Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Um er að ræða bakteríutegund sem getur verið hluti af eðlilegri þarmaflóru hjá u.þ.b. 3% heilbrigðra einstaklinga.

Talið er að allt að 20-40% sjúklinga sem dvelja lengi á sjúkrahúsi geti verið með bakteríuna í ristli.

Ef bakterían nær að fjölga sér og mynda eiturefni er talað um sýkingu.

Sýkingin getur verið af völdum eigin ristilflóru einstaklingsins og kemur hún þá oftast í kjölfar sýklalyfjanotkunar eða að smit hefur borist milli manna.

Bakterían dreifist með snertingu.

Hún myndar harðgera spora eða dvalargró sem geta lifað lengi í umhverfinu (t.d. í fatnaði, rúmfatnaði og á salernum) og borist í fólk.

Smitefnið er í saur og er smithættan mest á meðan fólk er með niðurgang.

  • Þar sem bakterían smitast með snertingu er handþvottur áhrifaríkasta leiðin til að hindra dreifingu hennar.
  • Sérstaklega er nauðsynlegt að þvo sér um hendurnar með vatni og sápu eftir allar salernisferðir.
  • Handspritt er ekki jafnvirkt og handþvotturinn til að fjarlægja sporana (dvalargróin).
  • Einkenna verður yfirleitt vart á 4.-9. degi sýklalyfjameðferðar
  • Illa lyktandi niðurgangur, sem getur verið slímugur og stöku sinnum blóðugur
  • Kviðverkir
  • Hiti
  • Munnþurrkur, þurrar slímhúðir
  • Sýklalyfjameðferð
  • Dvöl á sjúkrahúsi og/eða nábýli við sýktan einstakling
  • Hár aldur
  • Veiklað ónæmiskerfi

Eiturefni bakteríunnar eru greind í saursýni og tekur yfirleitt einn sólarhring að fá niðurstöður.

Einnig er í einstaka tilfellum stuðst við sneiðmynd af kvið og speglanir til greiningar.

Hvenær?

Sjúklingur skal vera í einbýli með sér salerni meðan niðurgangurinn varir.

Hlífðarfatnaður

Allir sem koma inn í stofu til sjúklings með niðurgang eiga að vera með hanska.

Þeir sem annast sjúklinginn þurfa að vera í ermalöngum sloppi og e.t.v. með svuntu.

Þetta er gert til að hindra dreifingu smits.

Við greiningu er yfirleitt hafin sýklalyfjameðferð sem beinist gegn bakteríunni.

Algengasta lyfjameðferðin eru töflur í 10-14 daga en í einstaka tilfellum þarf að gefa lyf í æð.

Meðferð vegna einkenna er stundum nauðsynleg, svo sem vegna þurrks, verkja og veiklaðrar húðar við endaþarm.

Niðurgangur er mjög ertandi fyrir húðina og því þarf að vera á varðbergi gagnvart þessum einkennum.

Oft er notaður áburður með sinki til að verja húðina, en hann hrindir frá raka og ver húðina.

Útgefandi:
Landspítali - Háskólasjúkrahús
Lyflækningasvið I
Lyflækningadeild A7
Ágúst 2006 – 1. útgáfa


Höfundur:

Berglind Guðrún Chu, Hjúkrunarfræðingur 

Ábyrgðarmaður:

Stefanía Arnardóttir, Deildarstjóri 

Fagleg ráðgjöf:
Magnús Gottfreðsson Yfirlæknir Smitsjúkdómadeildar
Ásdís Elfarsdóttir Sýkingavarnahjúkrunarfræðingur
Sigríður Antonsdóttir Deildarstjóri Sýkingavaradeildar

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?