Leit
Loka

Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis

Banner mynd fyrir  Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis

Hafðu samband

OPIÐAllan sólarhringinn alla daga

Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis - mynd

Hér erum við

Bráðamóttaka Fossvogi

Hagnýtar upplýsingar

Best er að hringja fyrst og biðja um þjónustu hjá neyðarmóttöku.

  • Þjónustan stendur öllum 13 ára og eldri til boða án tilvísunar. 
  • Barnavernd er upplýst um komu allra 18 ára og yngri.
  • Börnum 12 ára og yngri er veitt þjónusta með tilvísun frá barnavernd og/eða lögreglu.
  • Mikilvægt að koma sem fyrst eftir brot.
  • Hægt er að koma beint á bráðamóttökuna í Fossvogi og biðja þar um þjónustu á neyðarmóttöku.
  • Til að fá upplýsingar og biðja um aðstoð lögreglu til að koma á neyðarmóttöku. Hringið í 112.

Hægt er að hringja í síma:

  • 543 1000 - Aðalskiptiborð Landspítala
  • 543 2000 - Afgreiðsla bráðamóttöku Landspítala
  • 543 2094 - Neyðarmóttakan á dagvinnutíma

Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis hefur verið starfrækt á Landspítala Fossvogi síðan árið 1993.

Markmið neyðarmóttöku er að tryggja velferð og stöðu þeirra sem til þjónustunnar leita vegna nauðgunar, tilraunar til nauðgunar eða annars kynferðisofbeldis.

Tilgangur með þjónustu neyðarmóttöku er að draga úr eða andlegar og líkamlegar afleiðingar kynferðisofbeldis.

Þeim sem leita til neyðarmóttökunnar skal sýnd fyllsta tillitssemi og hlýja og þess gætt að þeim sé ekki mætt með vantrú eða tortryggni.

Mikilvægt er að virða í öllu og styrkja sjálfsákvörðunarrétt og óskir brotaþola. 

Þjónusta neyðarmóttökunnar

  • Metið er hverju sinni í hverju þjónustan felst, samvinnu og samráði milli starfsfólks neyðarmóttökunnar og þolandans
  • Þeir sem hafa verið beittir kynferðisofbeldi geta leitað sér aðstoðar hvort heldur er til ráðgjafar og stuðnings og/eða komið til þess að fá læknisskoðun og meðferð
  • Starfsfólk veitir brotaþola og fylgdaraðila andlegan stuðning og ráðgjöf við komu
  • Þjónustan er brotaþola alveg að kostnaðarlausu
  • Þjónustan er veitt allan sólarhringinn og móttakan nýtur forgangs 
  • Læknisskoðun og meðferð, þar með talin kvenskoðun
  • Réttarlæknisfræðileg skoðun, taka og varðveisla sakargagna
  • Þjónustan er ekki háð ákvörðun um kæru
  • Boðin er lögfræðileg ráðgjöf og aðstoð við að leggja fram kæru vegna málsins
  • Það er á valdi brotaþola/eða foreldra ungra þolenda að ákveða að leggja fram kæru í málinu eða ekki
  • Brotaþolum 18 ára og eldri er vísað í sálfræðiaðstoð þar sem veitt er aðstoð við úrvinnslu áfalls, fræðsla og ráðgjöf um algengar afleiðingar áfalla. Metin er þörf fyrir frekari sérhæfða meðferð vegna afleiðinga kynferðisofbeldisins og unnið er að styrkingu bjargráða og stuðningskerfa
  • Börn yngri en 18 ára fá sálfræðiþjónustu í gegnum barnavernd.
  • Sakargögn eru geymd í eitt ár
  • Skýrslur NM eru aldrei afhentar lögreglu nema gegn skriflegri samþykkisyfirlýsingu brotaþola, forráðamanns barns yngra en 18 ára eða barnaverndar.
  • Samkvæmt lagalegri skyldu er neyðarmóttöku skylt að tilkynna mál til barnaverndaryfirvalda ef ungmenni er innan 18 ára aldurs
  • Fyrirspurnir um þjónustu og starfsemi má senda á neydarmottaka@landspitali.is . Þangað er einnig hægt að senda fyrirspurn um afgreiðslu einstakra mála, niðurstöður rannsókna eða tengd mál

Þeir sem starfa við neyðarmóttökuna

  • Hópur sérhæfðra hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku LSH
  • Sjö læknar, sex kvennsjúkdómalæknar og einn heimilislæknir vinna við meðferð kvensjúkdóma.
  • Sálfræðingar áfallateymis Landspítala sinna eftirfylgd mála eftir þörfum
  • Lögmenn sinna réttargæslu

Mikilvægt er að:

