Langvinnir verkir, sársauki, pína – í kristni fyrri tíma og nú á 21. öldinni “ er yfirskrift fyrirlesturs Arnórs Víkingssonar gigtlæknis í Hannesarholti að Grundarstíg 10 í Reykjavík þriðjudaginn 17. mars 2015.
Aðgangseyrir er 1000 kr, miðasala á www.midi.is. Veitingahús Hannesarholts verður opið frá kl 18:00.
Verkur eða sársauki er í senn einfalt og flókið fyrirbæri. Einfalt því bráður verkur er aðvörunarmerki um hugsanlega hættu sem þarf að bregðast strax við, flókið því langvinnur verkur er oft að litlu leyti tengdur líkamsáverka eða sliti en er samt ekki geðsjúkdómur eða ímyndun. Langvinnur verkur hefur þriðju víddina sem læknavísindunum hefur hingað til ekki gengið vel að festa hendur á. Vídd sem tengist sterkt inn á sálarlífið og þær hugmyndir sem við gerum okkur um mannlega tilveru.
Í erindinu mun Arnór Víkingsson gigtarlæknir og sérfræðingur hjá verkjamiðstöðinni Þraut og á Landspítala, fjalla um eðli langvinnra verkja, hlutverk þeirra og áhrif á einstaklinginn. Einnig verður skoðað hvernig vestræn samfélög hafa brugðist við þessu vandamáli og staða verkjasjúklinga í dag borin saman við stöðu þeirra á miðöldum. Sú áleitna spurning verður rædd hvort nútímasamfélagið sé í lykilatriðum að taka rangt á vandamálum sjúklinga með langvinna verki og þannig bregðast raunverulegum þörfum þeirra.