákveðnu ferli þar sem bæði gjafinn og þeginn þurfa að hitta skurðlæknana, svæfingarlækni, hjúkrunarfræðing, sjúkraþjálfara, fara í blóðprufur og fá fræðslu um aðgerðina og lífið eftir aðgerð.  Þetta er gert nokkrum dögum fyrir aðgerð.

Ef einstaklingur er enn á vinnumarkaði þegar komið er að ígræðslu ætti að kanna veikindarétt hjá vinnuveitanda og stéttarfélagi.

Væntanlegur nýraþegi á að leggja allt kapp á að halda sér í eins góðu líkamlegu formi og unnt er á meðan hann bíður eftir ígræðslunni.

  • Ofþyngd getur komið í veg fyrir aðgerð.
  • Þeir sem eru of þungir ættu að nýta tímann til að grennast.
  • Sjúklingurinn þarf að hætta að reykja og hægt er að fá aðstoð við það.  Reykleysi er algjör forsenda fyrir græðslu briss, hjarta og lungna
  • Næringarfræðingur leiðbeinir um mataræði og oft er æskilegt að fá aðstoð sjúkraþjálfara við að skipuleggja æfingaáætlun

Á meðan beðið er eftir nýra sækja stundum efasemdir og áhyggjur að sjúklingnum.  Hjúkrunarfræðingar og læknar á skilunardeild og ígræðslugöngudeild eru ávallt tilbúnir að fara yfir málin.  Einnig getur verið gagnlegt að hafa samband við annan sjúkling með ígrætt líffæri og fá hann til að miðla af reynslu sinni.  Hægt er að leita til hjúkrunarfræðings á ígræðslugöngudeild og Félags nýrnasjúkra nyra@nyra.is varðandi það.

Ígrætt nýra starfar ekki alltaf strax. Að aðgerð lokinni fer nýraþeginn á vöknun þar sem fylgst er með honum fyrstu klukkustundirnar.  Það getur dregist í daga og jafnvel vikur að ígrædda nýrað fari að starfa án þess að það hafi áhrif á árangur ígræðslunnar.  Þetta getur verið vegna þess að oft líður nokkur tími frá því að nýrað er fjarlægt úr líkama nýragjafans og þar til það er grætt í annan líkama. Nauðsynlegt getur því reynst að sjúklingur fari blóðskilun fyrstu dagana eftir ígræðslu.  Sé nýrað úr lifandi eða nýlátnum gjafa eru miklar líkur á að það fari strax að framleiða þvag. 

Óþægindi og eftirlit fyrst á eftir. Nýraþeginn getur fundið fyrir óþægindum þegar hann vaknar eftir svæfinguna, t.d. þorsta og eymslum í hálsi eftir barkarennuna sem notast er við í svæfingunni. Þá getur hæsi og hósti einnig verið fylgifiskur eftir svæfinguna. Nauðsynlegt er að fylgjast nákvæmlega með þvagútskilnaði og fyrstu dagana getur þvagið verið blóðlitað. Láta verður hjúkrunarfólk vita af verkjum og að fá verkjalyf eftir þörfum. Það auðveldar hreyfingu og öndun og minnkar hættu á aukaverkunum vegna svæfingar og rúmlegu. 

Fótaferð. Það flýtir bata að komast sem fyrst á fætur.  Daginn eftir ígræðsluna fær nýraþeginn aðstoð við að setjast á rúmstokkinn og taka fáein skref. Sjúkraþjálfari kemur einnig og aðstoðar við öndunaræfingar til að fyrirbyggja uppsöfnun á slími í öndunarvegi.

Matur og drykkir. Alla jafna má byrja að drekka fljótlega eftir aðgerð, jafnvel samdægurs og borða daginn eftir.  Nauðsynlegt er að nýraþeginn fylgist með að meltingin komist í lag og láti vita ef það gengur treglega.  Matarlystin eykst oft eftir aðgerðina en það leiðir stundum til óæskilegrar þyngdaraukningar þegar frá líður. 

Hreinlæti. Mikilvægt er að gæta hreinlætis vegna lyfjameðferðar sem bælir ónæmiskerfið og eykur hættuna á sýkingum, einkum fyrstu mánuði eftir aðgerðina.  Fylgst er daglega með líkamsþyngd, hita, blóðþrýstingi, þvagútskilnaði og ýmsum blóðgildum meðan dvalið er á sjúkrahúsinu. 

Útskrift og reglulegt eftirlit. Nýraþegar útskrifast oftast u.þ.b. 4 dögum eftir ígræðslu nýra frá lifandi gjafa á Landspítala og í kjölfarið fylgir náið eftirlit á ígræðslugöngudeild spítalans a.m.k. tvisvar í viku.  Þar hittir nýraþeginn nýrnalækni og hjúkrunarfræðing og gerðar eru blóð- og þvagrannsóknir.  Áfram er fylgst með blóðþrýstingi og þyngd.  Farið er reglulega yfir lyfjameðferðina og aukaverkanir lyfja og einnig er farið yfir ákveðnar lífstílsbreytingar sem eru nauðsynlegar vegna ónæmisbælds ástands.  Ef saumar eru í skurðsári eru þeir fjarlægðir um 10 dögum eftir aðgerð.

Kviðskilunarleggur. Ef nýraþegi er með kviðskilunarlegg er hann yfirleitt fjarlægður í ígræðsluaðgerðinni nýra frá lifandi gjafa.  Þegar nýra kemur frá látnum gjafa er hann venjulega fjarlægður síðar eða þegar starfsemi nýja nýrans er komin í fullnægjandi horf.

Fistill. Ef nýraþeginn er með fistil fyrir blóðskilun hættir hann stundum að virka sjálfkrafa eftir ígræðslu. Í sumum tilvikum er fistli lokað með skurðaðgerð.

Líkaminn skynjar ígrædda nýrað sem aðskotahlut og því ræðst ónæmiskerfið kröftuglega gegn því.  Höfnun á ígræddu líffæri má hindra eða bæla með lyfjum. Án slíkrar lyfjameðferðar myndi nýrað eyðileggjast á nokkrum vikum.

Þrátt fyrir ónæmisbælandi lyfjameðferð fá um 20-30% sjúklinga bráða höfnun sem kemur yfirleitt upp á fyrstu þremur mánuðunum eftir ígræðslu.  Oftast er höfnun einkennalaus og sést aðeins sem hækkun kreatíns í blóði.  Snögg hækkun kreatíns í blóði getur verið merki höfnunar en getur líka stafað af öðrum orsökum t.d. ófullnægjandi vökvamagni í líkamanum.

Ef starfsemi nýrans skerðist skyndilega eru frekari rannsóknir gerðar, t.d. ómskoðun. Oft þarf einnig að taka nálarsýni (sýni með sérstakri nál) frá ígrædda nýranu til að staðfesta greiningu höfnunar.

Eftirfarandi einkenni geta verið einkenni höfnunar:

  • Hækkun á kreatíni í blóði
  • Hiti og almennur slappleiki
  • Eymsli yfir ígrædda nýranu
  • Minni þvagmyndun
  • Óeðlileg þyngdaraukning á mjög skömmum tíma
  • Bjúgur á fótum eða annars staðar á líkamanum

Mikilvægt er að hefja meðferð við höfnun sem fyrst því að þá er árangurinn bestur.  Þess vegna eru sjúklingar hvattir að hafa strax samband við nýrnalækni ef ofangreind einkenni koma fram.  Læknir metur þá hvort frekari rannsókna er þörf. Fyrstu mánuðina er eftirlit með ígræðslusjúklingum þétt og þá eru jafnan gerðar blóðrannsóknir.  Með því móti er hægt að fylgjast náið með kreatíni og þéttni ónæmisbælandi lyfjanna í blóðinu og grípa fljótt inn í, vakni grunur um höfnun.

