Sérnám í geðlækningum
Námstími: 5 ár
Kennslustjóri: Oddur Ingimarsson
Geðsvið Landspítala býður upp á skipulagt sérnám í geðlækningum. Námið hefur hlotið opinbera viðurkenningu.
Nám til sérfræðiréttinda í geðlækningum tekur að lágmarki 5 ár. Sérnámslæknar geta valið að taka allt sérnámið hér á landi á geðsviði Landspítala en eru hvattir til að afla sér reynslu og þekkingar erlendis hluta námstímans.
Um er að ræða 5 ára nám á geðsviði Landspítala í auglýstum námsstöðum. Sérnámið byggir á reglubundinni viðveru og klínískri vinnu á starfsstöðvum geðsviðs, þátttöku í fundum, teymisvinnu, námsskeiðum og annari hliðstæðri starfsemi á sviðinu og í tengslum við sérnámið, á þátttöku í vöktum námslækna og skipulagðri menntun samkvæmt námsáætlun. Gert er ráð fyrir sjálfsnámi utan dagvinnutíma. Framganga í sérnáminu er metin að lágmarki árlega á skipulögðum matsfundi með handleiðara, kennslustjóra og prófessor í geðlækningum þar sem skráning á klínískri færni í loggbók, niðurstöður prófa og frammistöðumat eru meðal þeirra þátta sem lagðir eru til grundvallar.
Á námstímanum starfar námslæknir á mismunandi starfsstöðvum. Æskilegt er að þar af séu a.m.k. 12-18 mánuðir móttökugeðdeildastarf, gjarnan á tveimur tímabilum með mismikilli ábyrgð í samræmi við framgang í sérnáminu, 6-12 mánuðir í göngudeild og á bráðamóttöku, 4 mánuðir á bráðageðdeild, 4 mánuðir á fíknigeðdeild og 6-12 mánuðir á endurhæfingargeðdeildum, í samfélagsteymi eða í teymi fyrir snemmíhlutun í geðrofssjúkdóma.
Gert er ráð fyrir að á fyrstu 2 árum sérnámsins kynnist námslæknir grunnatriðum geðlæknisfræðinnar m.t.t. sjúkdóma og sjúkdómaflokka, eðlis þeirra og orsaka, greiningar, meðferðar, úrræða, siðfræði og fagmennsku í námi og starfi. Á þessum tíma vinnur sérnámslæknirinn í nánu samstarfi við klíníska handleiðara sína og aðra sérfræðinga.
Á næstu 2 árum eykst ábyrgð á meðferð og eftirfylgd sjúklinga jafnt og þétt eftir því sem reynsla og hæfni námslæknis eykst, samhliða því sem leitast er við að verða við óskum námslækna um aukna sérhæfingu með hliðsjón af áhugasviði. Á þessum tveimur árum eru námslæknar sérstaklega hvattir til þátttöku í rannsóknavinnu.
Á fimmta og síðasta árinu í sérnáminu starfar sérnámslæknir að miklu leyti sjálfstætt, þótt hann njóti áfram handleiðslu. Leiðir þá gjarnan eigið teymi á deild í samvinnu við viðkomandi yfirlækni og tekur þátt í kennslu yngri námslækna og læknanema.
Varðandi opinbera viðurkenningu: Um er að ræða 5 ára nám til sérfræðiréttinda í geðlækningum, viðurkennt sumarið 2017 af Mats- og hæfisnefnd. Samkvæmt reglugerð nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi, sér nefndin um að viðurkenna marklýsingar og námsstaði.
Kennsluráð sérnáms í geðlækningum:
Oddur Ingimarsson kennslustjóri
Halldóra Jónsdóttir yfirlæknir
Engilbert Sigurðsson prófessor og yfirlæknir
Guðrún Dóra Bjarnadóttir yfirlæknir
Erik Brynjar Eriksson yfirlæknir tilnefndur af Geðlæknafélagi Íslands
Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir umsjónarsérnámslæknir
Geðsvið Landspítala býður upp á skipulagt sérnám í geðlækningum. Námið hefur hlotið opinbera viðurkenningu.
Nám til sérfræðiréttinda í geðlækningum tekur að lágmarki 5 ár.
Landspítali auglýsir sérnámsstöður lækna tvisvar á ári í janúar og september.
Gert er ráð fyrir að sérnámslæknar hefji störf 1. mars og í lok júní árlega. Í fyrstu viku er skylt að mæta á formlega móttökudaga sem eru kynntir þegar nær dregur.
Sérnám fer að mestu leyti fram á Landspítala en einnig á Sjúkrahúsinu á Akureyri í flestum greinum.
Samvinna hefur verið staðfesti milli SAk og almennra lyflækninga um sérnám og er gert ráð fyrir að sérnámslæknar vinni á báðum stöðum nema sérstakar aðstæður leyfi það ekki.
Kennslustjóri geðlækninga er Oddur Ingimarsson
Skrifstofustjóri sérnáms: Ingibjörg Þóra Sæmundsdóttir, skrifstofasernams@landspitali.is