Röntgendeild
Myndgreiningarrannsóknir og rannsóknarinngrip svo sem röntgenrannsóknir, tölvusneiðmyndir, segulómun, ísótópar, jáeindaskanni og ómskoðanir
Guðrún Ólöf Þórsdóttir
Aðstoðardeildarstjórar: Gunnar Aðils Tryggvason og Þóra María Jóhannsdóttir
Arnar Þórisson
Hafðu samband
Hér erum við
Röntgendeild Hringbraut: Aðalinngangur Eiríksgötu, jarðhæð A og B álmu / Röntgendeild Fossvogi: Aðalinngangur Krókur, 3. hæð E-álmu (myndin er þaðan)
Hagnýtar upplýsingar
Tímabókanir og almennar fyrirspurnir: rontgendeild-bokanir@landspitali.is
DEILDARSTJÓRI: Guðrún Ólöf Þórsdóttir
Yfirlæknir sérgreinar: Arnar Þórisson
Aðstoðardeildastjórar: Gunnar Aðils Tryggvason og Kristján Örn Jóhannesson
Gæðastjóri: Alda Steingrímsdóttir
Hægt er að fá samband við stjórnendur í gegnum skiptiborð í síma 543 1000.
- Skipulögð þjónusta röntgendeildar Landspítala í Fossvogi og við Hringbraut er á virkum dögum kl. 08:00-16:00
- Bráðaþjónusta er veitt allan sólarhringinn, alla daga ársins, samkvæmt beiðni læknis
- Afgreiðsla röntgendeildar er opin kl. 08:00-16:00 virka daga. Þá er tekið við tímapöntunum.
- Eftir lokun afgreiðslu á virkum dögum, um helgar og á frídögum er hægt að ná sambandi við deildirnar í gegnum skiptiborð Landspítala í síma 543 1000 sem gefur samband við vakthafandi geislafræðinga.
Röntgendeild – Fossvogi
3. hæð E-álma, aðalbygging
108 Reykjavík
Sími 543 8310
Fax 543 2247
Megin hluti deildarinnar er í E-álmu 3. hæð.
Afgreiðsla deilarinnar er á miðjum ganginum.
Tölvusneiðmyndir eru á 2. hæð E-álmu og segulómun í G-álmu á 3.hæð.
Röntgendeild – Hringbraut
Jarðhæð A og B álmu gamla spítalans (inngangur frá Eiríksgötu)
101 Reykjavík
Sími 543 8000
Ísótópar og jáeindaskanni eru á jarðhæð G-álmu (10 G)
Sími 843 5050, netfang: isotop@landspitali.is
.
Niðurstöður rannsókna
- Fást hjá þeim lækni er pantaði rannsóknina
- Einnig er hægt að fá svör hjá heimilislæknum sem geta prentað þau út í Heilsugátt (tölvubúnaður á Landspítala sem einvörðungu fagfólk inann og utan spítala hefur aðgang að)
Röntgendeild leitast við að veit fljóta og góða þjónustu öllum þeim sem á myndgreiningarrannsókn þurfa að halda. Á það jafnt við um þá sem eru inniliggjandi, koma frá bráðamóttökum, dag- og göngudeildum eða læknastofum og stofnunum utan sjúkrahússins.
Á deildinni starfa röntgenlæknar og geislafræðingar auk fjölda annarra sérhæfðra starfsmanna.
Allar myndgreiningarrannsóknir eru á stafrænu formi og eru skoðaðar og túlkaðar í vinnustöðvum og varðveittar í stafrænum gagnageymslum.
Röntgenlæknar túlka rannsóknir og gefa röntgensvar. Þeir annast einnig rannsóknir s.s. ómskoðanir og æðaþræðingar. Röntgenlæknar veita meðferð í vaxandi mæli, t.d. með víkkun þrenginga í æðum eða við að tæma út graftarkýli og setja stoðnet í hollíffæri. Einnig starfa eðlisfræðingur og klínískur lífeðlisfræðingur við ákveðnar rannsóknir og túlkun þeirra. Geislafræðingar eru fjölmennasta fagstétt sviðsins, gera flestar rannsóknir og sinna jafnframt gæðaeftirliti og geislavörnum. Röntgen- og tölvusneiðmyndarannsóknir og segulómanir eru að mestu í þeirra höndum. Við ísótóparannsóknir starfa bæði lífeindafræðingar og geislafræðingar.