Höfnun hefur verið skipt í tvo aðalflokka:

Bráð höfnun einkennist af skyndilegri hækkun kreatíns í blóði og er hún algengust fyrstu þrjá mánuðina eftir ígræðslu þótt hún geti líka orðið síðar. Meðferð á höfnun fer fram á sjúkrahúsi og eru þá gefin lyf í æð í nokkra daga. Oftast tekst að koma í veg fyrir varanlegar skemmdir í nýranu á þennan hátt.

Langvinn höfnun einkennist af hægfara hnignun á starfsemi ígrædda nýrans og oft fylgir aukinn prótínútskilnaður í þvagi og hækkandi blóðþrýstingur. Þessi tegund höfnunar kemur yfirleitt fram seinna en getur komið fram allt frá nokkrum mánuðum til nokkrum árum eftir ígræðslu. Enn er ekki völ á virkri meðferð gegn langvinnri höfnun en ígrætt nýra getur starfað ágætlega í marga mánuði og jafnvel ár áður en þörf er á skilunarmeðferð eða hugsanlega endurígræðslu.

Í ígræðsluaðgerðinni eru gefin öflug ónæmisbælandi lyf.  Þessi lyf eru mótefni sem lama lykilfrumur í ónæmiskerfi þegans.  Á meðan ígrædda nýrað er í líkamanum verður að taka ónæmisbælandi lyf, jafnvel þó að nýrað sé hætt að starfa því annars er hætt við myndun mótefna gegn mikilvægum vefjaflokkum. Ef mótefni myndast getur það dregið úr líkum á því að ný ígræðsla heppnist.

Grundvallaratriði:

  • Taka skal lyfin nákvæmlega eins og fyrir er lagt!
  • Hafa skal samband við ígræðslugöngudeild á dagvinnutíma og við læknavakt eða bráðamóttöku utan dagvinnutíma, ef einhverjar fyrirspurnir eða ef rof verður á reglubundinni inntöku lyfja og ef alvarleg veikindi eða breyting á líðan.

Helstu ónæmisbælandi lyf sem nýraþegar taka til frambúðar eru oftast annað hvort Takrólimus eða Cýklósporin og Mýkófenólat. Stundum þarf að skipta þessum lyfjum út fyrir önnur (Everolimus) ef upp kemur óþol eða ofnæmi:

Takrólímus (Prograf, Advagraf, Dailiport) hefur sértæka ónæmisbælandi verkun og er meginlyf flestra nýraþega. Kemur í mismunandi styrkleikum 0.5, 1, 2, 3, 5 mg hylkjum til inntöku.

Cýklósporín (Sandimmun Neoral) verkar á svipaðan máta og takrólímus. Lyfið var áður aðal ónæmisbælandi lyf flestra nýraþega en dregið hefur úr notkun þess eftir tilkomu takrólímus. Kemur í hylkjum til inntöku.

Mýkófenólat (Cellcept, Myfenax, Myfortic) er annað helsta ónæmisbælandi lyf nýraþega auk takrólímus/cýklósporín. Kemur í töflum eða hylkjum til inntöku. Azaþíóprín (Imurel) var áður mikilvægur hluti ónæmisbælandi lyfjameðferðar nýraþega en notkun þess hefur minnkað mikið eftir að mýkófenólat kom til sögunnar. Lyfið er gefið í töfluformi.

Prednisólón er barksteri, en barksterar eru lyf með breiða bólguhemjandi og ónæmisbælandi verkun. Prednisólon kemur í töfluformi og er fyrstu dagana gefið í talsvert stórum skammti en síðan er skjótt dregið úr lyfjaskammtinum. Undanfarin ár hefur að verulegu leyti verið horfið frá notkun stera í tengslum við ígræðsluaðgerðir

Stöðugt er verið að þróa ný lyf við höfnun og prófa þau á rannsóknarstofum og ígræðslustofnunum.

Aukaverkanir

Ónæmisbælandi lyf eru forsenda þess að nýraþeginn haldi ígrædda nýranu.  En þessum mikilvirku lyfjum fylgja óhjákvæmilega aukaverkanir.  Misjafnt er að hve miklu leyti nýraþegar verða fyrir barðinu á þeim eða hvaða aukaverkunum einstaklingar finna fyrir.

Stundum eru aukaverkanir svo íþyngjandi að nauðsynlegt er að breyta lyfjum eða lyfjaskömmtum.  Því stærri sem lyfjaskammtarnir eru þeim mun líklegri eru aukaverkanir.

Eftir því sem bæling ónæmiskerfisins er meiri aukast líkur á sýkingum. Þar á meðal eru veirusýkingar en ýmsar veirur sem hafa bólfestu í líkamanum geta tekið að fjölga sér við þessar aðstæður.

  • Algengt er að herpes simplex-veiran geri vart við sig með frunsum kringum munnvik eða á kynfærum. Völ er á lyfjameðferð gegn slíkum sýkingum
  • Hlaupabóluveiran getur brotist fram í formi ristils á fullorðinsárum. Völ er á lyfjameðferð
  • Stórfrumuveira (cytomegalovirus, CMV) er tíður sýkingavaldur hjá líffæraþegum og eru hiti og slappleiki helstu einkennin. Gjarnan er gefin fyrirbyggjandi meðferð gegn CMV í 3-6 mánuði eftir ígræðsluna og er yfirleitt notast við lyfið valgancíklóvír (Valcyte). Þá er hægt að uppræta CMV-sýkingu með lyfjagjöf í æð
  • Aukin hætta er á ýmsum bakteríusýkingum og því er notuð fyrirbyggjandi sýklalyfjameðferð með lyfinu trímetóprím-súlfametoxazól (Trimezol, Primazol) í allt að 6 mánuði eftir ígræðslu
  • Sveppasýkingar geta gert vart við sig víða í líkamanum, einkum í munni en einnig í kynfærum kvenna. Notuð eru ýmis lyf gegn sveppasýkingum
  • Auknar líkur eru á að æxli myndist, einkum í húð. Æxlin, sem eru í flestum tilvikum góðkynja, sjást fyrst sem smávörtur, einkum á handarbaki.  Þessi húðæxli er yfirleitt auðvelt að fjarlægja og hafa þau venjulega ekki frekari eftirköst.  Komi fram breytingar á húð skal leita læknis.  Forðast ber sólarlampa og sólböð.  Nauðsynlegt er að nota sterka sólarvörn til að verja húðina.  Mælt er með árlegu eftirliti hjá húðsjúkdómalækni

Takrólímus og cýklósporín koma í veg fyrir höfnun á ígrædda nýranu en geta jafnframt valdið skerðingu á starfsemi þess. Það kemur fram sem hækkun kreatíns, en það lækkar yfirleitt aftur ef dregið er úr lyfjaskammtinum.

