Sumarstörf 2025 - Læknanemar sem lokið hafa 4., 5. og 6. námsári
Laus eru til umsóknar störf læknanema á Landspítala fyrir sumarið 2025. Tvö tímabil eru í boði. Annars vegar er það 26. maí - 10. ágúst og hins vegar 30. júní -7. september (lokadagur er samkomulagsatriði). Um er að ræða störf innan ýmissa sérgreina læknisfræðinnar. Hér geta læknanemar sem lokið hafa 4., 5. og 6. námsári lagt inn umsókn.
Landspítali er lifandi og fjölbreyttur vinnustaður þar sem yfir 7000 manns starfa í þverfaglegum teymum og samstarfi ólíkra fagstétta. Framtíðarsýn Landspítala er að þar sé veitt framúrskarandi heilbrigðisþjónusta byggð á vísindum, fagmennsku og umhyggju, öflugu fagfólki og studd með umgjörð og aðbúnaði sem sómi er að.
- Tekur þátt í teymisvinnu og göngudeildarvinnu, eftir því sem við á
- Aðstoðar við sjúkdómsgreiningu, meðferð og eftirfylgd sjúklinga, undir stjórn sérnámslækna og sérfræðilækna og á ábyrgð yfirlæknis viðkomandi deildar eða einingar
- Aðstoðar við að veita sjúklingum bestu mögulegu læknisþjónustu sem tök eru á að veita hverju sinni
- Skráir í sjúkraskrá undir leiðsögn lækna og fer eftir reglum um skráningu lækna í sjúkraskrá
- Hafa lokið a.m.k. 4 ára læknisfræðimenntun við upphaf starfs
- Geta unnið á skilgreindu tímabili sem auglýst er eftir læknanema
- Hæfni í mannlegum samskiptum og þverfaglegu samstarfi
- Sjálfstæði og frumkvæði í vinnubrögðum og skipulagshæfni
- Að lágmarki B2 tungumálafærni í íslensku
Frekari upplýsingar um starfið
Allar umsóknir þurfa að fara rafrænt í gegnum ráðningarkerfi ríkisins. Fylgiskjöl skulu vera á pdf formi.
Í boði geta verið störf innan ýmissa sérgreina, svo sem:
- Almennar lyflækningar og aðrar undirgreinar lyflækninga (valdar legu- og göngudeildir)
- Augnlækningar
- Bráðalækningar
- Bæklunarskurðlækningar
- Endurhæfingardeild Grensás
- Geðlækningar
- Háls- nef og eyrnalækningar
- Meinafræði
- Myndgreining
- Rannsóknagreinar læknisfræði
- Skurðlækningar
- Taugalækningar (þarf að hafa lokið 5. námsári)
- Öldrunarlækningar
Vinsamlegast raðið ofangreindu eftir áhugasviðum ykkar í reitinn "Annað" og reynt verður að hafa það til hliðsjónar við boð um störf.
Við úrvinnslu námsgagna er einkum horft til þess námstíma sem umsækjandi hefur lokið, starfsreynslu undanfarin þrjú/ fjögur sumur og umsagna.
Með umsókn skal fylgja
- Starfsferilskrá þar sem nám og fyrri starfsreynsla er tilgreind og starfshlutfall/tímar tilgreindir fyrir vinnu samhliða námi (utan sumarorlofstíma). Vinsamlegast tilgreinið einnig í starfsferilskrá hversu mörgum námsárum þið hafið lokið þegar störf hefjast.
- Staðfesting á hversu mörgum ECTS einingum er áætlað að verði lokið þegar störf hefjast.
- Umsögn frá 1-2 atvinnurekendum sem þekkja vel til nema í starfi, sjá viðhengi. Æskilegt er að meðmæli séu ekki eldri en ársgömul.
- Staðfesting um B2 tungumálafærni í íslensku ef við á.
Forsenda ráðningar sem háskólanemi hjá Landspítala er að viðkomandi skili staðfestum gögnum um námsframvindu um leið og þau liggja fyrir að loknu vormisseri.