Undirbúningur er á lokametrunum fyrir flutning innkirtladeildar Landspítala úr Fossvogi í nýtt húsnæði á Eiríksgötu 5. Ráðgert er að starfsemin hefjist þar 1. mars 2021.
Ný tækifæri felast í nýrri og betri aðstöðu deildarinnar og er þess vænst að það geti stuðlað að auknum umsvifum og betri þjónustu við skjólstæðingana.
Innkirtladeild verður á jarðhæð nýja göngudeildarhússins við Eiríksgötu, Eiríksstöðum. Þar verður fjölbreytt göngudeildastarfsemi; auk innkirtladeildarinnar augndeild, göngudeild gigtsjúkdóma, brjóstamiðstöð og erfðaráðgjöf.
Á Eiríksstöðum verður ekki blóðrannsókn enda best að fólk fari í blóðrannsókn að minnsta kosti tveimur dögum fyrir tíma á göngudeild þannig að niðurstöður liggi fyrir við heimsóknina. Þannig er tryggt að tíminn nýtist vel.
Hægt er að fara í blóðrannsókn í Fossvogi, við Hringbraut og á Landakoti.
Fólk sem er með insúlíndælur er beðið um að hlaða gögnum úr dælunum niður daginn fyrir komuna þannig að hægt sé að skoða þau .
Eiríksstaðir - Eiríksgata 5 stendur á horni Eiríksgötu og Barónsstígs.