Aðrar aukaverkanir takrólímus og cýklósporíns er einkum:

  • Hækkun blóðþrýstings
  • Sykursýki og hækkun blóðfitu
  • Eituráhrif á taugakerfi.  Fyrst eftir ígræðsluna, á meðan lyfjaskammtar eru stórir, getur nýraþeginn fundið fyrir skjálfta í höndunum.  Þá finna sumir fyrir brunatilfinningu í höndum eða fótum eða höfuðverk. Cýklósporín veldur auknum hárvexti, einkum í andliti og á handleggjum og oft ofvexti tannholds.  Mikilvægt er að þeir sem taka lyfið leggi sig fram við umhirðu tanna og tannholds og séu í reglubundnu eftirliti hjá tannlækni.

Mýkófenólat.  Helstu aukaverkanir  eru ógleði, uppþemba og niðurgangur.  Einnig getur lyfið valdið bælingu á beinmerg sem getur leitt til blóðleysis og fækkun á hvítum blóðkornum og blóðflögum.

Prednisólon. Getur haft margvíslegar aukaverkanir.  Mikið hefur dregið úr aukaverkunum barkstera þar sem skammtar hafa verið stórlega minnkaðir.  Langtímanotkun prednisólons fylgir aukin hætta á beinþynningu og því er jafnan gefin fyrirbyggjandi lyfjameðferð samfara notkun barkstera.  Ský á augasteinum eru einnig hvimleið aukaverkun stera.

Þó að aukaverkanir komi fram má nýraþeginn alls ekki breyta lyfjaskammti nema í samráði við nýrnalækni sem er ætíð reiðubúinn að veita upplýsingar þar að lútandi.

Önnur lyf

Mikilvægt er að hafa í huga að inntaka ýmissa lyfja getur haft áhrif á efnaskipti ónæmisbælandi lyfja og þar af leiðandi styrk þeirra í blóði. Því ættu nýraþegar ekki að hefja töku nýrra lyfja nema að höfðu samráði við nýrnalækni. Sama á við um náttúrulyf og ýmsar fæðutegundir. Þannig valda greipaldin og skyldir ávextir hækkun á styrk takrólímus og cýklósporíns í blóði og ættu nýraþegar því ekki að borða þá. Bólgueyðandi lyf og gigtarlyf ætti aldrei að taka nema í samráði við nýrnalækni.

 

Reglulegt eftirlit og rannsóknir eftir ígræðsluaðgerðina eru jafnmikilvægir þættir og ígræðslan sjálf.  Nýraþegi mætir á ígræðslugöngudeild, fer í rannsóknir og hittir lækni, hjúkrunarfræðing og félagsráðgjafa eftir þörfum hvers og eins.  Fylgst er náið með blóðþrýstingi, þyngd og andlegri og líkamlegri líðan.

Í blóðprufum er meðal annars reglulega fylgst með:

  • Kreatín – hjá nýraþegum eru gildi yfirleitt nokkru hærri en eðlilegt gildi sem er 6-90 µmól/l hjá konum og 70-100 µmól/l hjá körlum.
  • Þéttni takrólímus /cýklósporíns í blóði er mæld og skal taka blóðsýni rétt fyrir reglubundna töku lyfsins. Stefnt er að hærri blóðþéttni fyrstu mánuðina eftir ígræðslu en þegar legra er um liðið. Langtímaþéttni er oftast á bilinu 4-7 ng/l. Ákvörðun skammta lyfsins ræðst af niðurstöðu mælingar á blóðþéttni. Of stór skammtur getur haft neikvæð áhrif á starfsemi ígrædda nýrans og of lítill skammtur eykur líkur á höfnun.
  • Hvít blóðkorn. Eðlilegt gildi er á bilinu 4-10 x109/l. Ef fækkun verður á hvítum blóðkornum í blóðinu getur þurft að draga úr skammti mýkófenólats og annarra lyfja sem geta valdið því.
    Blóðrauði (hemóglóbín) þ.e. svokallað blóðgildi er oft of lágt fyrir ígræðsluna en hækkar venjulega eftir heppnaða nýraígræðslu. Það getur tekið nokkra mánuði. Eðlilegt gildi fyrir karla er 120-165 g/l og 118-152 g/l fyrir konur. 

Ef ígrædda nýrað starfar ekki sem skyldi:

  • Ómun (ómskoðun). Sú rannsókn getur komið að gagni við greiningu á flæðishindrun í þvagvegi og höfnun
  • Nýrasýni. Vefjasýni er tekið með nál úr nýranu.  Sýnatökunni er stýrt með ómun.  Þar sem ígrædda nýrað liggur mjög grunnt undir húð er þetta auðveldari aðgerð og sársaukaminni en sýnataka úr eigin nýra.  Niðurstaða úr vefjarannsókninni liggur yfirleitt fyrir strax næsta dag.
Eftir vel heppnaða ígræðslu getur nýraþeginn snúið aftur til sinna venjulegra starfa og hátta bæði í einkalífi og tómstundum.

Mataræði

Eftir nýraígræðslu getur nýraþeginn oftast borðað og drukkið það sem hann langar í.  Breyting verður oft á matarlyst og ýmsar takmarkanir á matarræði sem gilt hafa um lengri eða skemmri tíma vegna nýrnabilunar eiga ekki lengur við, t.d. mega nýraþegar borða eðlilegt magn prótína.

Mikilvægt er að borða vel samsettan mat með áherslu á að takmarka sykur- og fituneyslu því tíðni sykursýki, blóðfituhækkunar og hjarta- og æðasjúkdóma er aukin meðal nýraþega. Mataræði verður að taka mið af þessari hættu.

Áfram er nauðsynlegt að takmarka saltneyslu því tilhneiging er til söfnunar salts í líkamanum sem leitt getur til bjúgs og hækkunar blóðþrýstings.

  • Sterar auka matarlyst og geta því aukið hættu á þyngdaraukningu 
  • Nýraþeginn þarf að fylgjast vel með þyngdinni en erfitt getur verið að losna við óæskileg aukakíló
  • Ráðgjöf hjá næringarráðgjafa getur verið hjálpleg eftir ígræðsluna

Hreyfing

Fara verður varlega fyrst eftir aðgerðina og forðast að lyfta þungu.  Gagnlegt er að byrja á stuttum gönguferðum og auka síðan smám saman áreynslu eftir því sem geta leyfir.

Nýraþegar geta stundað flestar íþróttir, þar á meðal boltaíþróttir. Þó er ráðlegt að forðast áhættuíþróttir sem geta haft í för með sér högg á líkamann því hugsanlegt er að nýrað geti skaddast verði það fyrir þungu höggi.

Við útivist er nauðsynlegt að nota ætíð sólarvörn með mikilli vörn (stuðul 30) en ónæmisbælandi lyfin valda því að hætta á húðkrabbameini er aukin.

Sumir nýraþegar geta þurft á sjúkraþjálfun að halda eftir langvarandi erfið veikindi.  Viðkomandi nýrnalæknir sækir um greiðsluhlutdeild Sjúkratrygginga Íslands fyrir hönd sjúklings.

Reykingar og áfengi

Nýraþegi ætti ekki að reykja vegna aukinnar hættu á hjarta- og æðasjúkdómum og lungnakrabbameinum. Dánartíðni nýraþega vegna hjarta- og æðasjúkdóma er talsvert hækkuð og sér í lagi hjá þeim sem reykja.

Áfengi verður að forðast algjörlega í upphafi en síðar má neyta áfengis í hófi ef lifrarstarfsemin er eðlileg.