  • koma eins fljótt og hægt er eftir meint kynferðisbrot
  • þvo sér ekki eða fara í bað áður en skoðun og sýnataka fer fram
  • þvo hvorki né fleygja fötum, tíðavörum tengdum atburði og ekki fleygja verjum
  • vera í fötum sem tengjast broti eða hafa meðferðis á neyðarmóttöku
  • ekki hreinsa eða farga sakargögnum á sakarvettvangi (t.d. rúmfatnaði, húsgögnum, húsbúnaði, tækjum og tólum)

Skoðun og meðferð læknis og/eða hjúkrunarfræðings þar með talin kvenskoðun

  • Er fyrst og fremst til að tryggja velferð brotaþola
  • Tekin eru sýni til að útiloka hugsanlegar sýkingar og þungun
  • Áverkar sem brotaþoli hefur fengið eru metnir og meðhöndlaðir eftir alvarleika þeirra

Réttarlæknisfræðileg skoðun og taka og varðveisla sakargagna

  • Gerð er nákvæm skýrsla af lækni og hjúkrunarfræðingi þar sem frásögn brotaþola af atburði er skráð, andleg líðan er metin og ástand þolanda við komu er skráð
  • Nákvæm líkamsskoðun er gerð, fer eftir eðli málsins. Ef áverkar eru til staðar eru þeir skoðaðir og skráðir.
  • Tekin eru stroksýni til DNA-rannsókna eftir eðli málsins.
  • Fatnaður og önnur sakargögn eru tekin og geymd.
  • Teknar eru ljósmyndir af sýnilegum áverkum. Ljósmyndir tilheyra þeim sakargögnum sem afhent eru lögreglu.

 Þjónusta sálfræðings

  • Veitt er áfallahjálp og sálrænn stuðningur fyrir brotaþola
  • Sálfræðingur / ráðgjafi veitir brotaþola andlegan stuðning, ráðgjöf og hjálp við tilfinningalega úrvinnslu. Þjónustan er að kostnaðarlausu.

Í kjölfar mats sálfræðings á andlegri líðan brotaþola er boðið upp á áframhaldandi úrvinnslu og meðferð eftir þörfum, aðstoð við sálfélagslega þætti í samvinnu við brotaþola og unnið er að styrkingu bjargráða og stuðningskerfa.

Þjónusta lögmanns

  • Allir brotaþolar eiga rétt á viðtali við lögmann, hvort sem kært er í málinu eða ekki og er það að kostnaðarlausu
  • Lögmaður er brotaþola til halds og trausts og veitir lögfræðilega ráðgjöf um skýrslutökuna, meðferð sakargagna, meðferð málsins í réttarkerfinu og dómsuppkvaðningu
  • Lögmaður er viðstaddur skýrslutöku hjá rannsóknarlögreglu ef brotaþoli hefur ákveðið að kæra málið
  • Einnig undirbýr lögmaður kröfu um miskabætur fyrir brotaþola og fylgist með framvindu málsins í réttarkerfinu

           Hlutverk réttargæslumanna

Endurkomutímar á neyðarmóttökuna

  • Eftir þörfum eru boðnir endurkomutímar
  • Hjúkrunarfræðingur hittir brotaþola í enndurkomutíma.
  • Eftirfylgd er t.d. vegna frekari sýnatöku, þungunar og áverkaskoðunar til að meta líkamlega áverka og fylgja eftir meðferð þeirra. Fer það eftir alvarleika þeirra
  • Stundum er þörf fyrir frekari greiningu og myndatökur af áverkum
  • Skráð er og útfyllt endurkomuskýrsla um brotaþola
  • Blóðsýnatökur vegna mögulegra smitsjúkdóma (lifrarbólgu B+C og HIV) þarf að endurtaka aftur eftir 3 mánuði og 6 mánuði til að fá áreiðanleg svör. Brotaþoli ber ábyrgð á því að sinna þeirri eftirfylgd sjálfur eða forráðamenn barna
  • Blóðsýnatökur eru gerðar á húð- og kynsjúkdómadeild og á heilsugæslustöðvum að kostnaðarlausu og án þess að tiltaka þurfi ástæðu fyrir beiðni þar.

Rannsóknardeildir lögreglunnar

Skýrslutaka hjá rannsóknardeildum lögreglunnar er stundum þannig að frumskýrsla er tekin á neyðarmóttökunni en lokaskýrsla síðar hjá rannsóknarlögreglu og er lögmaður / réttargæslumaður viðstaddur í bæði skiptin.

  • Skýrslutaka þolenda eldri en 15 ára fer fram í sérútbúinni aðstöðu hjá lögreglu.
  • Skýrslutaka barna yngri en 15 ára fer fram í Barnahúsi.

Sérfræðingar

Tengd starfsemi og þjónusta

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?