Segavarnir
Hjá segavörnum er veitt þjónusta til sjúklinga sem eru í blóðþynningarmeðferð
Hafðu samband
Hér erum við
Skrifstofur - Aðalinngangur K-bygging, Hringbraut -Göngudeild 10E, í Fossvogi hjá vaktstöð í kjallara.
Hagnýtar upplýsingar
Hjá segavörnum er veitt þjónusta til sjúklinga sem eru í blóðþynningarmeðferð. Hún felst í blóðtöku, mælingu og skömmtun blóðþynningarlyfja. Stjórnun blóðþynningarmeðferðar annast mest lífeindafræðingar og hjúkrunarfræðingar.
Sjúklingar á blóðþynningu þurfa að vera í reglulegu eftirliti hjá heimilislækni eða öðrum sérfræðingi því meðferðin er ekki hættulaus.
- Skrifstofur segavarna eru á 1. hæð K-byggingar við Hringbraut
- Storkurannsóknarstofur eru bæði við Hringbraut og í Fossvogi
Við Hringbraut fer blóðsýnataka fram á almennri göngudeild 10E. Hún er í kjallara E-álmunnar.
Einfaldast er að fara um inngang K-byggingar, sem er glerhýsi við hliðina á Kringlunni,
Í Fossvogi er blóðsýnataka á rannsóknarstofunni í kjallara.
Farið er um neðri inngang og til vinstri frá vaktstöð í kjallara.
Ávallt er velkomið að hringja og fá upplýsingar um töfluskammt, INR-gildi og hvenær næst skuli mæla og skammta.
- Veittar eru upplýsingar í síma segavarna, 543 5019, mánudaga til fimmtudaga kl. 10:00-16:00 og á föstudögum kl. 12:00-16:00.
Starfsmenn segavarna hringja í síðasta lagi daginn eftir skömmtun til þeirra sem ekki hafa fengið upplýsingar um töfluskammt .
Beinir símar hjá hjúkrunarfræðingum segavarna:
- 543 5005
- 543 5023
- 543 5028
- 543 6871
Tölvupóstfang: segavarnir@landspitali.is
HVAÐ ERU SEGAVARNIR (BLÓÐÞYNNING)?
Í blóðinu eru storkuþættir sem gera það að verkum að blóð storknar ef skemmdir verða á æðaveggjum.
Virkni nokkurra storkuþátta er háð K-vítamíni. Hægt er að gefa lyf sem breytir þessum þáttum þannig að blóðið storknar síður í blóðrásinni. Þetta dregur úr hættunni á myndun blóðsega (blóðtappa).
Það lyf sem mest er notað heitir Kóvar (innihaldsefni: warfarín). Í undantekningartilvikum eru notuð önnur lyf, t.d. Marevan eða Dicumarol.
Blóðþynnandi áhrifum lyfsins er fylgt eftir með blóðmælingum.
Blóðþynningin er gefin upp sem INR-gildi (International Normalized Ratio), sem er alþjóðleg viðmiðun.
Því hærra sem INR-gildið er, því meiri er blóðþynningin.
HELSTU ÁSTÆÐUR BLÓÐÞYNNINGAR
- Meðferð á bláæðasegum og/eða segareki til lungna
- Hjartsláttartruflanir, svo sem gáttatif (Atrial fibrillation)
- Rafvending
- Kransæðastífla með vöðvadrepi í framvegg hjartans
- Gervihjartalokur
- Slagæðaþrengsli
EFTIRLIT OG SKÖMMTUN
Eftirlit og skömmtun er hjá segavörnum Landspítala alla virka daga.
- Ekki þarf að vera fastandi fyrir sýnatöku
- Hægt er að fara í blóðmælingu alla virka daga
- Æskilegt er að koma í mælingu milli kl. 8 og 11 til að fá skömmtun samdægurs
Hægt er að fara í blóðtöku á göngudeild 10E á Landspítala við Hringbraut (opið kl. 8-15), á rannsóknadeild í kjallara Landspítala í Fossvogi (opið kl. 8-16) og á
heilsugæslustöðvum.
Þeir sem eru með heimahjúkrun fá blóðsýnið tekið heima.
Lyfið er skammtað eftir INR-mælingunni og skammturinn er að jafnaði tilbúinn eftir kl. 15, hafi blóðsýnið borist fyrir hádegi.
Þegar niðurstöður liggja fyrir er hringt til viðkomandi en einnig er hægt að fá upplýsingar í síma 543 5019 alla virka daga kl. 9-17.
Í upphafi meðferðar þarf að mæta með nokkurra daga millibili í mælingar, meðan verið er að finna út hvaða skammtur hentar.
- Þegar INR-gildið er orðið stöðugt er skammtað til lengri tíma
- Sé INR-gildið hins vegar áfram óstöðugt þarf að mæla og skammta samkvæmt því
Þeir sem bíða eftir rafvendingu þurfa að mæta vikulega í mælingar til að tryggja fullnægjandi blóðþynningu, en hún er skilyrði fyrir því að rafvending sé gerð.
Fyrir rafvendingu þarf að lágmarki þriggja vikna blóðþynningu þar sem INR gildið er meira en 2,0.