Kynlíf

  • Kynlíf skaðar ekki nýrað.  Það er vel verndað þar sem það er staðsett og verður ekki fyrir hnjaski við samfarir
  • Eins og eftir aðrar stórar aðgerðir er ráðlegt að bíða með kynlíf í 6-8 vikur
  • Einstaklingar sem ekki eru í föstu sambandi ættu alltaf að nota smokk við samfarir til að koma i veg fyrir kynsjúkdóma
  • Sumir karlmenn fá stinningarvanda og bæði kyn geta fundið fyrir minnkandi áhuga á að stunda kynlíf þegar nýrnastarfsemin er léleg
  • Eftir vel heppnaða ígræðslu kemur kyngetan venjulega aftur en það getur tekið tíma
  • Sum lyf gegn háum blóðþrýstingi geta einnig haft áhrif á kyngetu

Ráðlegt er að tala við nýrnalækni eða hjúkrunarfræðing á ígræðslugöngudeildinni ef einhverjar spurningar og einnig er völ á kynlífsráðgjöf hjá sérfræðingi ef þess er óskað.

Barneignir

  • Mörg dæmi eru um að konur hafi orðið þungaðar eftir nýraígræðslu
  • Ef blæðingar hafa hætt meðan á skilunarmeðferð stóð hefjast þær venjulega aftur eftir nokkra mánuði.  Egglos getur þó orðið áður og þungun er möguleg þó að blæðingar séu ekki orðnar eðlilegar.  Því þarf að nota getnaðarvörn við samfarir

Óski kona með ígrætt nýra eftir að eignast barn ætti hún að bíða í a.m.k. eitt ár eftir ígræðsluna og ræða við lækni sinn áður en hún reynir að verða þunguð.

Aftur til vinnu

Eftir vel heppnaða ígræðslu má yfirleitt hefja vinnu á ný.  Það fer eftir eðli starfsins og líðan hvort einstaklingur geti haldið áfram í fyrra starfi og hvort þeir sem hafa verið óvinnufærir geti farið aftur út á vinnumarkaðinn.  Misjafnt er hvort einstaklingar hafa verið á vinnumarkaði eða óvinnufærir vegna langvarandi veikinda fyrir ígræðsluna.

Gott er að byrja rólega, t.d. í hálfu starfi og auka síðan vinnuna eftir því sem þrek og þol leyfa.  Hvenær þetta telst heppilegt ræðst af því hvers konar vinna er stunduð og hvernig líðan nýraþegans er en það flýtir fyrir bata að hefja aftur eðlilegt líf.

Tryggingar og fjármál

Hugsanlega þarf að endurmeta örorku eða sjúkrastyrk vegna bættrar heilsu eftir vel heppnaða ígræðslu. Það þarf því að ræða það við lækni.
Anna Dóra Sigurðardóttir félagsráðgjafi ígræðslugöngudeildar Landspítala veitir ráðgjöf varðandi tryggingar og fjármál.

Utanlandsferðir

Ef ígrædda nýrað starfar vel og heilsan er komin í lag eftir ígræðsluna getur nýraþegi ferðast til útlanda.  Ekki er þó mælt með ferðalögum erlendis fyrr en u.þ.b. einu ári eftir ígræðsluna.

  • Ekki má gleyma að hafa nægar birgðir af lyfjum meðferðis í utanlandsferð þar sem mjög erfitt getur reynst að nálgast þau erlendis og gera þarf ráð fyrir seinkunum og breyttri ferðaáætlun
  • Alltaf skal ferðast með lyfin í handfarangri
  • Athuga fyrir brottför hvort þurfi sérstakar sjúkratryggingar
  • Sýna varkárni gagnvart nýju matarræði

Bólusetningar

Bólusetningar skulu ávallt vera í samráði við nýrnalækni. Upplýsa þarf um ígrætt nýra fyrir bólusetningar.
Líffæraþegar eiga aldrei að fá lifandi bóluefni (t.d. mislingabóluefni)

Nauðsynlegt er að nýraþegar fái bólusetningu vegna inflúensu árlega og vegna lungnabólgu á 5 ára fresti.

Bólusetningar vegna Covid byggjast á ráðleggingum sóttvarnarlækna á hverjum tíma og geta tekið breytingum frá einum tíma til annars

Tengslahópur nýrnasjúkra og aðstandenda þeirra er starfræktur innan Félags nýrnasjúkra þar sem hægt er að komast í samband við einstaklinga sem hafa gefið og þegið nýru.

 

Ferðakostnaður

Þegar Sjúkratryggingar Íslands hafa samþykkt nýraígræðslu greiðir stofnunin kostnað vegna ígræðsluaðgerðarinnar á erlendu sjúkrahúsi auk ferðakostnaðar og dagpeninga samkvæmt reglum stofnunarinnar. Einnig er greitt fyrir fylgdarmann eftir reglum SÍ.

Í stöku tilvikum er ígræðsla nýra frá lifandi gjafa framkvæmd erlendis. SÍ greiðir þá samkvæmt sérstakri reglugerð fyrir kostnað vegna ígræðsluaðgerðarinnar og fyrir ferðakostnað gjafans og þegans og fylgdarmanna.

Nánari upplýsingar fást hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Dagpeningar

Sjúkratryggingar Íslands greiða ferðdagpeninga vegna uppihalds nýraþega og nýragjafa þá daga sem þeir eru ekki inniliggjandi á sjúkrahúsi. Fylgdarmaður fær greidda dagpeninga fyrir þann tíma sem hann dvelur erlendis. Nýraþeginn sækir um dagpeninga fyrir fylgdarmann sinn eftir að heim er komið. Hægt er að hafa samband við félagsráðgjafa á Landspítala, til að fá frekari upplýsingar.  

Sjúkrahúskostnaður

Sjúkratryggingar Íslands greiða kostnað sem tengist samþykktri meðferð erlendis fyrir nýraþega og einnig ef um er að ræða lifandi nýragjafa.

Sjúkrahótel

Í Gautaborg útvegar Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið húsnæði fyrir aðstandendur og fyrir nýraþega og nýragjafa ef þeir þurfa á að halda þegar þeir útskrifast af sjúkrahúsinu eftir aðgerð. Frá þessu er gengið áður en farið er utan þegar um er að ræða nýraígræðslu frá lifandi gjafa enda undirbúningstími þá alla jafna nokkuð langur.

Sjúkrahótel Sahlgrenska-háskólasjúkrahússins sendir Sjúkratryggingum Íslands reikninginn fyrir dvölinni.

Ferðin út og dvölin í Gautaborg

Yfirleitt er um að ræða sjúkraflug þegar nýra frá látnum gjafa býðst og þá er farið frá Reykjavíkurflugvelli. Fyrir þá sem búa utan höfuðborgarsvæðisins þarf að gera ferðaáætlun í samstarfi við ígræðslugöngudeildina. Í stöku tilvikum er hægt að notast við áætlunarflug, sérstaklega ef hægt er að velja beint flug á áfangastað.  Þetta er breytilegt frá einum tíma til annars og væntanlegur þegi fær þessa upplýsingar þegar boð um nýra berst.

Við komuna á sjúkrahúsið þarf að koma mörgu í kring á skömmum tíma. Gera verður ráð fyrir samtölum við marga fyrir aðgerðina t.d. deildarlækni, svæfingalækni, skurðlækni, hjúkrunarfólk og ritara deildarinnar.

