Leit
Loka

Námstími: 2 ár

Kennslustjóri: Ólöf Jóna Elíasdóttir

Kennsluráð:

Ólöf Jóna Elíasdóttir kennslustjóri
Ólafur Árni Sveinsson prófessor í taugalækningum
Anna Bryndís Einarsdóttir yfirlæknir
Ágúst Hilmarsson taugalæknir
Sigríður Óladóttir umsjónadeildarlæknir

Sérnámssamningur

Marklýsing

Kynningarmyndband um sérnám í taugalækningum 

Taugalæknisfræði er sú sérgrein læknisfræðinnar sem fjallar um taugasjúkdóma fullorðinna. Nám til sérfræðiréttinda í taugalækningum tekur að minnsta kosti 60 mánuði að loknu kandídatsári með tilvísan í nafn reglugerðar nr. 856/2023.

Á taugalækningadeild meðferðarsviðs Landspítala-háskólasjúkrahúss, Reykjavík, býðst 12-36 mánaða upphafssérnám, en sérnámslæknir þarf að ljúka námi erlendis til sérfræðiréttinda í taugalækningum. Byggist uppbygging námsins á marklýsingu evrópsku sérfræðisamtakanna fyrir taugalækningar

 Umsjón með sérnámi er í höndum kennslustjóra og kennslunefndar, en í henni sitja prófessor í taugalækningum, yfirlæknir á Taugalækningadeild, tveir aðrir taugalæknar og umsjónardeildarlæknir á taugadeild.


Um er að ræða 24 mánaða upphafssérnám í taugalæknisfræði. Sérnámið byggir á klínískri vinnu á starfsstöðvum taugalækningadeildar, þátttöku í fundum, teymisvinnu, námsskeiðum og annarri hliðstæðri starfsemi á sviðinu og í tengslum við sérnámið, á þátttöku í vöktum námslækna og skipulagðri menntun samkvæmt námsáætlun.

Klínísk þjálfun í taugalæknisfræði fer fram á taugalækningadeild á lyflækningaeiningu meðferðarsviðs Landspítala. Námslæknir sinnir þar störfum á legudeild, dag- og göngudeildarvinnu og ráðgjafarþjónustu fyrir bráðamóttöku og aðrar deildir spítalans í samráði við sérfræðilækna taugadeildar. Fyrsta námsárið snýr að undirstöðuatriðum taugalækninga og skal þá námslæknir fá góða þjálfun í sögutöku, taugaskoðun, greiningu og meðferðaráætlun sjúklinga með taugasjúkdóma. Á fyrsta námsári er mest áhersla lögð á legudeildarstörf, dagdeildarþjónustu og ráðgjafarþjónustu en eftir því sem líður á námstímann skal námslæknir fá vaxandi ábyrgð í störfum sínum og sinna flóknari tilfellum.

Markmið sérnámsins (sjá annars marklýsingu frá evrópsku sérfræðisamtökunum)

  • Að námslæknir öðlist góða og víðtæka þekkingu á taugasjúkdómum fullorðinna, orsökum þeirra, einkennum, faraldsfræði, gangi og horfum.
  • Að námslæknir öðlist góða þekkingu á meðferð og eftirfylgd helstu taugasjúkdóma fullorðinna.
  • Að námslæknir geti framkvæmt taugaskoðun og lagt mat á niðurstöður hennar.
    Að námslæknir geti með viðtölum, skoðun og gagnaöflun úr sjúkraskrá aflað fullnægjandi upplýsinga um þá þætti sem skipta máli til sjúkdómsgreiningar.
  • Að námslæknir geti skráð góða sjúkrasögu eftir sögu og skoðun þar sem fram kemur túlkun og tillaga að meðferðarplani.
  • Að námslæknir geti forgangsraðað verkefnum eftir bráðleika einkenna.
  • Að námslæknir hafi góða þekkingu á móttöku sjúklinga með brátt blóðþurrðarslag, þekki vel ábendingar og frábendingar segaleysandi- og innæðameðferðar og geti fylgt verklagi fumlaust og af öryggi.
  • Að námslæknir hafi gott vald á mænuholsástungu og geti framkvæmt inngripið án aðstoðar, þekki ábendingar þess, mögulega fylgikvilla og viðbrögð við þeim, ásamt því að geta túlkað niðurstöður rannsóknar. Námslæknir skyldi framkvæma a.m.k. 20 mænuholsástungur yfir námstímann.
  •  Að námslæknir þekki ábendingar, frábendingar og gagnsemi heilarita, tauga- og vöðvarita og hafi grunnþekkingu í framkvæmd og túlkun slíkra rannsókna.
  •  Að námslæknir geti átt árangursrík samskipti við sjúklinga og aðstandendur, geti veitt þeim viðeigandi upplýsingar og fræðslu og greint þeim frá erfiðum niðurstöðum.
  • Að námslæknir þekki mikilvægi þvegfaglegrar teymisvinnu, sé fær um að vinna í og leiða teymi. Að námslæknir nýti sér krafta annarra starfsstétta á árangursríkan hátt og geti átt góð samskipti við aðrar starfsstéttir.
  • Að námslæknir öðlist reynslu af kennslu og þjálfun læknanema og líti á það sem hluta af starfi sínu.
  • Að námslæknir sé fær um að semja og halda skipulagðan fyrirlestur þannig að efnið komist vel til skila fyrir lækna, aðrar fagstéttir og almenning.
  • Að námslæknir geti nýtt gagnreynda læknisfræði til að leggja mat á fræðilegan grunn ólíkra meðferðarúrræða.

