Líknarmiðstöð Landspítala
Líknarmiðstöð Landspítala er þekkingareining sem veitir ráðgjöf til þjónustuveitenda um allt land, stuðning, fræðslu og þjálfun.
Staðsetning
Líknarmiðstöð Landspítala hefur aðsetur í kjallara í húsnæði líknardeildar Landspítala að Kópavogsgerði 6d.
Hagnýtar upplýsingar
Líknarmiðstöð Landspítala var sett á laggirnar vorið 2021 í kjölfar þess að heilbrigðisráðuneytið gaf út fimm ára aðgerðaáætlun um líknarþjónustu 2021-2025. Í aðgerðaráætluninni kemur meðal annars fram að vinna þurfi að auknu aðgengi fagfólks að sérfræðiþekkingu um líknarmeðferð, tryggja að líknarmeðferð sé í boði fyrir alla sem á þurfa að halda og efla þurfi þekkingu fagfólks á líknarmeðferð. Þar kemur einnig fram að líknarmiðstöð eigi að vera starfrækt á báðum sérgreinasjúkrahúsum landsins.
Hlutverk líknarmiðstöðvar Landspítala er að:
- Veita stuðning og ráðgjöf til fagstétta innan og utan spítalans.
- Miðla þekkingu til fagstétta.
- Vinna að þróun almennrar líknarmeðferðar í samstarfi við heilsugæslu, heimahjúkrun og hjúkrunarheimili.
- Vera stuðningur fyrir aðra sérhæfða líknarþjónustu í landinu.
- Tryggja gæði þjónustu með klínískum leiðbeiningum, stöðluðu verklagi og árangursmælingum.
Stefnumótun
Á síðustu árum hefur heilbrigðisráðuneytið látið vinna nokkrar skýrslur um líknarmeðferð á Íslandi og gefið út aðgerðaráætlun fyrir árin 2021-2025.
- Samþætting líknar - og lífslokameðferðar: Norðlenska líkanið
- Framtíðarskipan líknarþjónustu á Íslandi - með sérstakri áherslu á höfuðborgarsvæðið, Suðurnes, Vesturland og Suðurland
- Líknarþjónusta. Fimm ára aðgerðaráætlun 2021-2025
- Tillaga að íslenskri krabbameinsáætlun sem búið er að framlengja til 2030
Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er líknarmeðferð einstaklingsmiðuð nálgun sem veitt er í þeim tilgangi að bæta lífsgæði sjúklinga með lífsógnandi sjúkdóma og fjölskyldna þeirra.
Í líknarmeðferð er lögð er áhersla á að veita árangursríka meðferð verkja og annarra einkenna og veita stuðning sem er í samræmi við þarfir, gildi og menningu sjúklings og fjölskyldu hans.
Markmið líknarmeðferðar er að sjá fyrir, fyrirbyggja og draga úr vanlíðan af ýmsum toga og styðja þannig við bestu mögulegu lífsgæði sjúklinga og fjölskyldu, óháð sjúkdómsgreiningu, sjúkdómsstigi eða annarri meðferð. Þannig er hægt að veita líknarmeðferð samhliða læknandi eða lífslengjandi meðferð. Vægi líknarmeðferðar eykst síðan með versnandi sjúkdómi og er mest þegar sjúklingur er deyjandi.
Líknarmeðferð er veitt einstaklingum með ýmsa lífsógnandi sjúkdóma s.s. krabbamein, hjarta-, lungna-, tauga- og nýrnasjúkdóma.
Gerður er greinarmunur á almennri og sérhæfðri líknarmeðferð. Allt heilbrigðisstarfsfólk á að hafa grunnþekkingu í líknarmeðferð og heildrænni nálgun í meðferð sjúklinga. Starfsfólk á að geta aðstoðað og stutt sjúklinga og fjölskyldur við að lifa með lífsógnandi og/eða versnandi sjúkdóma og veitt meðferð sem stuðlar að sem bestum lífsgæðum, óháð sjúkdómsgreiningu, sjúkdómsstigi eða meðferð.