Ávallt verður að vera læknisfræðileg ástæða fyrir röntgenrannsóknum og þær skal framkvæma á viðurkenndan hátt, þannig að geislun verði eins lítil og unnt er. Þá er sú hætta sem fylgir geisluninni réttlætanleg og tryggt er að ávinningur sjúklings er meiri en áhættan.
Geislaskammtar sjúklinga geta verið mjög breytilegir við sams konar röntgenrannsókn, bæði innbyrðis á milli sjúklinga og á milli einstakra röntgendeilda. Markmiðið er þó alls staðar það sama; að halda geisla skömmtum eins lágum og unnt er.
Við almennar röntgenrannsóknir er röntgengeisli notaður til að taka myndir af beinum líkamans, kviðarholi eða lungum. Oftast eru teknar 2-4 myndir en fjöldi mynda fer eftir því hvað á að rannsaka.
Undirbúningur rannsóknar
Undirbúningur fyrir röntgenrannsókn felst fyrst og fremst í því að afklæðast ásamt því að fjarlægja skart og aðra fylgihluti sem skyggt geta á myndefnið og valdið myndgöllum.
Framkvæmd rannsóknar
- Röntgenrannsóknir taka að jafnaði 10-30 mínútur
- Geislafræðingar sjá um framkvæmd rannsóknarinnar
- Eðli rannsóknarinnar stýrir því hvort mynd er tekin í standandi, sitjandi eða liggjandi stöðu
- Geislafræðingar sjá um að stilla þér inn og gefa viðeigandi fyrirmæli, t.d. um öndun
Geislavarnir s.s. blýdúkar og svuntur eru notaðar eftir þörfum við röntgenmyndatökur en mikilvægasta geislavörnin felst í nákvæmum og réttum vinnubrögðum geislafræðinga.
Að rannsókn lokinni les röntgenlæknir úr myndunum og svar er sent til þess læknis sem óskaði eftir rannsókninni.
Sá aðili ber ábyrgð á því að upplýsa þig um niðurstöður rannsóknarinnar.
Ert þú barnshafandi?
Mikilvægt er að konur á barneignaraldri láti geislafræðing vita ef þær eru barnshafandi eða telja það mögulegt.
- Forðast er að mynda barnshafandi konur nema brýna nauðsyn beri til og er þá sýnd sérstök aðgæsla m.t.t. geislavarna. Reynt er eftir fremsta megni að velja aðrar rannsóknaraðferðir sé þess nokkur kostur.
Við tölvusneiðmyndarannsókn eru röntgengeislar notaðir til að fá sneiðmyndir af líffærum, líffærakerfum eða ákveðnum líkamshlutum. Sneiðmyndir er hægt að skoða í öllum mögulegum sniðum og í tví- og þrívídd. Þær geta m.a. gefið ítarlegar upplýsingar um ástand líffæra og æða og afstöðu þeirra ásamt því að geta greint brot í beini sem ekki sést við almenna röntgenmyndatöku.
Undirbúningur fyrir rannsókn
Undirbúningur veltur á því hvaða hluta líkamans á að rannsaka og hvaða spurningum á að svara.
- Fyrir rannsókn þarf að afklæðast (sérstaklega ef málmur eða málmþræðir eru í fatnaði), fjarlægja skart og aðra fylgihluti sem geta skyggt á og gefið myndgalla
- Fyrir meltingafærarannsóknir þarf iðulega að drekka einn lítra af vatni eðaskuggaefnisblöndu í jöfnum skömmtum í 1-3 klst. en slíkar leiðbeiningar eru sendar heim með bréfi tímanlega fyrir rannsókn
- Oft þarf að gefa joðskuggaefni í æð við rannsókn
Joðskuggaefni
Joðskuggaefni er gefið í bláæð og er notað til að greina á milli líffæra, meta ástand þeirra og gera æðar sýnilegar á mynd. Við skuggaefnisgjöf er eðlilegt að finna hitastraum frá brjósti og niður í þvagblöðru, tilfinningin líkist því að þvaglát eigi sér stað, og oft finnst vont bragð í munni. Þessi viðbrögð líða hratt hjá. Einstaka sinnum kemur upp óþol eða ofnæmisviðbrögð fyrir skuggaefninu.
