Kæra samstarfsfólk!
Ég vona að sumarið hafi farið um ykkur mildum höndum og þið náð að hvílast sem best.
I
Það er frábært að finna fyrir allri þeirri velvild sem Landspítalinn nýtur í samfélaginu. Nú síðast í vikunni barst spítalanum óvenju rausnarleg gjöf frá íslenskum hjónum. Um er að ræða 39 milljóna gjöf til þvagfæraskurðdeildar spítalans, mjög fullkomið Laser tæki sem nýtist til greiningar og meðferðar á krabbameinum eða góðkynja sjúkdómum í nýrum og þvagfærum. Þá eru einnig í gjöfinni speglunartæki með stafrænni myndtækni, myndavél auk áhalda til margvíslegra speglunaraðgerða. Með þessari gjöf má fullyrða að tækjabúnaður til þvagfæralækninga bæði barna og fullorðinna sé orðinn á pari við það sem best gerist erlendis.
IIAnnar afar jákvæður atburður nú nýlega var að Konunglega breska lyflæknafélagið (Royal College of Physicians, RCP) vottaði sérnám í lyflækningum á Íslandi en þar er um gríðarlega mikilvægt skref að ræða á leið okkar að öflugri Landspítala.
Einn af takmarkandi þáttum íslenskrar heilbrigðisþjónustu, ef borið er saman við önnur Vesturlönd, er að erfitt er að bjóða upp á fullt sérnám í lækningum hér á landi, m.a. vegna fámennis. Á hinn bóginn hefur það oft verið talinn styrkur læknisþjónustu á Íslandi að sérfræðilæknar og margt annað fagfólk hefur hlotið menntun og þjálfun erlendis, á mörgum af fremstu háskólasjúkrahúsum í heimi. Einnig hefur verið bent á að erlendis eru sérnámslæknar ein af meginstoðum heilbrigðiskerfisins, en hér er það algengt að sérnámslæknar hverfi úr íslensku heilbrigðiskerfi í 7 – 10 ár.
Flestar sérgreinar lækninga hafa boðið upp á óformlegt fyrrihluta sérnám í 1-3 ár. Heimilislækningar og geðlækningar hafa boðið upp á fullt sérnám hérlendis en forsvarsmenn þeirra greina hafa hins vegar mælt með því að námslæknar tækju hluta af sérnámi sínu erlendis.
Ný reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi nr. 467/2015 gerir auknar kröfur til sérnáms, skráningar þess og að við gerð marklýsinga skuli leita alþjóðlegrar ráðgjafar eftir því sem þurfa þykir og að í skipulagi sérnáms skuli alþjóðlegum gæðaviðmiðum mætt.
Ýmsar sérgreinar lækninga á Landspítala sýna þessari þróun mikinn áhuga og keppast við að uppfylla markmið reglugerðarinnar, til þess að geta boðið upp á formlegt sérnám enda hefur reglugerðin þegar tekið gildi. Við uppbyggingu lyflækninga, eftir að hrun greinarinnar blasti við fyrir tæpum þremur árum, ákváðu ráðuneyti heilbrigðismála og Landspítali að við endurreisn lyflækninga yrði framhaldsnámið sett í forgang. Fyrir lyflækningar reyndist það heillavænleg ákvörðun en leitað var samstarfs við RCP í Bretlandi.
Formlega hófst sérnámið í lyflækningum í september síðastliðnum. Í júní síðastliðnum kom síðan sendinefnd frá Bretlandi til að taka út námið í lyflækningum og fylgjast með því að fyrsta árlega stöðumat námslækna færi rétt fram. Sérnámið fer fram á lyflækningasviði Landspítala en einnig á öldrunarlækningadeild, bráðamóttöku í Fossvogi, gjörgæsludeildum Landspítala og á lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri.
Niðurstaða úttektarinnar er komin. Sérnámið er vottað og kennslustjórum, námslæknum og námshandleiðurum óskað til hamingju. Tekið er fram hversu mikil vinna hefur verið lögð í endurskipulagningu námsins og að á tiltölulega stuttum tíma hafi tekist að þróa sérnámið þannig að vottun hafi náðst.
Fulltrúar fjölmargra annarra sérgreina hafa nú þegar sótt námskeið RCP fyrir handleiðara og vilja nýta sér fordæmi lyflækninga. Ef hægt er að koma þannig skipulagi á framhaldsnám á Landspítala að námslæknar telji hag sínum best borgið með því að stunda a.m.k. fyrri hluta sérnáms á Íslandi (þrjú ár eftir kandídatsnám í flestum greinum), þá mun það bæta til muna gæði og öryggi íslenskrar heilbrigðisþjónustu og stuðla að aukinni starfsánægju.
Ég óska lyflækningasviði til hamingju með árangurinn og vona að þið öll hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin.
Páll Matthíasson