Það getur komið fyrir að ekki reynist unnt að gera aðgerðina þegar út er komið vegna þess að líffærið sem átti að nota reynist ónothæft. Ef það gerist þá fer sjúklingurinn aftur heim og biðin heldur áfram. Slíkt er þó afar sjaldgæft þegar um er að ræða nýraígræðslur.

Nýraþegar sem fá nýra frá látnum á Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg útskrifast 5-10 dögum eftir ígræðsluna.  Eftir útskrift af sjúkrahúsinu fer nýraþeginn yfirleitt beint heim til Íslands með almennu farþegaflugi. Hann kemur síðan á ígræðslugöngudeildina fyrsta virka dag eftir heimkomuna. Síðan tekur við eftirlit með sama sniði og í tilviki þeirra sem fá nýra frá lifandi gjafa. 

Nánari upplýsingar um aðstöðuna á Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg má fá hjá ígræðslugöngudeild Landspítala. Einnig er hægt að hafa samband við Ágúst Einarsson, fulltrúa Sjúkratrygginga Íslands í Gautaborg. Ágúst er einnig prestur Íslendinga í Svíþjóð (kirkjan@telia.com).  Hann aðstoðar sjúklinga og aðstandendur þeirra meðan á dvölinni stendur eftir þörfum í hverju tilviki. Túlkaþjónusta stendur öllum til boða.

  • Aðgerðin er í svæfingu og tekur yfirleitt um 2-3 klst
  • ATH. Nýrað er jafnan sett neðst í kviðarhol hægra eða vinstra megin utan lífhimnu og er tengt við mjaðmarblóðrás
  • Þvagleiðarinn er saumaður við þvagblöðruna
  • Hjá börnum er nýrað sett inn í kviðarholið

Eigin nýru sjúklingsins eru látin ósnert hafi þau ekki þegar verið fjarlægð af læknisfræðilegum ástæðum sem geta verið þrálátar sýkingar eða mikil fyrirferð (blöðrunýru).

Nýragjafar

Gjöfin mín

Heilsuhraust fólk á aldrinum 20–70 ára getur mögulega verið nýragjafi.  Hægt er að gefa annað nýra sitt ef heilsan leyfir án þess að það skerði lífsgæði eða lífslíkur. Það er ómetanleg gjöf sem bætir lífsgæði þess sem þiggur. 

Við lífslok getur einstaklingur sem ákveður að gefa líffæri sín bjargað lífi margra einstaklinga sem eru á biðlistum eftir líffæri.  Þannig geta jafnvel átta einstaklingar þegið líffæragjöf frá einum líffæragjafa en mikill skortur er á líffærum til ígræðslu um heim allann.

  • Nánari upplýsingar veita hjúkrunarfræðingar á ígræðslugöngudeild 10E Landspítalas með því að sendia tölvupóst á transplant@landspitali.is

Á vef Heilsuveru og vef Landlæknis er hægt að ská óskir sínar varðandi líffæragjafir við andlát

Hólmar Þór Stefánsson

„Ég hafði ekki hugmynd um hver nýragjafinn var fyrr en morguninn sem ég fór í aðgerðina og rakst á hann á ganginum fyrir utan skurðstofuna. Í dag erum við í ágætu sambandi enda eignast maður ekki nema einn svona vin á ævinni.“

 

Það liðu tæp sex ár frá því að Hólmar Þór Stefánsson greindist með nýrnabilun á lokastigi þar til hann fékk nýra sem hentaði honum. Þennan tíma var hann í blóðskilun, fyrst á blóðskilunardeild Landspítala en síðan fékk hann blóðskilunarvél heim. Hólmar fékk nýtt nýra í janúar 2013 og segir of snemmt að segja mikið um breytinguna.
„Lækninn minn var farið að lengja eftir að það kæmi fram nýra sem passaði mér og bað okkur um að kanna möguleikann á nýragjöf hjá nánustu ættingjum og vinum. Konan mín sendi póst á nokkra þeirra sem við umgengust hvað mest en lét hann einnig flakka á nokkra aðra sem voru á póstlistanum okkar. Þar á meðal var Gunnar Biering, gamall vinnufélagi sem ég hafði ekki verið í miklu sambandi við síðustu 18 árin. Mánuði síðar fékk ég að vita að kominn væri fram nýrnagjafi. Ég hafði ekki hugmynd um hver nýrnagjafinn var fyrr en morguninn sem ég fór í aðgerðina og rakst á Gunnar á ganginum fyrir utan skurðstofuna. Hann hafði í byrjun óskað eftir nafnleynd og þess vegna gerði ég mér ekki grein fyrir því hver velgjörðarmaður minn var. Í dag erum við í ágætu sambandi enda eignast maður ekki nema einn svona vin á ævinni.“

Jórunn Sörensen

„Ég hugsa stundum til þess hvað það er notalegt og sérstakt að ég skuli vera með nýra sem hann Þorsteinn, maðurinn minn fæddist með. Þessi gjöf breytti öllu fyrir líf mitt.“

 

„Gjafanýrað gjörbreytti lífi mínu. Eftir að hafa verið í blóðskilun í átta ár var stórkostlegt að geta aftur gert allt sem ég vildi,“ segir Jórunn Sörensen „og það fyrsta sem ég tók mér fyrir hendur var að starfa fyrir Félag nýrnasjúkra.” Jórunn var formaður félagsins í 5 ár en lét af því embætti á aðalfundi 2013.
Fyrir 15 árum fékk hún alvarlega blóðsýkingu með þeim afleiðingum að nýrun gáfu sig. Þorsteinn Magnússon, maður Jórunnar, bauðst strax til að gefa henni nýra en greindist með ristilskrabbamein og gekkst strax undir uppskurð. Sjö árum síðar sagðist hann vera álitinn heilbrigður og sagði að nú skyldi látið reyna á þetta. „Það skiptir öllu fyrir bæði líkamlega og andlega heilsu að hafa starfandi nýra í kroppnum. Nýra hreinsar blóðið allan sólarhringinn en blóðskilunarvélin aðeins 12 tíma á viku. Mér finnst mjög notalegt og sérstakt að hugsa til þess að ég skuli vera með annað nýrað sem hann Þorsteinn minn fæddist með og þótt ég sé að verða sjötug og nýrað sé fjórum árum eldra en ég þá erum við bæði við góða og stöðuga heilsu og ég fer eins sjaldan í eftirlit og ég kemst upp með.“
„ Efst í huga mínum er þakklæti til bræðra minna tveggja sem sýndu þetta mikla bræðraþel. Gjöfin er þess eðlis að hún verður aldrei fullþökkuð eða endurgoldin.“ 
 

Arthur Morthens

 


„Ég veiktist fyrir alvöru um miðjan níunda áratuginn en ég áttaði mig ekki á hvað var í gangi fyrr en nokkrum árum síðar, en þá var ég líka orðinn asskoti framlágur,“ segir Arthur Morthens þegar hann er spurður um aðdraganda þess að nýrun í honum gáfu sig.
Arthur, sem nú er komin á eftirlaun, hefur tvisvar gengið í gegnum nýrnaígræðslu. Fyrra nýrað fékk hann árið 1996, þá 48 ára gamall, frá Allan bróður sínum og það reyndist honum vel í 10 ár. „Ég var orðinn ansi veikur og lífið dálítið að fjara frá mér þegar ég fékk seinna gjafanýrað árið 2008 og í þetta skipti frá Tolla bróður. Auðvitað breytir það gríðarlega miklu að fá nýtt nýra. Það gefur manni í raun og veru nýtt líf.“
Þegar Arthur ber ígræðslurnar tvær saman segir hann að óneitanlega hafi verið meiri andleg og líkamlega átök í kringum þá fyrri, en í seinna skiptið hafi hann vitað nákvæmlega að hverju hann gekk. Hann segist finna fyrir því að vera stöðugt á lyfjum en það séu smámunir miðað við að vera aftur kominn til heilsu. Efst í huga Arthurs er þó þakklæti til bræðra hans tveggja sem sýndu honum þetta mikla bræðraþel.
„Gjöfin er þess eðlis að hún verður aldrei fullþökkuð eða endurgoldin,“ segir Arthur Morthens.