Ef þú ert með þekkt skuggaefnisofnæmi skaltu láta þann lækni sem óskaði eftir tölvusneiðmyndarannsókn vita af því en einnig getur þú haft samband við afgreiðslu myndgreiningardeildar eða látið geislafræðing vita af því fyrir rannsókn. Mikilvægt er að láta vita af skuggaefnisofnæmi með fyrirvara svo sérstakur undirbúningur geti átt sér stað eða önnur rannsóknaraðferð orðið fyrir valinu.
- Sykursýkissjúklingar sem nota lyfin Glucophage, Glucovance eða Avandamet eiga að hætta inntöku lyfsins í tvo sólarhringa fyrir og eftir tölvusneiðmyndarannsókn með joðskuggaefni.
Framkvæmd rannsóknar
Geislafræðingar framkvæma tölvusneiðmyndarannsóknir.
- Við myndatökuna liggur þú á rannsóknarbekk og ert keyrður inn í tölvusneiðmyndatækið sem líkist einna helst stórum kleinuhring
- Þér er stillt inn og eftir það er mikilvægt að liggja alveg kyrr
- Nokkur hávaði heyrist í tölvusneiðmyndatækinu á meðan myndatöku stendur og rannsóknarbekkurinn hreyfist rólega samtímis
Tímalengd rannsókna
- Tölvusneiðmyndarannsókn tekur að jafnaði 10-20 mínútur
- Að rannsókn lokinni les röntgenlæknir úr myndunum og svar er sent til þess læknis sem óskaði eftir rannsókninni. Sá aðili ber ábyrgð á því að upplýsa þig um niðurstöður rannsóknarinnar.
Ert þú barnshafandi?
Mikilvægt er að konur á barneignaraldri láti geislafræðing vita ef þær eru barnshafandi eða telja það mögulegt. Forðast er að mynda barnshafandi konur nema brýna nauðsyn beri til og er þá sýnd sérstök aðgæsla m.t.t. geislavarna. Reynt er eftir fremsta megni að velja aðrar rannsóknaraðferðir sé þess nokkur kostur.
Við ómun eru notaðar hljóðbylgjur sem eru sendar inn í líkamann. Endurvarp frá líkamanum er breytt í merki og gefur það mynd á skjá. Ómskoðanir nýtast við margskonar rannsóknir á kviðarholslíffærum, æðum, vöðvum, sinum, eitlum o.fl.
Undirbúningur rannsóknar
- Undirbúningur fer eftir því hvaða líkamshluta á að rannsaka
- Undirbúnings er aðeins krafist fyrir ómskoðun á lifur, galli og brisi og ef um ástungu er að ræða
- Þegar undirbúnings er krafist eru upplýsingar og leiðbeiningar um slíkt sendar heim með bréfi tímanlega fyrir rannsóknina
- Við ómskoðun þarf að afklæðast á þeim líkamshluta sem á að rannsaka
Framkvæmd rannsóknar
Röntgenlæknir annast rannsóknina.
- Þú leggst á rannsóknarbekk og sérstakt, hættulaust gel sett á húð þína, því næst er ómhaus rennt eftir húðinni
- Ómskoðun er hættulaus og tekur 20-60 mínútur.
- Að rannsókn lokinni les röntgenlæknir úr myndunum og svar er sent til þess læknis sem óskaði eftir rannsókninni. Sá aðili ber ábyrgð á því að upplýsa þig um niðurstöður rannsóknarinnar.
Segulómun eða MRI (Magnetic Resonance Imaging) er myndgreiningaraðferð sem byggir m.a. á segulsviði, útvarpsbylgjum og loftneti við myndatökur af líkamanum.
