Leit
Loka

Námstími:            3 ár

Kennslustjóri:    Enrico B. Arkink með netfangið: enricob@landspitali.is


Læknisfræðileg myndgreining (röntgenlækningar) er viðurkennd aðalsérgrein samkvæmt reglugerð 467/2015 og undir hana teljast nokkrar undirsérgreinar, þ.e.a.s. myndgreining barna, ísótópamyndgreining, inngripsmyndgreining, myndgreining stoðkerfis og myndgreining taugakerfis. Sérfræðilæknir í myndgreiningu getur auk þess haft sérþekkingu á ákveðnu undirsviði sem ekki er sérstaklega viðurkennt af embætti Landlæknis.

Sérgreinin fjallar um greiningu, mat og meðferð á sjúkdómum með formfræðilegum (e.morphological) og starfrænum (e. functional/physiological) aðferðum til könnunar á uppbyggingu, starfsemi og sjúklegu ástandi mannslíkamans eins og hún birtist í myndrannsóknum. Þekkingarsvið sérgreinarinnar felur í sér skilning og kunnáttu á notkun, notagildi og takmarkana mismunandi myndgreiningaraðferða innan líffærakerfa og
sjúkdómaflokka.

Störf innan greinarinnar byggja einnig á samstarfi við lækna innan ólíkra sérgreina þannig að hún nýtist sem best við greiningu og meðferð sjúklinga.

Sérgreinin byggir á vísindalegum rannsóknum og gagnreyndri læknisfræði, sem nýtast til sjúkdómsgreiningar og meðferðar en jafnframt þróunar á aðferðafræði, gæðastarfi og kennslu innan greinarinnar

Kennsluráð:

Enrico B. Arkink kennslustjóri
Boris Brkljačić forstöðumaður fræðasviðs
Guðrún Lilja Ólafsdóttir fulltrúi sérgreinafélags
Hjalti Már Þórisson yfirlæknir
Arnar Þórisson yfirlæknir
Jón Bjarnason sérnámslæknir

UPPBYGGING SÉRNÁMSINS

Sérnámið er byggt upp af verklegum og fræðilegum námsþáttum, vísinda- og gæðastarfi, auk kennslu.

Mikilvægasti hluti námsins er fólginn í þátttöku í daglegu starfi lækna deildarinnar. Sérnámið fer fram á einingum röntgendeildar Landspítalans í Fossvogi (röntgendeild og inngripsröntgendeild), á Hringbraut (röntgendeild og ísótópa- og JS eining) og Eiríksstöðum (brjóstaeining). Möguleiki er á að sérnámslæknar taki hluta af verknáminu á öðrum innlendum eða erlendum röntgendeildum ef samningur þar um er við röntgendeild LSH og þær hafa fengið viðurkenningu Mats- og hæfisnefndar. Getur slíkt talist sem hluti af sérnámi á Landspítala eftir samkomulagi, efslík dvöl mætir a.ö.l. kröfum sérnámsins. Slíkur hluti á öðrum innlendum eða erlendum röntgendeildum yrði mest sex mánaða tími þar sem sömu marklýsingu og verkferlum er fylgt.

Röntgendeild er skipt í starfsstöðvar í daglegu starfiu á vinnustað og rafrænt og miðast staðsetning sérnámslæknis við að ná bæði samfellu og tímalengd (sbr. að neðan) á viðkomandi starfstöðvum sem styðja þekkingaröflun í faglegum hlutum myndgreiningar með stuðningi klíniskra- og sérnámshandleiðara.

Fyrsta árið er lögð áhersla á almennt röntgen (RTG, a.m.k. 12 vikur), TS rannsóknir, f.o.f. bráðarannsóknir og til uppvinnslu algengra sjúkdóma (a.m.k. 12 vikur), ásamt grunnþekkingu í ómskoðunum sem leiði til færni í algengum ómrannsóknum (a.m.k. 6 vikur). Fyrsta hluta 10 námstímans eða um 8-12 vikur er áhersla lögð á bráðamyndgreiningu (RTG, TS, ómun) til þess að undirbúa sérnámslækninn fyrir þátttökuí vaktavinnu. Vaktir hefjast um leið og sérnámslæknir hefur næga þekkingu í almennu RTG og TS m.t.t. bráðarannsókna (tékklisti verður fylltur út í framvinduskráningu).

