Ljósmæður og læknar fæðingarvaktar mælast til þess að eingöngu einn einstaklingur sé viðstaddur fæðingu móðurinni til stuðnings til að trufla ekki það viðkvæma ferli sem fæðingin er. Heimsóknir á fæðingarvakt til fæðandi kvenna og fyrstu tímana eftir fæðingu eru ekki æskilegar. Fæðingin og tíminn fyrst eftir fæðingu er mikilvægur fyrir tengslamyndun foreldra og nýbura. Grunnurinn að brjóstagjöf er lagður á fyrstu tímunum eftir fæðingu og mikilvægt að móðir og barn fái frið og tíma til að leggja þann mikilvæga grunn. Konur dvelja á fæðingarvaktinni meðan á fæðingu stendur og í um það bil tvær klukkustundir eftir fæðingu. Eftir það flytjast þær á meðgöngu- og sængurlegudeild.
Heimsóknir á meðgöngu- og sængurlegudeild 22A
Heimsóknir á meðgöngu- og sængurlegudeild eru eingöngu fyrir nánustu aðstandendur milli kl. 16:00 og 19:30. Mikilvægt er að sýna tillitssemi, skipuleggja heimsóknir í samráði við foreldra og fresta heimsóknum ef fólk er með kvef eða flensu. Heimsóknir barna yngri en 12 ára hafa ekki verið leyfðar í vetur vegna RS víruss og verður það bann í gildi meðan ný tilfelli koma upp.
Mikilvægt er að heimsóknargestir kanni hjá foreldrum hvar fjölskyldan er því meðgöngu- og sængurlegudeildin er bæði á 2. og 3. hæð í kvennadeildarhúsi Landspítala. Konur sem eiga börn á vökudeild dvelja yfirleitt á 3. hæð og þá er gengið inn um Barnaspítalann. Aðrar sængurkonur og konur sem eru inniliggjandi á meðgöngu dvelja á 2. hæð og þá er gengið inn um inngang kvennadeildarhússins.