Segulómun er rannsóknaraðferð sem sífellt nýtur meiri vinsælda vegna mikilla möguleika við að skoða mjúkvefi líkamans, ekki síst heila og mænu, taugar, vöðva, liðbönd og liðbrjósk en aðferðin er notuð til rannsókna á flestum líkamshlutum og líffærakerfum.
Segulómun býr til sneiðmyndir sem hægt er að skoða í öllum mögulegum sniðum og bæði í tví- og þrívídd.
Undirbúningur fyrir segulómrannsókn
Undirbúningur fer eftir því hvaða líkamshluta á að rannsaka.
- Einungis er þörf á 4 klst. föstu ef rannsaka á kviðarhol (lifur, nýru, smáþarmar/ristill) en óhætt er að taka inn öll regluleg lyf
- Fyrir aðrar rannsóknir (heili, hryggur, hné o.fl.) má borða eðlilega
Innilokunarkennd
Innilokunarkennd er þekkt kvíðaröskun við segulómrannsókn. Geislafræðingar nýta færni og reynslu til að draga úr einkennum hennar. Ráðlagt er t.d. að taka geisladisk með rólegri tónlist sem hjálpar til við slökun, hafa aðstandanda með sér, augnhlíf til að opna síður augun í rannsókninni o.s.frv.
Ávallt er velkomið að hafa samband við geislafræðinga á segulómun vegna fyrirspurnar um rannsókn og fá hjá þeim frekari upplýsingar um aðferðir til að draga úr einkennum innilokunarkenndar svo rannsókn takist vel.
Skuggaefni
Við segulómrannsókn þarf í völdum tilfellum að gefa gadóliníum skuggaefni í bláæð. Aukaverkanir eru tiltölulega sjaldgæfar og langoftast vægar.
Konur með börn á brjósti er bent á að mjólka sig í 24 klst. eftir rannsókn með gadólilínum skuggaefni og farga mjólkinni þar sem skuggaefnið frásogast út í brjóstamjólk.
Framkvæmd rannsóknar
Geislafræðingur annast rannsókn.
- Í rannsóknarherberginu leggst þú á rannsóknarbekk
- Loftnet er sett yfir og/eða undir þann hluta líkamans sem á að rannsaka og þér því næst rennt inn í segulómtækið sem er tiltölulega bjart og opið í báða enda
- Segulómtæknin er viðkvæm fyrir allri hreyfingu og því er mikilvægt að vera kyrr á meðan myndatöku stendur
- Segulómrannsókn tekur 15-60 mínútur en tímalengd fer eftir því hvað er verið að rannsaka
- Töluverður hávaði er í segulómtækinu á meðan rannsókn fer fram. Af þeim sökum er boðið upp á eyrnatappa eða heyrnartól til að hlusta á útvarp eða geisladisk meðan á rannsókn stendur. Gjarnan má hafa geisladisk meðferðis
- Geislafræðingar fylgjast vel með framvindu rannsóknar bæði í myndavél og kallkerfi
- Myndatakan er sársaukalaus og án aukaverkana
Að rannsókn lokinni les röntgenlæknir úr myndunum og svar er sent til þess læknis sem óskaði eftir rannsókninni. Sá aðili ber ábyrgð á því að upplýsa þig um niðurstöður rannsóknarinnar.
Ert þú barnshafandi?
Reynt er að komast hjá því að mynda barnshafandi konur í segulómun, sérstaklega á fyrstu þremur mánuðum meðgöngu.
- Mikilvægt er að láta geislafræðing eða lækni vita ef um mögulega þungun er að ræða.
Ísótóparannsóknir gefa myndrænar og/eða starfrænar upplýsingar um líffærakerfi líkamans. Geislavirku efni er blandað saman við áhengjur en tegund þeirra fer eftir því hvaða líffæri eða líffærakerfi á að rannsaka. Áhengjur stjórna hvar geislavirka efnið sest í líkamann. Við myndatökuna nema gammamyndavélar geislun frá líkamanum og gefa myndrænar upplýsingar á tölvuskjá.