Á seinni 2 árunum bætist við ofangreint dýpri þekking á þessum myndgreiningaraðferðum (RTG [a.m.k. 18 vikur], TS [a.m.k. 24 vikur]og ómun [a.m.k. 14 vikur]), en einnig segulómun (a.m.k. 8 vikur), brjóstamyndgreiningu, jáeindaskanna/ísótóparannsóknum og rannsóknarinngripum (a.m.k. 4 vikur á hverjum stað, lengur á 3. ári ef óskað er).

Svið þekkingaröflunar byggt á undirsérgreinum eða mismunandi faglegum þáttum myndgreiningar fer m.a. eftir staðsetningu á starfsstöðvum röntgendeildar hverju sinni. Aðal áhersla í Fossvogi er á myndgreiningu brjósthols, tauga, höfuð og háls, bein og liði sem og bráðamyndgreiningu, meðan áherslan á Hringbraut er myndgreining barna og myndgreiningu krabbameina, svo og rannsóknir á kviðarholi, þvagfærum og í kvensjúkdómum. Í tengslum við þetta kynnir sérnámslæknir sér starf við fósturgreiningar, hjartaómun og ómun í barnahjartalækningum á Hringbraut.

NÁMSTÍMI

Nám til sérfræðiréttinda tekur að minnsta kosti 5 ár (60 mánuði). Sérnám í myndgreiningu á LSH hefur að markmiði að veita allt að 3ja ára grunnþjálfun (1. þrep ESR) í almennri læknisfræðilegri myndgreiningu og tryggja þannig grunn að áframhaldandi námi og þjálfun til fulls sérnáms (2. þrep ESR) á annarri viðurkenndri stofnun innan Evrópu. Endanleg sérfræðiviðurkenning yrði veitt í viðkomandi landi eða á Íslandi. Hvort námstími á Íslandi er
viðurkenndur erlendis er háð reglum og hefðum í hverju landi fyrir sig. Heildartími sérnámsins við röntgendeild Landspítala miðast því við hið mesta 3 ár í fullu starfi í samræmi við fyrri hluta sérnáms (1. þrep ESR) námskrár Evrópusamtaka í myndgreiningu I (Curriculum of the European Society of Radiology), sem miðað er við. Sérnámsgrunnur sem er hluti sérnáms skv. reglugerð er ekki talinn hér með. Gert er ráð fyrir að hluta þessa námstíma sé
varið við vísinda- og gæðastörf í greininni. Gæða- og rannsóknavinna er hluti þjálfunar á 3 árum, en kemur ekki nema að litlu leyti í stað sérfræðinámsins sjálfs. Vísindastörf gætu verið viðurkennd sem námstími skv. gildandi reglugerð

STARFSHLUTFALL Í SÉRNÁMI
Gert er ráð fyrir að sérnámslæknir sé í fullu starfi (100% starfshlutfall) við röntgendeild LSH og taki þátt í vaktavinnu jafnt við aðra námslækna. Sumarfrí og lögboðin frí tengd vaktavinnu reiknast inn í námstímann en fjarvistir umfram tvær vikur fram yfir þann tíma geta leitt til lengingar á námstímanum. Mögulegt er að óska eftir hlutastarfi vegna sérstakra aðstæðna og er hvert tilfelli skoðað sérstaklega. Ef til lengingar sérnáms kemur vegna framvindumats,fæðingarorlofs, veikinda, námshlés eða sambærilegra atvika sem talin eru í skjali embættis landlæknis „Almenn viðmið og leiðbeiningar vegna sérnáms á Íslandi“ (svokölluð Gullbók), þá skal ráðningarsamningur framlengdur eins og þarf..

