Vakin er athygli á ákvörðun um ýmsar breytingar á starfsemi á Landspítala frá 4. maí sem boðaðar voru í daglegri tilkynningu viðbragðsstjórnar og farsóttanefndar Landspítala 21. apríl 2020:
Áréttað er að eftir sem áður gildir teggja metra regla um fjarlægð milli fólks og ekki er leyfilegt að hafa meira en 50 manns samankomna í einu. Verklag um sóttvarnir gildir áfram.
1. Heimsóknarbann á Landspítala frá 4. maí nk. verður í meginatriðum með sama hætti og verið hefur frá 7. mars, þ.e. heimsóknir eru einungis leyfðar í sérstökum tilvikum sem starfsfólk viðkomandi deildar leggur mat á hverju sinni. Á líknardeild í Kópavogi hefur verið í gildi sérstakt verklag vegna heimsókna sem verður haldið áfram. Rýmkað verður um heimsóknir á Grensásdeild og þær leyfðar eftir kl. 16:00 á daginn (einn gestur í einu) en ávallt skal hafa samráð við starfsfólk. Fyrirhugað er að rýmka heimsóknarbann á Vífilsstöðum, Landakoti, líknardeild og á geðdeildum frá 18. maí. Forstöðumenn viðkomandi eininga munu vinna að þeirri útfærslu og kynna fljótlega eftir 4. maí. Ekki verður tekin ákvörðun um rýmkun heimsóknarbanns við Hringbraut og í Fossvogi fyrr en líður á maímánuð.
2. Sjúklingar sem fá meðferð á legudeildum, s.s. sýklalyf, geta verið heima milli meðferða.
3. Starfsmenn og nemendur mega fara á milli starfseininga og vinna á fleiri en einni starfsstöð á Landspítala.
4. Starfsmenn sem vinna á Landspítala og annarri stofnun er það heimilt nema önnur stofnun sé hjúkrunarheimili.
5. Lagt er í hendur stjórnenda að meta hvar þarf að halda hópaskiptingu starfsmanna áfram. Nauðsynlegt er að áhættumeta viðkomandi starfsemi með hliðsjón af sérhæfingu, fjölda starfsmanna, eðli þjónustunnar og samsetningu sjúklingahópsins þar sem það á við.
6. Göngudeildir mega hafa opið í meira mæli en verið hefur en gæta þarf að því að ekki verði hópamyndun á biðstofum og tveggja metra reglan sé virt. Ekki er heimilt að nota snertiskjái og áfram skal nota snertilausar greiðslur.
7. Matsalir opnaðir að nýju. Áfram verður skammtað og afgreitt á deildir.
8. Tilmæli um að hitta ekki samstarfsmenn utan vinnu eru dregin til baka en ítrekað mikilvægi sóttvarna, tveggja metra regla og að forðast hópamyndun.
9. Kennsla, fundir, móttaka nema og sumarstarfsfólks skal miða við 50 manns og tveggja metra reglu. Klínískt nám á Landspítala má fara í fyrra horf með sömu fyrirvörum. Kennsla í hermisetri má hefjast að nýju með sérstöku fyrirkomulagi sem menntadeild hefur lagt upp.
10. Aðstandandi má vera viðstaddur allt fæðingarferlið en má ekki fylgja konu á legudeild eftir fæðingu, ekki fara í sameiginleg rými og gæta að fyllstu sóttvörnum meðan á dvöl stendur. Eftir sem áður gildir að aðstandanda er ekki heimilt að koma á spítalann hafi hann einkenni um öndunarfærasýkingu.
11. Rjóður opnað að fullu 4 maí.