Undirbúningur rannsóknar
- Undirbúningur felst í því að fjarlægja af sér málmhluti s.s. úr, skartgripi, fatnað með málm í og tæma þvagblöðru (þegar á við)
- Þegar þörf er á frekari undirbúningi fyrir rannsókn færð þú leiðbeiningar sendar heim með bréfi
Framkvæmd rannsóknar
- Rannsóknin skiptist í tvennt, inndælingu efnis og myndatöku
- Inndæling geislavirks efnis er í bláæð
- Það er háð tegund rannsóknar hvort myndataka er framkvæmd strax eða eftir 2-4 klst.
- Við myndatöku átt þú að liggja á rannsóknarbekk, þér er stillt inn fyrir rannsókn og þarft að liggja kyrr þar til myndatökunni lýkur
- Gammvélmyndavélum er komið fyrir eins nærri þér og kostur er
- Myndatakan tekur 30-120 mínútur en tímalengdin ræðst af því hvers konar rannsókn er um að ræða
- Ef þú átt erfitt með að liggja kyrr vegna verkja er æskilegt að þú takir verkjalyf fyrir rannsókn
Brjóstagjöf
Það er háð framkvæmd rannsóknar hvort konur með börn á brjósti þurfi að gera hlé á brjóstagjöf. Sumar tegundir geislavirkra efnasambanda skiljast út með móðurmjólk.
Konum með börn á brjósti er bent á að hafa samband við geislafræðing/lífeindafræðing á ísótópastofu á Landspítala Hringbraut í síma 543-5050 eða Landspítala Fossvogi í síma 543 8373 til að fá ítarlegar upplýsingar um brjóstagjöf eftir inngjöf geislavirks efnis.
- Þegar konum er ráðlagt að gefa börnum sínum pela eftir ísótóparannsókn er mælt með að einhver annar gefi pelann í 24 klst. á eftir þar sem nærvera móður veldur geislaálagi á barnið
- Áhersla er lögð á að forðast að hafa börn í fanginu
Aðrar upplýsingar
Takir þú lyf að staðaldri skaltu taka þau eins og venjulega en upplýsa vinsamlegast um lyfjainntöku þegar þér er gefinn tími í rannsóknina
- Þeim sem hafa fengið geislavirkt efni í æð er bent á að forðast mikla snertingu við aðra í 24 klst. eftir inngjöf efnis.
Sérstök áhersla er lögð á að umvefja ekki barnshafandi konur og forðast að hafa börn í fanginu þar sem börn eru viðkvæmari fyrir geislun en fullorðnir.
Skyggnirannsókn er röntgenrannsókn þar sem hægt er að fylgjast með hreyfingum líffæra eða æða. Skyggning er notuð til að rannsaka útlit og/eða starfsemi líffæra eins og vélinda, meltingarfæra, nýrna, æða o.fl.
Skyggnirannsókn er röntgenrannsókn þar sem röntgengeisli fer í gegnum líkamann og í búnað sem kallaður er skyggnimagnari sem sendir mynd á sjónvarpsskjá þannig er hægt að sjá hreyfingu.
Það eru mjög fjölbreytilegar rannsóknir sem gerðar eru með skyggningu. Einnig er skyggning notuð við aðgerðir á skurðstofu.
Undirbúningur rannsóknar
- Það fer eftir tegund rannsóknar hvort þörf er á undirbúningi fyrir hana
- Undirbúningur er oftast fasta á mat og drykk í nokkrar klukkustundir
- Undirbúningur fyrir rannsókn á ristli er fljótandi fæði og taka þarf hægðarlyf daginn fyrir rannsókn
- Leiðbeiningar um rannsókn og undirbúning eru sendar heim með bréfi
- Áður en rannsókn hefst þarft þú að afklæðast skv. fyrirmælum geislafræðings og fjarlægja skartgripi og aðra málmhluti þegar við á
- Gott er að koma í léttum fatnaði og koma ekki með mikið af skartgripum
Börn þurfa oftast að fasta skemur en fullorðnir og stundum þurfa ung börn að fá róandi lyf fyrir rannsókn svo þau liggi kyrr. Dagdeild barna hefur umsjón með þeirri lyfjagjöf
- Upplýsingar um einstaka rannsóknir má finna á vef Landspítala undir Þjónustuhandbók rannsókna
Framkvæmd rannsóknar
- Röntgenlæknir og/eða geislafræðingur gera rannsóknina
- Það fer eftir tegund rannsóknar hvort þú þarft að liggja eða standa í rannsókninni
- Við skyggnirannsóknir er oftast gefið skuggaefni sem ýmist er drukkið eða gefið í æð
- Læknir ákveður hvaða skuggaefni skuli notað við rannsókn
- Í flestum meltingafærarannsóknum þarf að drekka baríum skuggaefnisblöndu svo hægt sé að fá myndir af útlínum maga og þarma
- Sumar rannsóknir eru þess eðlis að setja þarf upp nál og gefa joðskuggaefni í æð
Barium skuggaefni er duft sem hrært er út í vatn og er eins og þykk mjólk. Það er drukkið við rannsókn á t.d vélinda, maga eða þörmum og gerir lækni kleift að greina milli líffæra og annara vefja.
