Hypospadias (Of stutt þvagrás)
Hypospadias kallast það þegar opnun þvagrásar er staðsett undir typpinu en ekki fremst.
Þvagrásaropið getur verið hvar sem er undir typpinu en staðsetningin segir til um hversu mikill gallinn er og hvaða aðferðir skurðlæknar nota til að laga það.
Staðsetning þvagrásarops:
- Framarlega á typpinu: Þetta er vægasta birtingarform hypospadias. Einnig algengasta þar sem þessi staðsetning er hjá yfir 50% drengja með hypospadias
- Fyrir miðju á typpinu: Þessi staðsetning er meðal alvarleg. Um 30% drengja með hypospadias hafa þvagrásaropið einhvers staðar fyrir miðju undir typpinu
- Við punginn, á pungnum eða undir honum: Þetta er alvarlegasta birtingarformið og á sér stað hjá um 20% drengja með hypospadias
Ef ekkert er að gert geta alvarlegri birtingarform hypospadias valdið erfiðleikum við samfarir þegar drengurinn fullorðnast eða seinna á lífsleiðinni.
Hagnýtar upplýsingar
Hypospadias er meðfætt ástand. Það gerist á meðan barnið er að þroskast í móðurkviði.
Þegar fóstrið þroskast myndar vefur þvagrásina á neðri hluta typpisins. Ef vefurinn nær ekki að lokast í þessu ferli styttist þvagrásin og þvagrásaropið er staðsett þar sem vefurinn náði ekki að lokast.
Í flestum tilvikum nær forhúðin ekki að þroskast eðlilega þannig að auka forhúð verður ofan á typpinu en engin undir.
Hypospadias er ekki tilkomin vegna einhvers sem foreldrarnir gerðu eða einhvers sem móðirin gerði á meðgöngu. Það er því engin þekkt orsök fyrir hypospadias.
Rannsakendur vita þó að hypospadias er örlítið algengari hjá drengjum þar sem faðir eða bróðir hafa verið með hypospadias.
Fyrsta einkenni er að þvagrásaropið er staðsett á neðri hluta typpisins. Þvagbunan vísar stundum niður en ekki fram.
Eldri drengir með þvagrásaropið fyrir miðju eða nær pung þurfa að setjast niður þegar þeir pissa.
- Typpið beygist niður
Þetta er stundum mjög sýnilegt en í öðrum tilfellum sést það aðeins við reisn.
Margir eru þó með alveg bein typpi, sérstaklega þeir sem eru með mildasta form hypospadias.
Hypospadias sést sjaldnast í sónar.
Það er því oftast við fyrstu líkamsskoðun eftir að drengurinn fæðist sem greiningin á sér stað. Vægustu birtingarform hypospadias geta yfirsést.
Hafið því samband við lækni ef:
- Þvagrásaropið er ekki fremst á typpinu
- Typpið beygist niður
- Forhúðin er ekki fullmynduð
Eina meðferðin sem er í boði er skurðaðgerð
Þannig er hægt að færa þvagrásaropið á réttan stað með því að framlengja þvagrásina, rétta typpið og laga forhúðina.
- Í erfiðari tilfellum þarf stundum fleiri en eina aðgerð
- Eftir aðgerðina/ar ætti typpið að vera eðlilega útlítandi og virka eðlilega
Ef drengurinn hefur mjög vægt birtingarform af hypospadiu er möguleiki á því að hann þurfi ekki á skurðaðgerð að halda.