SÉRFRÆÐIPRÓF
Sérnámslæknar gangast ekki undir sérstök próf að afloknu 1. þrepi sérnámsins. Í lok 2. þreps sérnáms stendur til boða að þreyta sam-evrópskt diplomapróf í læknisfræðilegri myndgreiningu, svokallað EDiR próf (European Diploma in Radiology). Prófið er haldið af European Board of Radiology og prófað er úr öllum atriðum almennrar myndgreiningar í samræmi við námskrá ESR, þ.e. þeirri sömu og þessi marklýsing byggir á.

FRÆÐILEGIR NÁMSÞÆTTIR
Kennslufundir:
Hálfan dag í viku (13.00 – 16.00) eru haldnir sérstakir kennslufundir fyrir sérnámslækna. Sérnámslæknar eru skemalagðir á þessa fundi og eru þeir lausir frá hefðbundnum störfum á 12 þessum tíma. Einn sérfræðilæknir fer með eftirlit þessarar kennslu í hverri viku. Í upphafi kennsluársins í lok ágúst er gerð námsskrá í samvinnu við kennslustjóra þar sem viðfangsefni  fræðslufundanna er ákveðið. Fundarefnið getur verið afmarkað viðfangsefni og gjarnan kennslubókakafli og/eða yfirlitsgrein ásamt tengdum kennslutilfellum af deildinni úr daglegu starfi eða tilfelli úr kennsluefni á netinu. Sérfræðilæknar geta einnig kennt með fræðilegum fyrirlestrum. Þá gefst einnig tækifæri til að fara yfir áhugaverð og lærdómsrík tilfelli af
deildinni.

Kennslan hverju sinni er leidd af sérnámslækni sem sér um og ber ábyrgð á henni og með honum er röntgenlæknir með viðeigandi undirsérgrein eða áhugasvið. Efni kennslunnar er oftast fræðileg, en geta einnig verið almenns eðlis, t.a.m. umfjöllun um myndgreiningarsvör, tæknileg atriði, fræðigreinar eða vísindastarf. 

Frekari upplýsingar í marklýsingu

HANDLEIÐSLA OG NÁMSMAT

 
Sérnámslæknar njóta handleiðslu sérfræðilæknis allan námstímann. Skal sérnámshandleiðarinn hafa lokið sérstakri vottaðri þjálfun í handleiðslu.

Sérnámshandleiðari hefur umsjón með faglegri framþróun þess sérnámslæknisins/-lækna sem hann hefur í sinni umsjá.Sérnámslæknir fundar með sérnámshandleiðara sínum með formlegum hætti á 3 mánaða fresti og skal sá fundur skráður í framvinduskrá (ePortfolio). Hér gefst tækifæri til þess að
kanna námsframvindu, áhugasvið, líðan og virkni í starfi og hvernig best sé að vinna úr þeim vandamálum og leysa þær hindranir sem í veginum kunna að verða. Hér gefst einnig gott tækifæri til að fara yfir þau atriði í marklýsingunni sem upp á vanta og gera áætlun um hvernig megi bæta úr því. Sérnámshandleiðari skal að jafnaði ekki hafa fleiri en tvo sérnámslækna í sinni umsjá. Áætlað heildarfjöldi sérnámslækna á deildinni á LSH er því að
hámarki 8 í hvert sinn m.t. núverandi aðstæðna. 

Sérnámshandleiðari með stuðning yfirlæknis og kennslustjóra deildar metur námsþróun  sérnámslæknis. Árleg framvindumat er til grundvallar og framkvæmt skv. leiðbeiningum í Gullbókinni. Ef niðurstaða námsmats er ófullnægjandi getur það leitt til lengingar á námstíma.

