Eftirfarandi tilkynnti viðbragðsstjórn og farsóttanefnd 27. apríl 2020:
Til stóð að rýmka reglur um viðveru aðstandenda í fæðingarferlinu frá 4. maí. Við nánari athugun kemur í ljós að ekki er hægt að viðhalda 2 metra fjarlægð með góðu móti og því hefur verið ákveðið að halda óbreyttu vinnulagi en verður endurskoðað síðar í maímánuði.
Þetta þýðir að:
- Aðstandandi getur ekki fylgt konu sem þarfnast innlagnar t.d. í gangsetningu en getur komið þegar líður að fæðingu barns.
- Aðstandandi getur ekki fylgt konu sem kemur í bókaðan tíma eða bráðakomu. Þetta á einnig við um komur í meðgönguvernd, gangsetningu og fósturgreiningu.
- Aðstandandi getur ekki fylgt konu í valkeisara en getur komið og verið hjá móður og barni í 1-2 klst á meðgöngu- og sængurlegudeild eftir aðgerð/fæðingu barnsins.
- Aðstandandi getur fylgt konu í fæðingu þegar hún er komin í virka fæðingu og getur verið með henni fram yfir fæðingu barns og hefur möguleika á að dvelja með konu og barni í 1-2 tíma eftir fæðingu.
- Aðstandandi getur ekki fylgt konu í sængurlegu.
- Aðstandandi má ekki undir neinum kringumstæðum koma á spítalann ef hann hefur einkenni um að vera veikur. Mikilvægt er að hann virði 2 metra fjarlægðarmörk frá starfsfólki og fari eftir þeim leiðbeiningum sem hann fær við komu á deildina.