Algengar spurningar nýragjafa

Það er raunhæfur valkostur fyrir heilbrigðan einstakling að gefa annað nýrað sitt án þess að heilsan versni eða lífsgæði skerðist.

Nýragjöf er ómetanleg þeim sem þiggur. Ígrætt nýra bætir heilsu og eykur lífsgæði nýraþegans. Það hefur verið sýnt fram á að nýra frá lifandi gjafa starfar yfirleitt lengur heldur en nýra sem kemur frá látnum gjafa.

Hjúkrunarfræðingar á ígræðslugöngudeild Landspítala veita fekari upplýsingar um nýragjafir í síma 543-6324 á dagvinnutíma, einnig er hægt að senda tölvupóst á transplant@landspitali.is.

Allir heilbrigðir einstaklingar geta gefið nýra.

Einstaklingur sem vill gefa nýra er oftast náinn ættingi eða vinur.  Oft er ættingi æskilegur kostur þar sem líklegra er að gott samræmi sé milli vefjaflokka og því minni hætta á að líkami nýraþegans hafni nýranu.

Það er mikilvægt að þeir sem íhuga að gefa nýra fái greinargóðar upplýsingar um nýragjöf og hvað það hefur í för með sér.

Ákvörðun um að gefa nýra þarf að taka í góðri samvinnu við nánustu fjölskyldu þar sem hún snertir hana alla.

Nýragjafinn verður að vera orðinn 18 ára en þó þurfa að vera mjög sérstakar ástæður fyrir því að samþykkja svo unga nýragjafa. Ungar konur sem eru í barneignarhugleiðingum eru ekki ákjósanlegur kostur þar sem meðganga getur haft áhrif á nýrnastarfsemi. Miðað er við að nýragjafi sé ekki eldri en sjötugur en alltaf þarf að taka mið af heilsufari nýragjafans og starfshæfni nýrna hans.  Þá skiptir aldur nýraþegans einnig máli.

Skyldleiki er ekki forsenda þess að geta gefið nýra. Nýragjafi getur verið maki, vinur eða kunningi. Einnig eru dæmi um að alls ótengdir einstaklingar gefi nýra. Á Íslandi hafa yfirleitt ekki verið samþykktir nafnlausir lifandi gjafar eða gjafar sem ekkert þekkja til þegans.

Nýragjafinn þarf einnig:

  • að hafa tekið upplýsta ákvörðun um að vilja gefa nýra
  • að gefa nýrað af fúsum og frjálsum vilja
  • að vera andlega og líkamlega heilbrigður og hafa góðar félagslegar aðstæður.
  • að hafa góðan stuðning frá ættingjum eða vinum (nærumhverfi).

Tekin eru blóðsýni (blóðflokkun, vefjaflokkun, ýmsar rannsóknir) sem skera úr um hæfi þess sem er að velta fyrir sér að gefa nýra. Komi allar blóðprufur vel út er líkamsástand og nýrnastarfsemi rannsökuð nánar.

Að gefa líffæri er stór ákvörðun og mikilvægt að gjafinn sé sáttur við ákvörðunina og að hann fái þær upplýsingar sem hann þarf til að taka upplýsta ákvörðun. Miklu skiptir að hann taki ákvörðun án þvingunar frá þegar eða öðrum.

Fyrir aðgerðina er nauðsynlegt að fá sem bestar upplýsingar um undirbúning, sjálfa aðgerðina og líðan eftir hana.  Væntanlegur líffæragjafi þarf að huga vel að andlegri og líkamlegri heilsu sinni og t.d. getur háþrýstingur, ofþyngd og sykursýki komið í veg fyrir nýragjöf.  Samskipti innan fjölskyldu skiptir máli, allir í fjölskyldunni þurfa að fá góðar upplýsingar.

Sá möguleiki er fyrir hendi að nýraþegi hafni því af einhverjum ástæðum að þiggja nýra frá lifandi gjafa en vilji fara á biðlista eftir nýra frá látnum gjafa, jafnvel þó að gjafinn vilji eindregið gefa nýra.  Virða þarf slíka ákvörðun. Á sama hátt getur nýragjafinn skipt um skoðun og hætt við hvenær sem er í rannsóknarferlinu. 

Öll samskipti milli skjólstæðings (gjafa/þega) og starfsmanna spítalans svo og allar niðurstöður læknisrannsókna eru trúnaðarmál.

 

1. Hvert er almennt viðhorf þitt til líffæraígræðslu eða líffæragjafar?

2. Hefurðu hugleitt ávinning vegna nýragjafarinnar og áhættu sem fylgir skurðaðgerðinni?

3. Hvaða áhrif hefði aðgerðin á fjárhag þinn? Skerðast laun á meðan á ferlinu stendur? Hver er staða á vinnumarkaði og veikindaréttur?

5. Hvernig er með líkamlega virkni?

6. Hvernig er samband þitt við nýraþegann? Erfið samskipti fyrir aðgerð gætu valdið óraunhæfum væntingum um að samskiptin batni eftir nýrnagjöfina. Einnig þarf að velta fyrir sér líðan sinni ef líkami nýraþegans hafnar gjafanýranu, ef hann sýnir ekki þakklæti eða ef samskipti við nýraþegann verða erfið og þvinguð eftir aðgerðina.

7. Hefurðu hugleitt hvernig þú bregst við verkjum eftir aðgerðina eða hvort þú treystir þér til að takast á við aukaverkanir sem e.t.v. gætu seinkað bata?
Hefurðu hugsað út í það að þú gætir fundið fyrir þunglyndi og kvíða í tengslum við aðgerðina?

8. Getur búseta þín haft áhrif á ferlið?

9. Hvaða skuldbindingar hefur þú t.d. varðandi fjölskyldu (ung börn), vinnu eða félagsstörf?

10. Nauðsynlegt er að hætta reykingum fyrir aðgerð.

11. Líkamsþyngd getur haft áhrif á hvort þú getur gefið nýra.

12. Ertu að skipta um starf á sama tíma og aðgerðin er fyrirhuguð?

13. Nauðsynlegt er að hafa góðan stuðning frá fjölskyldu og/eða vinum meðan á ferlinu stendur vegna andlegra, tilfinningalegra, félagslegra og afkomutengdra þátta.

Til að meta hvort einstaklingur getur gefið nýra þurfa að fara fram ýmsar rannsóknir. Byrjað er á að athuga blóð- og vefjaflokka nýragjafa og nýraþega til að athuga hvort líffæri þessara einstaklinga séu samrýmanleg.

