Rjóður, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og fötluð börn, er 10 ára fimmtudaginn 20. mars 2014.
Af því tilefni verður afmæliskaffi þann dag í húsakynnum þess við voginn í Kópavogi kl. 15:00 til 17:00.
Velferðarsjóður barna átti veg og vanda að stofnun Rjóðurs og hefur síðan stutt starfsemina sem er núna hluti af kvenna- og barnasviði Landspítala og í nánum tengslum við Barnaspítala Hringsins. Börn og unglingar með langvinna sjúkdóma koma til hvíldarinnlagna í Rjóður og frá Barnaspítalanum í endurhæfingu eftir sjúkdóma eða slys.
Á 10 árum hafa um 160 börn og unglingar dvalið í Rjóðri auk þeirra sem hafa verið þar í endurhæfingu. Starfsemin í Rjóðri hefur reynst ákaflega farsæl.
Í 10 ára afmælisblaði Rjóðurs sem kemur út 20. mars skrifar Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og fyrrverandi formaður Velferðarsjóðs barna, meðal annars:
"Það er gott til þess að vita að 10 ára saga Rjóðurs ber vitni um vel heppnaða framkvæmd þar sem margar hendur unnu saman að því að láta draum rætast, draum um að til yrði fyrsta hvíldarheimilið fyrir langveik börn sem kæmu í skammtíma innlagnir til að njóta endurhæfingar og samvistar við önnur börn í svipaðri aðstöðu".