Í sérhæfðri líknarþjónustu er megináherslan á að sinna sjúklingum með versnandi sjúkdóma, erfið, fjölþætt og flókin einkenni af ýmsum toga. Starfsfólk sem vinnur í sérhæfðri líknarþjónustu vinnur nær eingöngu með þessum hópi skjólstæðinga og hefur aflað sér aukinnar menntunnar, reynslu og þekkingar á sviði líknarmeðferðar.
Heimild: Landspítali (2017). Klínískar leiðbeiningar um líknarmeðferð. 2. útgáfa. Sótt (12. 03. 2022)
WHO (2020). Palliative care. https://www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/palliative-care (23. 10. 2022)
Þær starfseiningar sem tilheyra sérhæfðri líknarþjónustu Landspítala eru: Líknarráðgjafateymi, HERA líknarheimaþjónusta og líknardeild í Kópavogi. Nánari upplýsingar um starfsemi þeirra má sjá hér:
Ýmiskonar kynningar- og fræðsluefni um líknarmeðferð og tengd málefni er aðgengilegt á íslensku á veraldarvefnum:
- Klínískar leiðbeiningar um líknarmeðferð
Leiðbeiningunum er ætlað að aðstoða heilbrigðisstarfsfólk við að greina og annast fullorðna einstaklinga með lífsógnandi sjúkdóma sem geta haft gagn af líknarmeðferð. Leiðbeiningarnar eiga við fullorðna sjúklinga sem fá læknandi eða lífslengjandi meðferð og sjúklinga sem best er þjónað með góðri lífslokameðferð. Þær geta því átt við frá greiningu lífsógnandi og/eða langvinnra sjúkdóma
. https://www.landspitali.is/library/Sameiginlegar-skrar/Gagnasafn/BRUNNURINN/Kliniskar-leidbeiningar/Liknarmedferd/Liknarmedferd.pdf
- Meðferð algengra einkenna og bráðra vandamála hjá sjúklingum í líknar- og lífslokameðferð. Markmið leiðbeininganna er að veita á aðgengilegan hátt hagnýtar upplýsingar, sem byggðar eru á gagnreyndri þekkingu og/eða reynslu, til notkunar í klínískri vinnu https://www.landspitali.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=23471
Við lífslok
Síðustu dagar lífs - innleiðing og notkun meðferðaráætlunar fyrir deyjandi sjúklinga.
Líknardeildin í Kópavogi hefur frá árinu 2008 notað leiðbeiningar sem í dag er kallað meðferðaráætlun fyrir deyjandi sjúklinga, skammstafað MÁD.
MÁD var þróað af alþjóðlegum samtökum, International Collaborative for Best Care of the Dying Person, og er kallað 10/40 líkanið. MÁD er byggt upp af 10 lykilatriðum í umönnun og meðferð deyjandi en einnig horft til 40 gæðavísa/þátta sem styðja við gæði og öryggi í umönnun og meðferð deyjandi einstaklinga.
- Greina að sjúklingur sé deyjandi.
- Samtal við sjúkling (ef mögulegt er) og alltaf við fjölskyldu og ástvini.
- Sinna andlegum og trúarlegum þörfum.
- Skrá fyrirmæli um lyf sem gefa má eftir þörfum (PN) við verkjum, hryglu, óróleika, ógleði og uppköstum og andþyngslum.
- Taka mið af hagsmunum sjúklings við endurskoðun á meðferð og umönnun.
- Endurskoða þörf fyrir vökvagjöf, þ.m.t. þörf fyrir að hefja vökvagjöf eða hætta henni.
- Endurskoða þörf fyrir næringu, þ.m.t. að hefja næringargjöf eða hætta henni.
- Samtal um alla þætti meðferðaráætlunar við sjúkling og aðstandanda/umönnunaraðila.
- Reglubundið endurmat á ástandi sjúklings.
- Sýna virðingu og tillitssemi við umönnun eftir andlát.
Meðferðaráætlun fyrir deyjandi hefur verið innleidd á nokkrum deildum Landspítala sem og nokkrum hjúkrunarheimilum. Senda má póst á netfang líknarmiðstöðvar á liknarmidstod@landspitali.is til frekari upplýsingar um meðferðaráætlunina og innleiðingu þess.
Fræðslumyndbönd: Sjá neðar á síðunni
Hafðu samband
Netfang: liknarmidstod@landspitali.is