- Magn skuggaefnis er misjafnt eftir rannsókn en oftast þarf að drekka um 2 glös
- Ef um ristilrannsókn er að ræða er baríum gefið í endaþarm
Ofnæmi við bariumskuggaefni eru óþekkt en eftir rannsókn er gott að drekka vel af vökva svo skuggaefnið hreinsist úr meltingarfærunum til að hindra hægðatregðu. Það getur tekið baríum um tvo sólarhringa að tæmast úr meltingarvegi.
Joðskuggaefni er glært og sætt á bragðið. Það er oftast gefið í bláæð og er notað til að greina á milli líffæra, meta ástand þeirra og gera æðar sýnilegar á mynd.
Við skuggaefnisgjöf í æð er eðlilegt að finna hitastraum frá brjósti og niður í þvagblöðru, tilfinningin líkist því að þvaglát eigi sér stað og oft finnst vont bragð í munni. Þessi viðbrögð líða hratt hjá. Einstaka sinnum kemur upp óþol eða ofnæmisviðbrögð fyrir skuggaefninu.
- Ef þú ert með þekkt skuggaefnisofnæmi skaltu láta þann lækni sem óskaði eftir rannsókn vita af því en einnig getur þú haft samband við afgreiðslu myndgreiningardeildar eða látið geislafræðing vita af því fyrir rannsókn
- Mikilvægt er að láta vita af skuggaefnisofnæmi með fyrirvara svo sérstakur undirbúningur geti átt sér stað eða önnur rannsóknaraðferð orðið fyrir valinu
- Einkenni ofnæmis geta verið roði eða útbrot á húð, ógleði eða uppköst.
Joðskuggaefni skilst úr líkamanum gegnum nýrun og því er mælt með að drukkið sé vel af vökva eftir skuggaefnisgjöf.
Sykursýki
- Þeir sjúklingar sem eru með sykursýki og nota lyfin Glucophage, Eucreas, Janumet eða Avandamet, sem öll innihalda Metformin, skulu hætta inntöku lyfsins í tvo sólarhringa eftir skyggnirannsókn með joðskuggaefni í æð
Mælt er með því að drukkið sé vel af vatni fyrstu klukkustundirnar eftir joðskuggaefnisgjöf
Tímalengd rannsóknar
- Skyggnirannsóknir taka að jafnaði 20-40 mínútur
Að rannsókn lokinni les röntgenlæknir úr myndunum og svar er sent innan fárra daga til þess læknis sem óskaði eftir rannsókninni. Sá ber ábyrgð á því að upplýsa þig um niðurstöður rannsóknarinnar.
Ert þú barnshafandi?
Mikilvægt er að konur á barneignaraldri láti geislafræðing vita ef þær eru barnshafandi eða telja það mögulegt.
Forðast er að mynda barnshafandi konur nema brýna nauðsyn beri til og er þá sýnd sérstök aðgæsla m.t.t. geislavarna.
Reynt er eftir fremsta megni að velja aðrar rannsóknaraðferðir sé þess nokkur kostur.
Starfsmenn röntgendeildar
Á röntgendeildum starfar sérmenntað fagfólk og sérþjálfaðir tæknimenn. Þetta eru sérfræðilæknar í myndgreiningu, aðstoðalæknar, geislafræðingar, sérhæfðir tæknimenn, læknaritarar og heilbrigðisritarar. Einnig fer fram á deildunum starfsþjálfun nemenda í læknisfræði og geislafræði í tengslum við nám þeirra.
