Minningargjafasjóður Landspítala Íslands (MLÍ) veitti fjóra verðlaunastyrki á Vísindum á vordögum þann 4. maí 2022 að heildarupphæð rúmlega 7 milljónir króna.
Minningargjafasjóður Landspítala Íslands var stofnaður árið 1916 og er tilgangur hans að stuðla að bættri meðferð sjúklinga m.a. með styrkveitingum til þeirra eða aðstandenda þeirra og til tækjakaupa fyrir sjúkrahús og/eða til valinna verkefna á vegum Landspítala.
Jóna Freysdóttir, náttúrufræðingur og prófessor
Að umsókninni standa Jóna Freysdóttir og Ingibjörg Harðardóttir en þær eru báðar starfandi við ónæmisfræðideild Landspítala og prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands. Auk þeirra koma að verkefninu Kirstine Nolling Jensen doktorsnemi, Jessica Lynn Webb meistaranemi, Ívan Árni Róbertsson læknanemi og Óttar Rolfsson, prófessor við læknadeild.
Verkefnið er hluti af stærra verkefni sem miðar að því að rannsaka bólguhjöðnun sem er virkt ferli sem kemur í veg fyrir að bráðabólga verði langvinn. Langvinn bólga er aukin í mörgum sjúkdómum sem herja á vestræn samfélög s.s. í sjálfsónæmi, krabbameini, hjartasjúkdómum o.fl. Í rannsóknarverkefninu er verið að skoða hvaða frumur taka þátt í bólguhjöðnun og hvernig hægt er að hafa áhrif á hana. Niðurstöður rannsóknanna hafa m.a. sýnt að NK frumur eru nauðsynlegar fyrir hjöðnun mótefnavakamiðlaðrar kviðarholsbólgu í músum og að ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur efla bólguhjöðnun.
Í verkefninu sem hlýtur styrk MLÍ er ætlunin að rannsaka hvernig hægt er að hafa áhrif á manna NK frumur í rækt til að efla bólguhjöðnunarvirkni þeirra. NK frumur verða ræstar með ýmsum sameindum sem vitað er að draga úr bólgu og/eða efla bólguhjöðnun, s.s. IL-10, TGFβ, resolvin E2 og annexin A1. Áhrifin verða metin með því að kanna getu NK frumna til að valda stýrðum dauða (apoptósis) daufkyrninga, tjáningu NK frumna á ýmsum yfirborðs- og innanfrumusameindum, seytun á sameindum, breytingar í efnaskiptum og ræsingu á boðferlum. Verkefnið mun auka þekkingu á bólguhjöðnun og hlutverki NK frumna í því ferli og gæti hjálpað til við að finna skotmark fyrir þróun á NK frumu-miðlaðri meðferð við bólgusjúkdómum.
Oddur Ingimarsson, sérfræðilæknir og lektor
Oddur Ingimarsson er sérfræðingur í geðlækningum og starfar á Laugarásnum meðferðargeðdeild en sú deild sinnir ungu fólki með geðrofssjúkdóm á byrjunarstigi. Oddur lauk embættisprófi í læknisfræði árið 2005 og MS prófi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands árið 2008. Hann lauk sérnámi í geðlækningum á Landspítala árið 2015 og doktorsprófi í líf- og læknavísindum frá læknadeild Háskóla Íslands árið 2018. Oddur hefur verið lektor við læknadeild HÍ frá 2021.
Auk Odds eru í rannsóknarhópnum Engilbert Sigurðsson, yfirlæknir og prófessor í geðlækningum við læknadeild Háskóla Íslands, Halldóra Jónsdóttir yfirlæknir og lektor við læknadeild Háskóla Íslands og Ragna Kristín Guðbrandsdóttir, læknanemi við læknadeild Háskóla Íslands, en Ragna átti upphaflega hugmyndina að rannsóknarverkefninu sem var síðan þróuð áfram af rannsóknarhópnum.