Lýsingar m.t.t. handleiðslu og námsmats eru skrifaðar í viðhengi 1 („Nánari upplýsingar m.t.t. framvinduskráningar, handleiðslu og námsmats (á ensku)

Marklýsing

FRAMVINDUSKRÁNING
Sérnámslæknir skal halda framvinduskrá (e.Portfolio). Þar skal skrá tíma á vinnustöðvum og sérstök sérhæfð læknisverk. Þar skal einnig skrá viðveru í fræðilegu námi á deildinni og námskeiðum í faginu ásamt faglegum fundum. Einnig skulu skráð skipulögð fræðsluerindi
sem sérnámslæknir heldur, vísinda-, rannsókna- og gæðavinna og birtar greinar sem og útdrættir, erindi og veggspjöld, auk starfa við kennslu. Sjálfsnám og lestur um fræðilega þætti skal skrá þannig að nákvæmt yfirlit sé fyrir hendi um stöðu sérnámslæknisins, sem sé
uppfært og vottað af sérnámshandleiðara a.m.k. á sex mánaða fresti. Tekið skal mið af þekkingaröflun með hliðsjón af þeim atriðum sem tiltekin eru B-I hluta marklýsingarinnar.

Mikilvæg forsenda við mat náms sérnámslæknis er að hann haldi góða skráningu á þeim verkefnum sem honum er treyst fyrir og þeim störfum sem hann sinnir. Sérnámslæknir skal afla sér þeirrar þekkingar og öðlast þá færni sem tilgreind eru þessari marklýsingu (1. þrep ESR). Þessi atriði skal skrá í rafrænu framvindubókina (e.Portfolio) sem sérnámshandleiðari og hefur eftirlit með. Þessi skráning mun svo liggja til grundvallar á mati á því hvort 1. þrepi sérnámsins sé náð eða ekki.

Nánari upplýsingar m.t.t. framvinduskráningar eru skrifaðar í viðhengi 1 („Nánari
upplýsingar m.t.t. framvinduskráningar, handleiðslu og námsmats (á ensku)" sjá marklýsingu

Kennslustjóri er Enrico B. Arkink með netfangið: enricob@landspitali.is

Inntökuskilyrði

Sérnámsstöður í myndgreiningu skulu auglýstar samkvæmt samræmdu ráðningarferli fyrir sérnámsstöður lækna á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri.Landspítali auglýsir sérnámsstöður lækna tvisvar á ári í janúar og september.

Gert er ráð fyrir að sérnámslæknar hefji störf 1. mars og í lok júní árlega. Í fyrstu viku er skylt að mæta á formlega móttökudaga sem eru kynntir þegar nær dregur.

Til að geta hlotið ráðningu í sérnámsstöðu í myndgreiningu þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

1. Að læknir hafi lokið prófi frá Læknadeild Háskóla Íslands eða sambærilegum  erlendum háskóla skv. 3. gr. reglugerðar 467/2015
2. Að læknir hafi almennt lækningaleyfi á Íslandi.

Sérnámsgrunnur samkvæmt reglugerðar 411/2021 er nauðsynlegur til þess að hefja og taka þátt í sérnámi í myndgreiningu.

Allir umsækjendur sem uppfylla skilyrði um ráðningu skulu boðaðir í viðtal með yfirlækni og kennslustjóra. Þeir skulu vera ótengdir umsækjanda. Mat á hæfi læknis skal vera hlutlægt og byggja á eftirfarandi þáttum hið minnsta:

1. Ferilskrá og mati á henni.
2. Einkunnum á embættisprófi og stöðluðum prófum í læknisfræði.
3. Fyrri störfum að rannsóknum, kennslu og öðrum verkefnum sem þýðingu hafa og fram koma í ferilskrá.
4. Umsögnum og meðmælum fyrri leiðbeinenda eða vinnuveitenda.
5. Frammistöðu í viðtali þar sem m.a. er tekið tillit til viðhorfs áhuga og þekkingar umsækjenda á faginu, svo og sýn hans á stöðu sinni innan
læknisfræðinnar og myndgreiningar í nútíð og framtíð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?