Geislavirku efni er blandað saman við sykur áhengju (F-18 FDG) og gefið í æð.
Tölvusneiðmynd er gerð samhliða jáeindarannsókn.
Áður en rannsókn er bókuð þarf að láta ísótópadeildina vita ef þessi atriði eiga við þar sem þetta getur haft áhrif á upptöku á myndunum.
- Innan við 2 vikur eru frá krabbameinslyfjagjöf þar til gera á rannsókn.
- Innan við 8 vikur eru frá geislameðferð þar til gera á rannsókn.
- Innan við 3 mánuðir eru frá aðgerð.
Undirbúningur rannsóknar
- Fasta þarf í 6 klst. fyrir rannsókn. Eingöngu má drekka vatn á meðan á föstu stendur og hvorki nota tyggjó né hálstöflur.
- Forðast þarf líkamlega áreynslu í 6 klst. fyrir rannsókn og stunda ekki líkamsrækt í 24 klst. fyrir rannsókn.
- Vera má í eigin fötum sem ekki eru með málmi t.d. rennilás eða smellum, því málmur getur truflað rannsóknina.
- Taka má inn öll regluleg lyf, en ef greind/ur með sykursýki:
- Týpa 2: Sleppa inntöku sykursýkislyfja 24 klst. fyrir rannsókn.
- Týpa 1 : Hafa þarf samband við ísótópadeildina, því gera þarf sérstakar ráðstafanir. - Rannsóknin er háð því að blóðsykur er undir 10 mmol/l.
- Láta þarf vita af þungun áður en gefinn er tími í rannsókn.
Framkvæmd rannsóknar
Jáeindarannsókn tekur um 2 klukkustundir.
- Farið er yfir spurningar varðandi heilsufar fyrir rannsókn og mældur blóðsykur.
- Settur er æðaleggur í handlegg og í hann er gefið geislavirkt efni.
- Liggja þarf í hvíld án þess að tala, lesa eða nota síma í 30 mínútur til að upptaka á geislavirka efninu verði sem best.
- Við myndatöku þarf að liggja á rannsóknarbekk í 20-30 mínútur.Ef ofnæmi er þekkt fyrir skuggaefni sem gefið er í æð er ráðlagt að láta lækni sem óskaði eftir rannsókninni vita af því. Einnig er hægt að hafa samband við afgreiðslu ísótópa tveimur dögum fyrir rannsókn til að fá sérstakan undirbúning.
Eftir rannsókn
Mælt er með að drekka vel og borða eftir rannsókn til að flýta fyrir útskilnaði skuggaefnis úr líkamanum.
Æskilegt er að forðast mikla snertingu við aðra í 6 klst. eftir rannsókn með geislavirku efni í æð.
Sérstök áhersla er lögð á að vera ekki í nánu samneyti við barnshafandi konur og forðast að hafa börn í fanginu þar sem börn eru viðkvæmari fyrir geislun en fullorðnir.
Aðrar upplýsingar
Ef bilun í framleiðslu á geislavirku efni kemur upp með litlum fyrirvara getur þurft að færa rannsókn milli daga.Velkomið er fyrir aðstandendur að bíða á biðstofu ísótópadeildar en ekki er aðstaða til að vera við undirbúning.
Röntgendeild Landspítala við Hringbraut, sími 543-5050, netfang: isotop@landspitali.is
Ísótópar
- Ísótóparannsókna af beinum
- Ísótóparannsókn af beinum - tveggja fasa
- Ísótóparannsókn af gallvegum
- Ísótóparannsókn af höfði
- Ísótóparannsókn á hjartavef
- Ísótóparannsókn af kalkkirtlum
- Ísótóparannsókn af lungum
- Ísótóparannsókn af magatæmingu
- Ísótóparannsókn af nýrum
- Ísótóparannsókn af skjaldkirtli
- Ísótóparannsókn - Octreoskann
- Ísótóparannsókn vegna Meckel´s poka