Blóðflokkagreining:

  • Þeir sem eru í blóðflokki A geta gefið þeim sem eru í blóðflokki A og AB
  • Þeir sem eru í blóðflokki B geta gefið þeim sem eru í blóðflokki B og AB
  • Þeir sem eru í blóðflokki AB geta gefið þeim sem eru í blóðflokki AB
  • Þeir sem eru í blóðflokki O geta gefið þeim sem eru í blóðflokki A, B, AB og O

Vefjaflokkunargreining er notuð til að greina sérstaka HLA-mótefnavaka líffæragjafans og greina hversu gott samræmi er milli líffæragjafa og líffæraþega.
Einnig eru gerðar nákvæmar blóðrannsóknir með áherslu á nýrnastarfsemi, blóðsölt, storkuhæfni blóðsins, lifrarstarfsemi og blóðsykur. Þá er einnig skimað fyrir lifrarbólgu B og C, HIV-veiru og öðrum veirusjúkdómum.

Væntanlegur nýragjafi þarf einnig að gangast undir eftirfarandi rannsóknir:

  • Læknisskoðun þar sem farið er yfir öll líffærakerfi líkamans, fyrri sjúkdóma, aðgerðir og fjölskyldusögu. Ef eitthvað kemur fram sem ekki telst eðlilegt þá getur þurft að rannsaka það nánar
  • Þvagrannsókn til að skima fyrir nýrnasjúkdómum eða þvagvegakvillum
  • Hjartalínurit er tekið til að meta hjartastarfsemi
  • Röntgenmynd af brjóstholi er tekin til að meta ástand hjarta og lungna
  • Tölvusneiðmyndun nýrnaæða, nýrna og þvagvega er til þess að meta slagæðar til nýrna og til að útiloka meinsemdir í nýrum og þvagvegum
  • Konur þurfa að fara í leghálsskimun og brjóstamyndatöku
  • Aðrar rannsóknir eftir þörfum hvers og eins t.d. hjartaómskoðun og öndunarpróf
  • Viðtal við félagsráðgjafa
  • Viðtal við sálfræðing eða geðlækni eftir þörfum hvers og eins

Ígræðslur nýrna frá lifandi nýragjöfum hafa verið á Landspítala frá árinu 2003.

Þegar niðurstöður rannsókna liggja fyrir meta sérfræðingar ígræðsluteymis hvort aðgerðin geti farið fram og þá hvers konar aðgerð. Ef ekkert mælir á móti aðgerð er aðgerðardagur ákveðinn.

Skurðaðgerð til að fjarlægja nýra er möguleg á tvennan hátt, annað hvort með hefðbundnum skurði undir rifjabarði eða með kviðsjáraðgerð. Í sumum tilvikum getur þurft að breyta kviðsjáraðgerð í opna skurðaðgerð ef aðstæður krefjast þess. Aðgerðin tekur 3-5 klukkustundir.

Að aðgerð lokinni fer nýragjafinn á vöknun þar sem hann er undir nákvæmu eftirliti þar til óhætt er að hann fari á legudeild.

Nýra frá lifandi gjafa byrjar yfirleitt að starfa strax en ef um að ræða nýra frá látnum einstaklingi getur þurft blóðskilun fyrstu dagana eftir ígræðsluna þar til ígrædda nýrað tekur að starfa.

Frekari upplýsingar um skurðaðgerðina veitir skurðlæknir fyrir aðgerðina.


Yfirleitt er sjúkrahúslegan tveir til fjórir dagar.

Eftir útskrift af sjúkrahúsinu getur gjafinn fundið fyrir verk eða eymslum á skurðsvæðinu því skurðsárið er að gróa.

Almennt er ekki mælt með því að fólk lyfti þungum hlutum í um það bil sex vikur eftir aðgerð. Mikilvægt er að nýragjafi ræði við lækni sinn eða hjúkrunarfræðing á ígræðslugöngudeildinni um líkamsþjálfun eftir aðgerðina.

Gera má ráð fyrir því að vera 6 vikur frá vinnu eftir aðgerðina en það er einstaklingsbundið og fer eftir því hvaða starf nýragjafinn stundar.

Eðlilegt er að nýragjafi og fjölskylda hans hafi áhyggjur af hugsanlegum eftirköstum í kjölfar aðgerðarinnar. Mögulegir líffæragjafar ættu að ræða opinskátt um þessar áhyggjur við lækni og/eða hjúkrunarfræðing á ígræðslugöngudeild. Öll samskipti milli gjafa og starfsmanna spítalans svo og allar niðurstöður læknisrannsókna eru trúnaðarmál.

Skurðaðgerðin felur í sér jafn mikla áhættu fyrir líffæragjafann og allar aðrar skurðaðgerðir. Flestir fylgikvillar eru oftast minni háttar en geta lengt sjúkrahúsdvölina.

Áhættuþættir skurðaðgerðar
sem nýragjafi ætti að ræða við ígræðsluteymið:

  • Verkir.  Nýragjafi mun þurfa á verkjalyfjum að halda eftir aðgerðina
  • Sýking.  Komi sýking í skurðsárið verða gefin sýklalyf til meðferðar við henni.  Sýking getur seinkað því að sár grói og valdið örum eða öðrum vandamálum
  • Lungnabólga.  Skurðaðgerð eykur hættu á lungnabólgu.  Sjúkraþjálfari aðstoðar við öndun og öndunaræfingar eftir aðgerð
  • Skemmd á nýranu.  Mögulegt er að nýrað verði fyrir skemmdum meðan á aðgerðinni stendur.  Allt er gert til að lágmarka þá áhættu.  Skurðlæknirinn gæti breytt áætlaðri kviðsjáraðgerð yfir í opna skurðaðgerð til að komast að nýranu á öruggan hátt
  • Blóðsegamyndun. Strax eftir aðgerðina aðstoðar hjúkrunarfólk nýragjafann við að fara fram úr rúminu og hreyfa sig.  Hreyfing örvar blóðrásina og hjálpar til við að koma í veg fyrir blóðsegamyndun.  Flestir sem fara í aðgerðir á Landspítala fá blóðþynningarlyf til að minnka líkur á blóðsegamyndum í kjölfar aðgerðar
  • Samfall á lunga.  Nýrað liggur nálægt lunga og það getur komið fyrir að gat komi inní í fleiðruholið (holið sem umlykur lungað) í aðgerðinni. Ef það gerist gæti lungað fallið saman.  Læknarnir myndu þá setja slöngu inn í brjóstkassann, tímabundið, til að lungað þenjist út að nýju
  • Ofnæmisviðbrögð við svæfingu.  Í undirbúningi fyrir aðgerð mun ígræðsluteymið leitast við að greina hugsanlegt ofnæmi.  Ef vart verður ofnæmisviðbragða við svæfingu er samstundis brugðist við því og viðeigandi meðferð veitt
  • Dauðsfall.  Líkurnar á að nýragjafi látist eru um það bil 0,06% (Líkur á einu dauðsfalli í hverjum 1.700 skurðaðgerðum)

Sjúklingatrygging veitir gjöfum rétt til skaðabóta vegna líkamlegs/geðræns tjóns sem verður í tengslum við rannsókn eða aðgerð.
Almennur réttur til bóta skv. lögum um sjúklingatryggingu byggir á því að tjón megi að öllum líkindum rekja til einhverra eftirtalinna atvika:

1. Rannsókn/meðferð ekki hagað eins vel og unnt var eða í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2. Bilun/galli í tæki, áhöldum eða búnaði sem notaður er við rannsókn eða aðgerð.