Gríðarleg aukning hefur verið í ávísunum á örvandi lyf til meðhöndlunar á ADHD hér á landi á síðustu árum, bæði meðal fullorðinna og barna, og fjölgaði þeim um 121% frá 2010 til 2020. Sker Ísland sig nú mjög úr í algengi ávísana slíkra lyfja í samanburði við önnur norræn lönd. Methylphenidate sérlyf, m.a. Ritalin og Concerta, er algengasta örvandi lyfið í ADHD meðferð á Íslandi en rannsóknir hafa jafnframt sýnt að misnotkun methylphenidate er meira vandamál hér á landi en annars staðar í heiminum. Geðrof og maníur eru sjaldgæfar en alvarlegar aukaverkanir ADHD lyfja en fáar rannsóknir hafa kortlagt tíðni þessara aukaverkana hjá fullorðnum.
Markmið rannsóknarinnar er að kortleggja hvernig og hvort tíðni geðrofs og manía meðal fullorðinna einstaklinga sem fá ávísað ADHD lyfjum á Íslandi hefur þróast samhliða aukinni notkun lyfjanna ásamt því að skoða hvort áhættan á geðrofi og maníu tengist skammtastærð, tímalengd meðferðar eða tegund ADHD lyfs sem ávísað var. Einnig verður leitast við að kanna hvort áhættan á geðrofi eða maníu aukist í kjölfar ADHD lyfjameðferðar samanborið við áður en meðferð hófst og hvort þeir sem fara í geðrof eða maníu í rannsóknarúrtakinu fái örvandi lyfjum ávísað aftur síðar.
Rannsóknin verður lýðgrunduð rannsókn á geðrofum og maníum í kjölfar ADHD lyfjanotkunar hjá einstaklingum 18 ára og eldri á Íslandi frá 2003-2022. Rannsóknin verður afturskyggn og verður gögnum safnað úr sjúkraskrám allra þeirra sem að hafa leitað á Landspítala (LSH) og Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) í geðrofi/maníu í kjölfar þess að hafa verið ávísað ADHD lyfjum á tímabilinu samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis.
Upplýsingar um þessar sjaldgæfu en alvarlegu aukaverkanir örvandi ADHD lyfja er mikilvægt að meta kerfisbundið til að hægt sé að leggja mat á hverjir séu í sérstakri áhættu á að fá slíkar aukaverkanir og hvernig áhættan tengist einstökum ADHD-lyfjum, skömmtum og tímalengd meðferðar. Þannig væri betur hægt að vega og meta gagnsemi og mögulegan skaða vegna ávísana slíkra lyfja. Sérstaða rannsóknarinnar og vísindalegt gildi hennar felst helst í því að í henni verða skoðuð gögn um geðrof og maníur í kjölfar ADHD lyfjanotkunar fyrir heila þjóð hjá einstaklingum 18 ára og eldri yfir nærri tveggja áratuga tímabil ásamt því að skammtastærðir og tímalengd meðferðar verður skráð sem hefur ekki verið gert áður í rannsókn á geðrofum og maníum af völdum ADHD lyfja.
Bylgja Hilmarsdóttir, náttúrufræðingur og PhD
Rannsóknin verður unnin á meinafræðideild Landspítala en fyrir verkefninu fer Bylgja Hilmarsdóttir, sameindalíffræðingur á sameindameinafræðieiningu meinafræðideildar Landspítala og hópstjóri við Lífvísindasetur Háskóla Íslands. Bylgja er lífefnafræðingur í grunninn en útskrifaðist með doktorspróf í líf- og læknavísindum árið 2016. Í kjölfarið fékk hún stöðu sem nýdoktor við Oslo University Hospital og var þar fyrst of fremst í rannsóknum á brjóstakrabbameini. Hún kom heim 2019 og starfar núna á sameindameinafræðieiningu meinafræðideildar Landspítala, bæði við vísindarannsóknir og þjónusturannsóknir fyrir spítalann. Bylgja leiðir þar rannsóknarhóp sem vinnur að rannsóknum á brjósta- og briskrabbameini. Að verkefninu kemur enn fremur hópur vísindafólks og klínískra starfsmanna á Landspítala auk vísindafólks við Háskóla Íslands.
