Frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala 25. mars 2021:
Í ljósi stöðu COVID-19 faraldurs í samfélaginu og gildandi samkomutakmarkana hefur eftirfarandi verið ákveðið:
1. Heimsóknir
Heimsóknir barna undir 16 ára aldri eru óheimilar á Landspítala nema í sérstöku samráði við stjórnendur deilda.
2. Meðganga og fæðing
Ekki er gert ráð fyrir fylgdarmanni með konu í fósturgreiningu nema í sérstöku samráði við stjórnendur fósturgreiningadeildar.
Maka/stuðningsaðila fæðandi konu er velkomið að vera með konu í fæðingu um leið og hún er komin inn á fæðingarstofu. Viðkomandi verður kallaður til þegar það er tímabært en bíður utan spítalans á meðan.
3. Flutningur eða útskrift sjúklings frá Landspítala - skimanir
Allir sjúklingar sem flytjast frá Landspítala, eftir meira en 48 klst. legu á spítalanum, á aðrar stofnanir (á einnig við um Landakot og Vífilsstaði) eða útskrifast í skipulagða heimaþjónustu verða skimaðir fyrir COVID-19 fyrir útskrift. Þetta gildir óháð bólusetningu sjúklings.
4. Hópaskipting
Stjórnendum er falið að skipuleggja hópaskiptingu á sínum einingum í samræmi við gildandi takmarkanir um hópamyndun.