MILLIVERKANIR LYFJA OG MATAR VIÐ SEGAVARNARLYF
Lyf sem auka verkun Kóvars:
- Ýmis verkjalyf og bólgueyðandi lyf, t.d. Magnýl, acetýlsalicýlsýra,sýklalyf o.fl.
Lyf sem minnka verkun Kóvars:
- K-vítamín, sum krampalyf, berklalyf o.fl.
Fjölmörg önnur lyf geta haft áhrif á verkun Kóvars, þar með talin ýmis náttúruleg efni, t.d. hvítlaukshylki, kamillute og Ginko Biloba.
Ráðfærðu þig því við lækninn þinn ef þú tekur önnur lyf með Kóvar, sérstaklega ef um ofangreind lyf er að ræða.
Mikið er af K-vítamíni í sumu grænmeti (t.d. spínati, spergilkáli, blómkáli) og það getur haft áhrif á blóðþynninguna, sérstaklega ef skyndilega er gjörbreytt um mataræði.
Einnig eykur mjög fituríkt mataræði upptöku á K-vítamíni og minnkar þar með virkni Kóvars.
Einstaklingar, sem nærast illa, geta þróað með sér K-vítamínskort og getur þá verið ástæða til að draga úr blóðþynningu um tíma, eða mæta aukalega í mælingu.
Áhrif slíkra breytinga koma fram í mælingum og getur í sumum tilfellum verið þörf á breytingum á skömmtum vegna þeirra.
Hófleg neysla áfengis, 1-2 glös af léttvíni eða bjór af og til,hefur ekki skaðleg áhrif á blóðþynningarmeðferðina, en mikil og langvarandi neysla getur haft alvarleg áhrif.
Mikilvægt er að láta lækni vita að þú takir segavarnarlyf ef upp koma sjúkdómar eða vandamál eins og t.d. hár blóðþrýstingur, lifrar- og nýrnasjúkdómar, blóð- og blæðingasjúkdómar, sár í skeifugörn eða maga, ofneysla alkóhóls, nýlegar blæðingar o.fl.
MEÐGANGA OG BRJÓSTAGJÖF
Lyfið á ekki að nota á meðgöngutíma, þar sem það getur valdið fósturskemmdum snemma á meðgöngu.
- Kóvarskilst ekki út í móðurmjólk
- Hafið samband við lækni sé meðganga fyrirhuguð
- Nauðsynlegt er að nota viðurkenndar getnaðarvarnir meðan á töku Kóvars stendur
ALGENGUSTU FYLGIKVILLAR SEGAVARNA
Algengustu fylgikvillar segavarna eru blæðingar af ýmsum toga. Þær koma einkum fram ef INR gildið er hærra en 5,0.
Ef einhver merki eru um óeðlilegar blæðingar, skaltu strax hafa samband við lækni eða bráðamóttöku. Þá er ýmist dregið úr blóðþynningunni, gefið sérstakt mótefni (K-vítamín) eða storkuþættir, allt eftir eðli blæðinganna.
Aðrar aukaverkanir (t.d. útbrot, hárlos) eru mjög sjaldgæfar.
ÁRANGURSRÍK MEÐFERÐ
Árangursrík meðferð byggist á því að taka inn nákvæmlega réttan skammt daglega.
Dagsskammt skal taka inn í einu lagiog alltaf á sama tíma, helst seinnipart dags. Þannig er heilsu þinni best borgið.
- Fylgstu með meðferðinni og skráðu hjá þér skammtinn, INR gildið og dagsetningu næsta eftirlits.
- Aftast í þessum bæklingi er tafla sem þú skalt nota til að skrá skammta, mælingar, lyfjatöku og dagsetningu næstu mælingar
SEGAVARNARMEÐFERÐ OG FERÐALÖG
Nauðsynlegt er að láta starfsfólk segavarna vita séu ferðalög á dagskrá. Algengt er að breytingar verði á þörf fyrir segavarnarlyf þar sem loftslag og mataræði er ólíkt því sem fólk er vant.
Dvelji fólk lengi erlendis er hægt að fara í INR mælingar á rannsóknastofum ytra, fá upplýsingar um INR gildið og hringja til segavarna, sem munu þá ákveða skammta eftir því.
LYFJATILTEKT APÓTEKA
Mörg apótek bjóða upp á lyfjatiltekt og pakka lyfjum í dagsskammta.
Sé slík þjónusta notuð þarf að láta starfsfólk segavarna vita og verða þá fyrirmæli um skammta send til viðkomandi apóteks.
HAFÐU ÞETTA Í HUGA
Láttu lækni vita eða hafðu samband við segavarnir ef eitthvað óvenjulegt kemur upp á eins og t.d.:
- Blóðþynningu er hætt tímabundið vegna aðgerðar eða ef til stendur að gera aðgerð (einnig litlar aðgerðir svo sem tanndrátt)
- Breyting á töku lyfja, þar sem mörg lyf geta haft áhrif á blóðþynninguna
- Aukin blæðingatilhneiging, svo sem marblettir, nefblæðingar eða blæðingar með þvagi eða hægðum
- Langt ferðalag framundan
- Ef gleymist að taka Kóvar í meira en tvo daga