Í rannsókninni verður sjónum beint að briskrabbameini en það er alvarlegur sjúkdómur þar sem lyfjameðferð hefur takmarkaðan árangur og 5 ára lifun er lág. Því er til mikils að vinna að finna hnitmiðuð, sérsniðin meðferðarúrræði á sem stystum tíma fyrir þennan hóp sjúklinga. Í þessu verkefni er ætlunin að setja upp frumuræktunarmódel þar sem æxlisvefur er ræktaður beint frá sjúklingum en notuð verður aðferð þar sem vefurinn verður ræktaður sem svokölluð öræxli (e. organoids). Þegar hefur verið sýnt fram á að ræktun krabbameinsvefjar í þrívíðu umhverfi sem öræxli er árangursrík leið til að rækta krabbameinsfrumur til lengri tíma og að þar viðhaldi öræxlin eiginleikum og svipgerð uppruna æxlisins. Sérstaklega verður skoðað hvort æðaþelsfrumur styðji við vöxt og frumufjölgun briskrabbameinsfrumna með samræktun þessara tveggja frumutegunda. Út frá hugmyndafræði persónumiðaðrar meðferðar (personalized therapy) er ætlunin að rannsaka hvort öræxli geti til framtíðar nýst sem tól til að finna nákvæmustu og árangusríkustu meðferð fyrir hvern sjúkling. Stefnt er að því að niðurstöður verkefnisins muni ekki einungis nýtast við rannsóknir á briskrabbameini heldur leggja grunn að frekari verkefnum þar sem öræxli eru ræktuð úr fleiri tegundum krabbameina.
Erla Kolbrún Svavarsdóttir, forstöðumaður og prófessor
Rannsóknarhópurinn samanstendur af dr. Erlu Kolbrúnu Svavarsdóttur, prófessor við hjúkrunarfræðideild HÍ og formanni fagráðs í fjölskylduhjúkrun á Landspítala, dr. Ástu B. Pétursdóttur, lektor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og sérfræðingi í líknarhjúkrun með áherslu á fjölskylduhjúkrun á Landspítala, og dr. Önnu Ólafíu Sigurðardóttur, sérfræðingi í hjúkrun á kvenna-og barnaþjónustu á Landspítala og klínískum dósent við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna aðlögun einstaklinga með krabbamein og aðstandenda að því að lifa með krabbameinssjúkdóm. Öllum krabbameinssjúklingum sem eru í virkri krabbameinsmeðferð á Landspítala og í sérhæfðri líknarþjónustu HERU ásamt aðstandendum þeirra er boðin þátttaka í rannsókninni. Rannsóknin er gerð á öllum krabbameinsdeildum Landspítala (dag- og göngudeildum, lyflækningalegudeildum, skurðlækningadeildum) og sérhæfðri líknarþjónustu HERU, þ.e. gögnum er safnað frá einstaklingum með krabbamein á þessum deildum og aðstandendum þeirra. Með rannsókninni fæst betri innsýn í það hvernig heilbrigðisstarfsmenn geta best stutt við fjölskyldur einstaklinga með krabbamein þar sem lítið er vitað um það hvað þarf til og hvers konar stuðning fjölskyldan þarf á að halda til að aðlaga langvinna sjúkdóma eins og krabbamein fjölskyldulífinu á sem árangursríkastan hátt.
Um er að ræða framsýna, lýsandi, langtímarannsókn. Gögnum verður safnað frá 200 sjúklingum og nánustu aðstandendum sem svara sömu spurningalistum en búið er að safna gögnum frá 150 þátttakendum. Fræðsla og stuðningur við fjölskylduna, viðhorf til krabbameinssjúkdómsins, einkenni áfallastreituröskunar, virkni fjölskyldunnar, sálræn líðan og aðlögun einstaklinga með krabbamein og aðstandenda þeirra að krabbameinssjúkdómnum er metinn á tveimur tímabilum með 4-8 vikna millibili. Könnuð verða tengsl þessara þátta við bakgrunnsbreytur og hversu mikinn þátt valdar bakgrunnsbreytur skýra þessa upplifun og áhrif á daglegt líf meðal einstaklinga með krabbamein og nánustu aðstandenda. Vísindalegt gildi rannsóknarinnar er aðallega fólgið í aukinni vitneskju um sálræna líðan og aðlögun fullorðinna krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra sem þiggja heilbrigðisþjónustu á Landspítala. Auk þess að þróa sérhæfðan stuðning við þennan skjólstæðingahóp ásamt því að efla fjölskyldumiðaða þjónustu við krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra.