Árleg aðventustund fyrir syrgjendur verður sunnudaginn 13. desember 2020. Vegna aðstæðna í samfélaginu verður hún send út í Sjónvarpinu. Landspítali, Sorgarmiðstöð og Þjóðkirkjan standa fyrir aðventustundinni sem verður sjónvarpað frá Grafarvogskirkju kl. 17:00.
Um árabil hafa sorgarsamtök, Landspítali og Þjóðkirkjan boðið þeim sem hafa nýlega misst ástvin til samkomu á aðventunni. Þetta hefur verið stund kærleika og huggunar fyrir syrgjendur í aðdraganda jóla. Nú er ekki í boði að safnast til stundarinnar og því var sú leið valin að senda hana út á RÚV. Árný Guðmundsdóttir táknmálstúlkar á RÚV 2 kl. 16:40 sama dag.
- Séra Guðrún Karls Helgudóttir kynnir stundina.
- Lifandi tónlist verður í höndum Sigríðar Thorlacius, Sigurðar Guðmundssonar, Matthíasar Stefánssonar og Hilmars Arnar Agnarssonar.
- Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands flytur hugvekju.
- Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, fer með lokaorð.
Fjölskyldur geta tekið þátt í stundinni með því að kveikja á kerti í minningu látinna ástvina. Landsmenn eru hvattir til að sýna syrgjendum samhug með því að kveikja á kerti heima í stofu eða úti fyrir. Takmarkið er að mynda bylgju hlýhugar og samkenndar til stuðnings hvert öðru á erfiðum tímum.
Séra Guðrún Karls Helgudóttir:
Það er bæði mikilvægt og gott að geta tekið frá stund til þess að minnast þeirra sem við söknum, þeirra sem eru farin frá okkur. Þessi árlega aðventustund eða minningarstund býður okkur upp á þetta rými, að geta komið saman, kveikt á kerti til minningar um þau sem látist hafa og hugsað til þeirra í aðdraganda jóla. Jólin er hátíð sem kallar fram tilfinningar og við tengjum gjarnan við samveru. Því verður söknuðurinn oft sárastur á þessum tíma. Þessi minningarstund getur verið erfið þeim sem nýlega hafa misst en að sama skapi dýrmæt. En þessi stund er einnig dýrmæt þótt langt sé um liðið frá því að ástvinurinn dó því einmitt í þeim aðstæðum er gott að geta tekið svolitla stund frá á aðventunni til þess að minnast, þakka og jafnvel leyfa nokkrum tárum að falla.
Þar sem ekki er hægt að bjóða upp á þessa stund í kirkju í ár langar mig að hvetja þig, sem langar að minnast ástvinar, að hafa kerti við höndina þegar þú tekur þátt í stundinni heima hjá þér eða hvar sem þú ert stödd/staddur og kveikja á því þegar kertaljósin verða tendruð í stundinni. Einnig erum við hvött til þess að kveikja á friðarkerti úti, ef við höfum tök á því, til þess að sýna syrgjendum samhug.
Guð gefi þér gleðileg jól.