Verkefnið „Kynlíf og veikindi“ hófst á Landspítala 1. mars 2013 og í tengslum við það hefur verið opnaður vefurinn kynlifogveikindi.is þar sem finna má ýmsar upplýsingar um efnið. Hluti af verkefninu var vikan „Kynlíf og lífsgæði – vika kynlífs á Landspítala“ sem haldin var fyrir skömmu. Allir fyrirlestrarnir á vikunni voru teknir upp og eru nú aðgengilegir á kynlifogveikindi.is.
Kynlíf og veikindi er framhald verkefnisins „Kynlíf og krabbamein“ sem lauk um síðustu áramót. Markmið verkefnisins er tvíþætt, annars vegar að fræða starfsfólk um kynheilbrigði og kynlíf og kenna leiðir til að opna þá umræðu meðal sjúklinga með langvinna sjúkdóma og aðstandenda þeirra, hins vegar að sjúklingum og aðstandendum standi til boða þjónusta kynlífsráðgjafa. Jóna Ingibjörg Jónsdóttir var ráðin kynlífsráðgjafi við spítalann til að vinna að markmiðum verkefnisins.