3. Ef mat að lokinni rannsókn eða aðgerð sýnir að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri aðferð eða tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn.

4. Fylgikvilla rannsóknar eða aðgerðar sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Skilyrði er að tilvik sé sjaldgæft og alvarlegt.

Réttur líffæragjafa til bóta skv. lögum um sjúklingatryggingu er rýmri en almennur réttur.  Bætur skal greiða vegna tjóns sem getur verið afleiðing þess að líffærið er fjarlægt nema allt bendi til þess að tjónið verði rakið til annars.  Í þessum tilvikum gildir hámark bóta úr sjúklingatryggingu ekki.  Tjón þarf heldur ekki að ná lágmarki svo bætur greiðist.

Nýragjöf hefur ekki áhrif á lífslíkur. Að því tilskildu að gjafinn sé metinn vandlega fyrir aðgerð og talinn hæfur til að gefa nýra mun hann lifa eðlilegu lífi eftir aðgerðina.  Þegar nýrað er fjarlægt stækkar nýrað sem eftir er og bætir smám saman fyrir starfsemi þess sem gefið var.

Aðgerðin skilur eftir sig ör þegar nýrað er numið brott.  Dæmi eru um fylgikvilla svo sem langvarandi verki, taugaskaða og kviðslit.  Auk þess geta þeir sem hafa aðeins eitt nýra verið í aukinni hættu á að fá hækkaðan blóðþrýsting og aukinn próteinútskilnað í þvagi.  Tíðni háþrýstings og nýrnabilunar er þó ekki aukin hjá þeim sem gefið hafa nýra samanborið við aðra.

Nýragjafar ættu að mæta í reglubundið eftirlit á ígræðslugöngudeild eða hjá heimilislækni þar sem fylgst er með blóðþrýstingi og nýrnastarfsemi (blóð- og þvagrannsóknir).  Eðlilegt er að fylgjast með þessum þáttum árlega og oftar ef ástæða þykir til.

Nánari upplýsingar fást hjá nýrnalækninum sem annast viðkomandi sjúkling eða hjá hjúkrunarfræðingum ígræðslugöngudeildar.

Rannsóknir hafa sýnt að 80-97% nýragjafa sjái alls ekki eftir að hafa gefið nýra og jafnframt að þeir væru tilbúnir til þess að ganga í gegnum ferlið aftur ættu þeir þess kost.  Eftir nýragjöf greina gjafar samt sem áður stundum frá tilfinningasveiflum, allt frá gleði og létti yfir í kvíða og þunglyndi.

Í álaginu sem fylgir ákvörðun um nýragjöf, brottnámsaðgerðinni sjálfri og bataferlinu í kjölfarið vilja tilfinningarnar gleymast.  Nýragjafi getur fundið fyrir gleði en einnig þunglyndi, jafnvel þótt bæði nýragjafi og nýraþegi séu við góða andlega heilsu.

Líffæragjafar sem finna fyrir áhyggjum, kvíða eða annarri vanlíðan eru hvattir til að hafa samband við ígræðslugöngudeild Landspítala - transplant@landspitali.is

Meðganga eftir nýragjöf er möguleg en er yfirleitt ekki ráðlögð fyrr en að minnsta kosti sex mánuðum eftir aðgerðina.

Nýragjafar ættu að ræða fyrirhugaða þungun við lækni og gæta þess að vera í góðu eftirliti á meðgöngunni.

Ef nýragjafinn er of þungur getur hann þurft að létta sig fyrir aðgerðina. Miklu skiptir að halda kjörþyngd eftir aðgerðina, að hafa eitt nýra og vera í ofþyngd eykur áhættu á ýmsum sjúkdómum svo sem sykursýki og hækkuðum blóðþrýsting. Ef hann neytir mikils magns af próteinum eða salti getur hann þurft að draga úr því bæði fyrir og eftir aðgerð. 

Þetta eru þó fremur almenn heilsufarsleg atriði sem ekki tengjast nýragjöf sérstaklega.

Rétt er að kanna hvort starfsfólk ígræðsluteymisins mæli með breytingum á mataræði.

Þetta er atriði sem hugsanlegir nýragjafar ættu að ræða við starfsfólk ígræðslugöngudeildar.

Ræða þarf um það hvort undirliggjandi sjúkdómar eða aðrir þættir geti aukið líkurnar á nýrnasjúkdómi hjá gjafa og íhuga þarf málið vandlega áður en tekin er ákvörðun um nýragjöf.

Ráðlegt er að ræða við vinnuveitanda ef verið er að íhuga að gefa nýra til að kanna rétt sinn hjá fyrirtækinu. Flestir vinnuveitendur veita veikindaleyfi og hægt er að sækja um bætur til Tryggingastofnunar ríkisins vegna launataps í tengslum við aðgerðina.

Hægt er að sækja um ferðastyrk ef gjafi býr fjarri LandspítaFélagsráðgjafi veitir frekari upplýsingar. Senda beiðni um viðtal á transplant@landspitali.is

Ef einstaklingur er sjúkratryggður á Íslandi eru rannsóknir, læknisheimsóknir og viðtöl á sjúkrahúsinu vegna mats og undirbúnings fyrir líffæragjöf viðkomandi einstaklingi að kostnaðarlausu. Nýragjafi greiðir ekki fyrir aðgerðina eða sjúkrahúsdvölina. Ekki þarf heldur að greiða fyrir eftirlit og meðferð sem tengist ígræðslunnieftir aðgerð.

Verði einstaklingur fyrir tekjutapi vegna nýragjafar er hægt að sækja um tímabundna fjárhagsaðstoð frá Tryggingastofnun ríkisins meðan hann er frá vinnu í kjölfar aðgerðarinnar. Nýragjafar í námi geta einnig sótt um tímabundna fjárhagsaðstoð.

Ferðakostnaður:

Sjúkratryggingar Íslands endurgreiða hluta kostnaðar vegna ferða sem tengjast nýragjöfinni samkvæmt ákveðnum reglum stofnunarinnar.

Gistikostnaður:

Nýragjafar geta gist á Sjúkrahóteli Landspítala. Þeir greiða ákveðið gjald á sólarhring fyrir dvölina þar.

Félagsráðgjafi á Landspítala ,veitir nánari upplýsingar og aðstoðar við að sækja um ofangreind atriði. Senda beiðni um viðtal á tölvupóstfang transplant@landspitali.is
Ef nýragjafi er áfram við góða heilsu eftir líffæragjöf ættu ekki að vera nein vandkvæði á að fá sjúkdóma- og/eða líftryggingu en kanna þarf hvert mál fyrir sig.

Sjúkdóma- og/eða líftryggingar sem nýragjafi hefur tekið fyrir aðgerðina breytast ekki við hana. Sjúkdómatryggingar ná oftast yfir ákveðna sjúkdóma og aðgerðir og best er að kanna gildissvið þeirra, hvað þær fela í sér og skilmála í hverju tilviki.

Félagsráðgjafi á Landspítala ,veitir nánari upplýsingar. Senda beiðni um viðtal á tölvupóstfang transplant@landspitali.is 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?