Framvindumat
Tvisvar á ári (eins og mælt er með í evrópsku leiðbeiningunum) er lagt mat á framvindu sérnámslæknis með kennslustjóra og handleiðara/völdum sérfræðilækni. Þar er farið yfir logbók og þekking sérnámlæknis könnuð í undirgreinum taugalækninga (sjá logbók).Í viðtali er farið yfir umsagnir frá samstarfsfólki sérnámslæknis sem hann hefur safnað yfir tímabilið, umsagnir skulu koma frá sem flestum starfsstéttum (360-degree multisource feedback, MSF). Tvisvar á ári er sérnámslæknir metinn við að skoða sjúkling (sit-in) og setja upp meðferðaráætlun, matið er framkvæmt af kennslustjóra og handleiðara.

Handleiðsla
Hver sérnámslæknir skal hafa einn sérfræðilækni taugadeildar sem handleiðara í gegnum námstímann. Hvern mánuð skal fara fram fundur þeirra í milli. Handleiðslan snýst um að fylgja eftir eðlilegri þróun og þroska í starfi sem og samskiptum við sjúklinga og starfsfólk. Einnig er handleiðslan vettvangur til að ræða möguleika á sérhæfingu, rannsóknum, gæðaverkefnum og þau vandamál og áskoranir sem kunna að koma upp í starfi. Á hverjum fundi skal farið yfir logbók námslæknis og má þannig grípa inn í ef þörf er á þróun á einstaka sviðum. Skal handleiðari hafa sótt handleiðaranámskeið á vegum LSH eða frá annarri viðurkenndri kennslustofnun.

Fræðileg kennsla
Skipulögð fræðsla fyrir sérnámslækna fer fram á taugadeild.

  • Tvisvar í viku stýrir sérfræðilæknir kennslu fyrir námslækna. Sú kennsla tekur til fjölbreyttra viðfangsefna í taugalæknisfræði og er að miklu leyti tilfellamiðuð en einnig eru vísindagreinar lesnar og ræddar sem sérnámslæknir kynnir. Sérnámslækni ber að hafa kynnt 15 vísindagreinar í lok námstímans og skrá í logbók.
  •  Einu sinni í viku stýrir sérfræðilæknir tilfellafundi taugalækna þar sem eitt tilfelli er tekið fyrir. Rætt er við sjúkling og hann skoðaður að viðstöddum læknanemum, námslæknum og sérfræðilæknum taugadeildar. Hver sérnámslæknir skal stýra a.m.k. tveimur slíkum fundum á námstímanum og skrá í logbók. Hann kynnir sér vel sögu og einkenni sjúklings og tekur þátt í umræðu um greiningu og meðferð.
  • Vikulega heldur sérnámslæknir fyrirlestur fyrir aðra lækna deildarinnar um tilfelli, sjúkdóm eða vísindagrein. Viðfangsefnið skal hafa tengingu við taugalæknisfræði en sérnámslæknir hefur annars frjáls efnistök. Hver sérnámslæknir skal halda að minnsta kosti 15 slíka fyrirlestra yfir námstímann og skrá í logbók

Þátttaka í kennslu og fræðslu
Sérnámslæknir skal taka virkan þátt í klínískri kennslu læknanema. Skal sérnámslæknir leitast við að nýta hvert námstækifæri í daglegum störfum og á vöktum. Sérnámslæknir skal einnig taka þátt í skipulagðri kennslu læknanema og skal hver sérnámslæknir hafa umsjón með a.m.k. 8 klíníkum læknanema á námstímanum og skrá í logbók.

Rannnsóknarvinna
Námslæknar eru hvattir til þátttöku í vísindastarfi meðfram klínísku starfi (sjá logbók). Námslæknir skal hafa staðið fyrir a.m.k. einu gæðaverkefni í lok námstímabils.


Landspítali auglýsir sérnámsstöður lækna tvisvar á ári í janúar og september.

Gert er ráð fyrir að sérnámslæknar hefji störf 1. mars og í lok júní árlega. Í fyrstu viku er skylt að mæta á formlega móttökudaga sem eru kynntir þegar nær dregur.

Sérnám fer að mestu leyti fram á Landspítala en einnig á Sjúkrahúsinu á Akureyri í flestum greinum.

Kennslustjóri er Ólöf Jóna Elíasdóttir

Skrifstofustjóri:Ingibjörg Þóra Sæmundsdóttir skrifstofasernams@landspitali.is

Kynningarmyndband um sérnám í taugalækningum

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?